Ég hef brennandi á­huga á matar­gerð og finnst fátt skemmti­legra en að dunda mér í eld­húsinu við að búa til og borða góðan mat. Ég hef líka alltaf haft mikinn áhuga á því að taka myndir og fannst tilvalið að sameina þessi tvö áhugamál í eitt og gera það að fullu starfi,“ segir Steinunn Steinars­dóttir, leik­skóla­kennari, græn­keri og matar­bloggari í Lundúnum, þangað sem hún flutti með fjöl­skyldu sinni í júní 2018.

„Okkur langaði að prófa eitt­hvað nýtt og spennandi. Manninum mínum, Birni, var boðið starf hér úti og okkur fannst til­valið að láta slag standa. Við höfðum lengi verið opin fyrir því að stökkva á tækifærið að prófa að búa í öðru landi og þar sem London er ein af upp­á­halds­borgunum okkar erum við himin­lifandi með að vera hér,“ segir Steinunn sem jafnan er kölluð Steina.

Hún segir London frá­bæra borg.

„Hér iðar allt af mann­lífi, hvert sem maður fer. Fjöl­breyti­leikinn er alls­ráðandi og það er mjög skemmti­legt að vera matar­á­huga­manneskja í London því hér eru veitinga­staðir sem leggja á­herslu á matar­gerð úr öllum heims­hornum og af nógu að taka. Eins eru hér ansi mörg veitinga­hús sem bjóða ein­göngu upp á græn­keramat og við reynum að fara reglu­lega út að borða á þeim stöðum.“

Södd og hraust á vegan­fæði

Steina og fjöl­skylda á­kváðu að prófa að spreyta sig á græn­ker­a­fæði í Veganúar árið 2016.

„Eftir mánuð á græn­ker­a­fæði fannst okkur eigin­lega frá­leitt að fara aftur að borða dýr og dýra­af­urðir. Við vorum jafn södd og áður, öll hraust og ekkert okkar með þennan al­ræmda næringar­skort. Í raun var ó­trú­lega ein­falt að skipta út hrá­efnum til að gera matinn hentugan fyrir græn­kera. Ég byrjaði á að gera vegan-út­gáfu af réttum sem við borðuðum hvað oftast heima; hakk og spagettí, vefjur, pítur, pítsur og bollur í brúnni sósu. Allt er þetta spurning um að prófa sig á­fram, skoða hvað manni finnst gott og vinna sig út frá því,“ upp­lýsir Steina.

Hún segir já­kvætt fyrir alla og ekki bara græn­kera að elda stöku sinnum vegan-krásir til að létta á kol­efnis­sporinu og loft­lags­vánni.

„Þó svo að vera græn­keri snúist fyrst og fremst um vel­ferð dýra er um­hverfis­vernd og heilsa líka oft ein af á­stæðum þess að fólk kýs að borða plöntu­fæði. Eins og staðan er í dag fer ó­trú­lega mikil orka í að rækta dýr og búa til dýra­af­urðir. Því er ekki hægt að líta fram­hjá því að ef við slepptum þessum milli­liðum, sem eru oft stórar skepnur sem borða miklu meira en ein manneskja, og nýta þess í stað orkuna sem fer í að fóðra dýrin í að rækta mat fyrir fólk myndi það aldrei kosta meiri orku,“ segir Steina og bendir á á­huga­verðar upp­lýsingar um kol­efnis­spor matar á matar­spor.is.

„Oft er talað um heilsu­fars­legan á­vinning af því að verða græn­keri og við höfum alveg fundið fyrir þeim á­hrifum. Bæði ég og maðurinn minn léttumst um nokkur kíló en ég held það hjálpi mér ekki mikið með vigtina að vera matar­bloggari og alltaf að möndla með mat. Sjálf finn ég mikinn mun á meltingunni. Ég er með mjólkur­ó­þol og þurfti alltaf að fara var­lega í mjólkur­vörur en nú er það ekki lengur vanda­mál.“

Steina segir öllum hollt að prófa sig áfram með girnilegar vegan-krásir til að létta á kolefnissporinu og loftlagsvánni. MYND/STEINUNN STEINARSDÓTTIR

Græn­kerar góð­viljaðir

Steina setti matar­bloggið „A bite of kind­ness“ á lag­girnar í fyrra en áður hafði hún verið með ís­lensku vef­síðuna steina.is.

