Leikhús: Þétting hryggðar


Þétting hryggðar er fyrsta frumsamda leikrit Halldórs Laxness Halldórssonar í fullri lengd og er sýnt í Borgarleikhúsinu. Leikhúsgagnrýnandi Fréttablaðsins, Sigríður Jónsdóttir, sagði í dómi: „Hér er á ferðinni handrit sem talar þráðbeint inn í samtímann og fjallar um mörg málefni sem brenna á borgarbúum.“ Hún sagði handrit Halldórs vera smellið og að leikur Völu Kristínar Eiríksdóttur væri stórkostlegur.

Handrit Dóra DNA talar beint inn í samtímann.
Fréttablaðið/Samsett


Bók: Þung ský


Nýjasta skáldsaga Einars Kárasonar, Þung ský, fjallar um örlagaríkan björgunarleiðangur eftir skelfilegt flugslys. Gagnrýnandi Fréttablaðsins, Kristján Jóhann Jónsson, er hrifinn af bókinni. Í gagnrýni sagði hann Einar vera bráðsnjallan sögumann og hrósaði honum fyrir næmar og hlýlegar mannlýsingar. „Meitluð frásögn af sterkum tilfinningum, lífi og dauða. Höfundurinn er þaulreyndur sagnamaður og frásögnin nýtur þess út í ystu æsar,“ sagði Kristján.

Sagnamaðurinn Einar Kárason nýtur sín út í ystu æsar í Þungum skýjum.
Fréttablaðið/Samsett


Myndlist: Muggur


Sýningin Muggur er í Listasafni Íslands, Fríkirkjuvegi. Þar eru öllum þáttum myndsköpunar þessa fjölhæfa listamanns gerð skil. Muggur, Guðmundur Thorsteinsson, fæddist árið 1891 og lést árið 1924 úr berklum.

Listunnendur mega ekki missa af sýningu Muggs.
Fréttablaðið/Samsett

Sýningin er einstaklega fallega upp sett og í tilefni hennar kemur út vegleg bók um listamanninn. Þetta er sýning sem listunnendur mega ekki missa af því þar er afar margs að njóta.