Iðnó opnar dyr sínar á nýjan leik í dag eftir að hafa legið í hálfgerðum dvala á meðan á faraldrinum stóð. Af því tilefni er slegið til opnunarhátíðar sem stendur yfir í dag og boðið verður upp á dagskrá fyrir unga sem aldna.

„Við ætlum að glæða lífi í Iðnó aftur, enda hefur húsið verið lokað í um eitt og hálft ár,“ segir Guðfinnur Sölvi Karlsson rekstrarstjóri IÐNÓ. „Húsið verður aftur opið frá morgni til kvölds alla daga þar sem hægt verður að skoða húsið og kynnast sögu þess, stoppa við í kaffi eða kjötsúpu þegar verið er að gefa öndunum og svo verða auðvitað fjölbreyttir viðburðir á boðstólum.“

Iðnó hefur í gegnum árin verið nýtt undir nánast hvað sem er, hvort sem það eru leiksýningar, erfidrykkjur eða æfingapláss fyrir harmónikufélag. Guðfinnur segir að það sé ekki að fara að breytast.

„Við mun taka við öllu eins og Iðnó hefur gert í gegnum tíðina, og jafnvel enn meiru,“ segir hann. „En öll gömlu gildin verða líka.“

viðkvæm andlitslyfting

Þá hefur tíminn undir feldinum einnig verið nýttur í að gefa húsinu andlitslyftingu þótt ekki megi miklu breyta án þess að allir brjálist.

„Breytingarnar eru búnar að vera í fullu samstarfi við Minjastofnun og arkitektinn sem sá um að endurreisa húsið í lok tíunda áratugarins,“ segir Guðfinnur. „Við höfum litlu breytt fyrir utan að slípa upp en samt viðhalda í gamla mátann. Það er auðvitað ekki hægt að snerta þennan sal, hann er eiginlega alveg eins nema það er aðeins búið að mála og laga hann til.“

Þá hafa mestar breytingar verið gerðar við innganginn þar sem Guðfinnur segir að oft hafi getað myndast flöskuháls. „Það er búið að setja upp gullfallegt afgreiðsluborð sem var teiknað fyrir löngu síðan af Páli Bjarnasyni,“ segir hann. „Við rífum ekkert eða breytum engu stórvægilegu. Þetta er hús sem fólk hefur auðvitað miklar skoðanir á og það koma hingað menn sem hafa verið með fundi í einhver sjötíu ár. Ef maður færi vitlaust að þessu þá væri maður bara réttdræpur!“

Dagskrá opnunarhátíðarinnar hefst klukkan 12 og má kynna sér í heild á Facebook síðu IÐNÓ.