„Mig langaði að höfða til breiðari hóps og endur­spegla hug­mynda­fræði mína í nafni síðunnar. Það að vera græn­keri felur nefni­lega í sér góð­vild. Góð­vild gagn­vart dýrum, um­hverfinu, heilsu, öðru fólki og okkur sjálfum. Ég vil meina að ef við lifum í góð­vild og kær­leika séu okkur allir vegir færir,“ segir Steina.

Upp­á­hald­s­kó­sí­maturinn hennar um helgar er pítsa.

„Við fjöl­skyldan elskum pítsu sem er hin full­komna mál­tíð og hægt að út­búa á fjöl­breyttan máta, bæði léttar og mjög matar­miklar. Við gerum hana ýmist sjálf með alls­konar á­leggi eða pöntum. Mín upp­á­hald­s­pítsa er samt heima á Ís­landi og ég held að Ís­lenska flat­bakan sé einn allra besta pítsa­staður í heimi.“

Um helgina ætlar Steina að dytta að garðinum og reyta arfa í mat­jurta­garðinum.

„Þar sem allt er meira og minna enn lokað vegna CO­VID 19 í London eru helgar­plönin ekkert svaka­leg. Ég skrepp kannski í garð­búðina sem er opin en við gætum þurft að standa í röð til að komast inn vegna fjölda­tak­markana. Þannig er lífið hérna úti núna; að standa í röð ef maður vill komast í búð. Við höfum þess vegna kynnt vel undir sam­band okkar við Amazon undan­farið,“ segir Steina sem hefur það mjög gott í Lundúnum og er ekki til­búin að flytja heim.

„Ég verð þó að viður­kenna að ég finn fyrir heim­þrá af og til. Sér­stak­lega þegar vinir og ættingjar birta myndir út úti­legum. Úti­legur í ís­lenska sumrinu eru lík­lega það besta í heimi.“

Fylgstu með girnilega eldhúsinu hennar Steinu hér: A bite of kindness og á Instagram.

Teriyaki Oumph-vefjur með mangó-chilli sósu er einstaklega bragðgóður matur á kósí helgarkvöldi og tilvalinn til að prófa sig áfram á grænkerafæði. MYND/STEINUNN STEINARSDÓTTIR

Teri­yaki Oumph-vefjur með mangó-chilli sósu

1 poki ó­kryddaðir Oumph C­hunks

1 tsk. sesa­m­olía

1 msk. sól­blóma­olía

Smá­vegis af chilli­dufti

Salt og pipar eftir smekk

½ flaska þykk Teri­yaki-sósa
(Blue Dragon Sticky Japa­nese Sauce virkar vel)

Mangó-chilli sósa:

½ bolli mangó

½ bolli vegan grísk jógúrt

1 tsk. soja­sósa

1 tsk. epla­edik

1 msk. sweet chili sósa

Annað:

8 tortilla vefjur eða stór salat­blöð

½ paprika, skorin í strimla

½ agúrka, skorin í sneiðar

¼ rauð­kál, skorið í þunnar ræmur

Hand­fylli af brokkólí­spírum

Hand­fylli af fersku kórían­der

Sesam­fræ

Hitið sesa­m­olíu og sól­blóma­olíu á pönnu og bætið Oumph-bitunum út á. Steikið á miðlungs­hita þar til bitarnir eru orðnir heitir í gegn og að­eins byrjaðir á brúnast. Bætið teri­yaki-sósu út á á­samt chilli, salti og pipar. Hrærið vel og látið malla í 3-5 mínútur á meðan teri­yaki-sósan þykknar. Takið af hitanum og setjið til hliðar.

Mangó-chilli-sósan:

Setjið mangó í mat­vinnslu­vél og maukið þar til mangóið er vökva­kennt. Bætið grískri jógúrt út í á­samt sweet chili-sósu, epla­ediki og soja­sósu. Blandið vel saman, bætið við salti og pipar ef vill.

Borið fram í vefju eða á salatblaði. Dreifið græn­meti yfir vefju eða salat­blað, bætið Oumph-bitum ofan á og toppið með mangó-chilli-sósu og sesam­fræjum. Njótið vel!

Það verður enginn svikinn af þessari bragðmiklu og hollu máltíð sem Steina útbjó fyrir lesendur til að njóta um helgina. FRÉTTABLAÐIÐ/STEINUNN STEINARSDÓTTIR