Um er að ræða forvitnilegt umhverfislistaverk eftir myndlistarmanninn Ólöfu Nordal. Listaverkið nefnist Þúfa og sést víða að í borginni. Upp eftir Þúfu liggur spírallaga, mjótt einstigi sem breikkar smám saman er ofar dregur og á toppnum trónir upplýstur fiskihjallur. Grandi er stórskemmtilegt svæði, hvort heldur er fyrir svanga matargesti, kokteilþyrsta, listelska eða fyrir útivistarfólk enda umkringir hafið svæðið og veitir hressandi vindmótstöðu með tilheyrandi sjávarilm. Fjöldi manns leggur leið sína á tangann á Granda að skoða Þúfu og til að ganga hana, enda er fallegt útsýni af henni yfir höfnina, Hörpu og Esju.

Viðgerðir á Þúfu árið 2018. Fréttablaðið/Anton Brink

Skemmdist í vatnsveðri

Í febrúar árið 2018 skemmdist Þúfa í miklu vatnsveðri og þurfti að girða hana af meðan á viðhaldi stóð. Í viðtali sem birt var á veftímaritinu Hugrás segir Ólöf að hún hafi ætlað Þúfu að hverfa ofan í jörðina smám saman, en fjögur ár væru nú fullstuttur líftími. Hún segir að það hafi verið ljóst frá upphafi að Þúfa þyrfti mikið viðhald. „Það er náttúrulega bara frábært að sjá hvað hún fær mikla athygli og ekki síður notkun; allir sem skapa umhverfislistaverk gera það auðvitað með notendur í huga.“

Manngert fjall og náttúrulegt fjall. Fréttablaðið/Vilhelm.

Hverfulleiki alls

Það má vel túlka verkið Þúfu sem brú á milli náttúru og borgar, enda manngert fjall í manngerðu umhverfi með náttúruöflin í bakgrunni, og þá sérstaklega þegar tekið er tillit til staðsetningar Þúfu. Andspænis henni eru hvort tveggja hinn stórkostlegi manngerði arkitektúr Hörpu sem og náttúrutenging allra Reykjavíkurbúa, Esjan og hafið. Ólöf segist vera veik fyrir náttúrulegum efnum: grjóti, mold og grasi. „Þau verða auðvitað náttúruöflunum fljótt að bráð, en hversu lengi þarf maður eiginlega að halda nafni sínu á lofti? Við höfum bara ákveðinn tíma hér á jörðu og hverfum síðan á braut. Spor okkar mást líka og hverfa. Það er hinn eðlilegi gangur lífsins. Allt er hverfult.“

Þúfa er þannig allt í senn tákn fyrir hverfulleika náttúrunnar, hins manngerða sem og mannsins í náttúrunni.