„Mér fannst Skaupið geggjað, ég er hrika­lega á­nægð með það,“ segir Ást­hildur Sturlu­dóttir, bæjar­stjóri á Akur­eyri.

Sumum þótti sem Akur­eyringar fengju helst til mikla út­reið í skaupinu þar sem fjöldi mála á árinu rataði inn í Skaupið með beittum hætti. Ekki síst fengu lög­reglu­yfir­völd í héraði væna pillu vegna af­skipta af blaða­mönnum sem fjalla um Sam­herja.

„Það kom mér bara skemmti­lega á ó­vart hvað Akur­eyri fékk mikið pláss,“ segir Ást­hildur um þetta.

Spurð hvort löggan þurfi að taka til sín eitt­hvað sem betur mætti fara, svarar Ást­hildur: „No comment.“ Hún sjái í öllu falli ekki að hinn al­menni bæjar­búi þurfi að taka neitt til sín.

„En allir sem eru í opin­berri um­ræðu geta átt von á út­reið, maður þarf bara að þola það.“

Vand­ræða­gangur Akur­eyringa með reglur um katta­hald fengu nokkurt pláss í Skaupinu. Færslur á Twitter og fleiri sam­fé­lags­miðlum um að réttast væri að flytja höfuð­stað Norður­lands til Húsa­víkur hafa vakið at­hygli en Ást­hildur segir að höfuð­staður Norður­lands verði alltaf Akur­eyri.

„Það hljóta að vera bara Hús­víkingar sem halda svona fram,“ segir Ást­hildur og hlær.

„Þetta er bara ára­móta­skaup og engin á­stæða fyrir einn né neinn að fara í fýlu."