Mikil aukning er á sölu fetaosts í verslunum hér á landi eftir að uppskrift að pastarétti fór á flug um samfélagsmiðla.

Íslendingar keppast við að birta myndbönd af sér að elda þennan einfalda pastarétt á „Tik Tok“ en samkvæmt uppskriftinni á að baka kirsuberjatómata með feta kubbi í ofninum með ólífu, salt og pipar, basil og ýmsum öðrum kryddjurtum eftir smekk.

Baldur Ólafsson, markaðsfulltrúi Bónus, segist hafa beðið starfsfólk verslananna að vera á varðbergi og passa að varan sé til í hillu. Hann segir 30 prósenta aukningu í sölu á fetaosti, þ.e. stórum feta kubb, frá byrjun árs. Sjálfur segist hann hafa prófað uppskriftina og mælir með að fólk setji meiri olíu en það haldi að það eigi að setja, annars gæti rétturinn orðið svolítið þurr.

„Þetta er töluverð hækkun milli desember og janúar. Og þetta verður sennilega „trend“ út febrúar mánuð, þetta alla vega lítur út fyrir að vera á uppleið,“ segir Baldur.

Sigurður Reynaldsson, framkvæmdastjóri Hagkaup, segir að þau hafi einnig tekið eftir aukinni sölu á þessari vöru, um 60 prósenta aukning frá byrjun árs. „Það er algengt að ákveðnar vörur seljast hratt þegar svona „trend“ fara af stað en þetta getur endað jafn hratt og það byrjaði.“ Segir hann vinsælustu vöruna í fetalínunni vera feta-kubburinn. „Þetta er stóri sellerinn,“ segir hann.

Vegan osturinn uppseldur

Grænkerar hafa einnig prófað að veganvæða þessa uppskrift og hefur gríski osturinn frá Violife selst upp í Vegan búðinni í Skeifunni.

„Gríski osturinn, Greek Block, er alveg uppseldur. Ég sé að hann er alveg búinn.“ segir Linda í Vegan búðinni.