Kvikmyndir

Parasite

Leikstjórn: Bong Joon Ho

Aðalhlutverk: Kang-ho Song, Sun-kyun Lee, Yeo-jeong Jo

★★★★

Suðurkóreska kvikmyndin Parasite, eða Sníkjudýrin, eftir leikstjórann Bong Joon Ho, fjallar um hjón með tvö börn á þrítugsaldri. Fátæka lágstéttarfjölskyldu sem beitir ýmsum brögðum til að komast af og svífst einskis í tilraunum til að bæta stöðu sína í samfélaginu. Líf þeirra tekur stakkaskiptum þegar sonurinn fær vinnu við að kenna dóttur ríkra hjóna ensku.

Myndin er skemmtileg blanda af svörtum húmor og spennu þar sem leikstjórinn skemmtir sér greinilega við að stuða áhorfandann sem veit stundum ekki hvort hann eigi að hlæja eða gráta yfir ósvífni hinnar fullkomlega tækifærissinnuðu Kim-fjölskyldu.

Innræti þeirra kemur í ljós strax í byrjun þegar fylgst er með systkinunum reyna að stelast í Wifi nágrannanna og hrekja yfirmann þeirra í vörn þegar hann kemur til þess að kvarta yfir því hversu illa þau skila því einfalda starfi að brjóta saman pitsukassa. Þar smjúga þau inn í rammann eins og rottur og þjarma þannig að yfirmanninum að hann snýst frá því að vera öskureiður yfir í að veita systurinni stöðuhækkun.

Kim-fjölskyldan virðist vera mjög samrýnd. Þau eru gjarnan sýnd borða og drekka saman en einnig vinna þau öll við að brjóta saman fyrrnefnda pitsukassa í litlu íbúðinni sinni. Park-fjölskyldan eyðir hins vegar litlum tíma saman og deilir sjaldan öllum atriðum í myndinni. Þau eru alger andstæða Kim-hyskisins og eiga ekki von á góðu þegar sníkjudýrin finna af þeim smjörþefinn.

Leikur að andstæðum

Bong Joon Ho leikur sér einmitt mikið með andstæður, en einnig form og rými. Þetta sést til dæmis í mjög ólíkum híbýlum fjölskyldnanna. Fátæka Kim-fjölskyldan býr í þröngri niðurgrafinni kjallaraíbúð þar sem allt er á rúi og stúi. Íbúðin er í vafasömu hverfi þar sem reglulega kemur upp á að einhver létti á sér beint fyrir utan stofugluggann.

Svo ólík eru hús fjölskyldnanna tveggja að sonurinn, sem kemur fyrstur inn í líf Park-fjölskyldunnar, lítur út eins og hann hafi stigið inn í annan heim þegar hann stígur þar inn.

Til að komast að glæsihýsi Park-fjölskyldunnar þarf að ganga upp mikinn bratta og um húsið virðist nánast hafa verið slegið skjaldborg múrveggja og runna til þess að halda skrílnum úti.

Í Park-húsinu er hátt til lofts og vítt til veggja. Allt er óaðfinnanlega hreint og það er röð og regla í þessu dauðhreinsaða virki úr steinsteypu og gleri. En oft er flagð undir fögru skinni. Bæði húsið og Park-fjölskyldan hafa eitthvað að fela. Maður veltir fyrir sér hvað Park-pabbinn, sem er sjaldan heima, hafi gert til þess að komast á þann stað í lífinu sem hann er á. Er hann tækifærissinni? Sveifst hann einskis til að bæta stöðu sína?

Skemmtilegur skollaleikur

Kang-ho Song er einstaklega góður sem fjölskyldufaðir sníkjudýranna sem þögull hugsar sitt og sér ekkert athugavert við að nýta sér og sínum ríkidæmi Park-fjölskyldunnar.

Yeo-jeong Jo er síðan frábær í túlkun sinni á trúgjarnri og taugaveiklaðri auðkonunni sem hefur áhyggjur af öllu nema því sem raunverulega er í gangi á hennar eigin allsnægtaheimili.

Þótt leikurinn fari hér fram á framandi tungumáli þannig að maður skilur ekki orð ber ekki á öðru en að leikararnir túlki persónur sínar með miklum sóma og þegar á líður gleymir maður því að sagan á sér stað í óskilgreindri borg í Suður-Kóreu.

Sagan er um stéttaskiptingu og svik og efnistökin eru einfaldlega það góð að hún springur út í sammannlega og alþjóðlega tragikómedíu sem á við hvar sem er og hvenær sem er.

Niðurstaða: Góð mynd um stéttaskiptingu og dæmisaga um hvernig afleiðingar hennar kristallast í hráskinnaleik þar sem bæði þau ríku og fátæku níðast hvert á öðru sér til framdráttar.