„Mér fannst Skaupið geggjað, ég er hrikalega ánægð með það,“ segir Ásthildur Sturludóttir, bæjarstjóri á Akureyri.
Sumum þótti sem Akureyringar fengju helst til mikla útreið í skaupinu þar sem fjöldi mála á árinu rataði inn í Skaupið með beittum hætti. Ekki síst fengu lögregluyfirvöld í héraði væna pillu vegna afskipta af blaðamönnum sem fjalla um Samherja.
„Það kom mér bara skemmtilega á óvart hvað Akureyri fékk mikið pláss,“ segir Ásthildur um þetta.
Spurð hvort löggan þurfi að taka til sín eitthvað sem betur mætti fara, svarar Ásthildur: „No comment.“ Hún sjái í öllu falli ekki að hinn almenni bæjarbúi þurfi að taka neitt til sín.
„En allir sem eru í opinberri umræðu geta átt von á útreið, maður þarf bara að þola það.“
Vandræðagangur Akureyringa með reglur um kattahald fengu nokkurt pláss í Skaupinu. Færslur á Twitter og fleiri samfélagsmiðlum um að réttast væri að flytja höfuðstað Norðurlands til Húsavíkur hafa vakið athygli en Ásthildur segir að höfuðstaður Norðurlands verði alltaf Akureyri.
„Það hljóta að vera bara Húsvíkingar sem halda svona fram,“ segir Ásthildur og hlær.
„Þetta er bara áramótaskaup og engin ástæða fyrir einn né neinn að fara í fýlu."