Séra Þór­hallur Heimis­son sendi á dögunum frá sér bókina Allt sem þú vilt vita um Biblíuna þar sem hann leiðir les­endur um króka og kima bókar bókanna í að­gengi­legri frá­sögn. Þór­hallur hefur starfað sem prestur bæði í ís­lensku og sænsku þjóð­kirkjunni og fengist við skrif sam­hliða því.

Síðasta bók Þór­halls ber titilinn Saga guðanna og fjallar um þekktustu trúar­brögð heims. Í henni er kafli um kristni og þá kviknaði hug­mynd hjá Þór­halli að skrifa sér­staka bók um Biblíuna. Ljóst var að Þór­hallur ætti mikið verk fyrir höndum en ör­lögin gripu nokkuð harka­lega í taumana fyrir tveimur árum með þeim af­leiðingum að honum gafst góður tími til að helga sig rann­sóknum og skrifum.

„Þar sem ég er í fullri vinnu er oft erfitt að finna tíma til að skrifa. Svo fót­brotna ég dá­lítið illa í janúar 2020 í kringum Co­vid þegar ég datt á skíðum. Ég fór í stóra að­gerð og sá fram á að ég myndi liggja rúm­fastur ein­hverja mánuði. Þegar ég rankaði við mér al­menni­lega og búið var að sauma mig saman, hugsaði ég: „Nú kýli ég bara á þetta“. Ég notaði tímann eins vel og ég gat og skrifaði öllum stundum. Ég hafði þrjá mánuði alveg í friði, bara eins og munkur í klaustri, og þá náði ég utan um þetta,“ segir hann.

Séra Þórhallur ásamt hóp af fermingarbörnum í góðu stuði.
Mynd/Aðsend

Biblían mikið ævin­týr

Biblían er bók sem flestir þekkja en fæstir hafa lesið spjaldanna á milli. Finnst þér að allir ættu að lesa Biblíuna?

„Ég held að það sé til lítils að ná í Biblíuna upp í hillu, fletta upp á blað­síðu 1 og byrja að lesa. Yfir­leitt gefast menn upp svona í miðri fyrstu Móse­bók. En með því að setja sig inn í þessa texta, átta sig á því hvernig þeir eru skrifaðir og hvers vegna og lesa hana síðan, þá er hún mikið ævin­týr. Án þess að tala um trú­mál, þá hefur Biblían náttúr­lega verið inn­blástur margs­konar menningar­strauma allt til okkar tíma og er enn. Kvik­myndir, málara­list, högg­myndir, arki­tektúr, skáld­sögur og bók­menntir sækja mikið til hennar.“

Biblían er ekki bara ein bók heldur margar bækur frá ó­líkum tímum. Er ekki flókið að ætla að skrifa um svo víð­feðmt rit?

„Jú, þetta er náttúr­lega bilun því efnið er mikið, en verk­efnið er skemmti­legt. Eins og ég segi í for­málanum þá þýðir orðið Biblía ein­mitt bóka­safn. Og það er í raun auð­velt að átta sig á ritinu, sjá sam­hengið í því og hvernig það er sam­sett. Það er ein­mitt það sem er svo spennandi við Biblíuna. Þannig að þetta hljómar eins og ó­vinnandi vegur en í rauninni er það ekki flókið að skrifa bók um Biblíuna.“

Myrku hliðar Biblíunnar

Biblían er ein þekktasta bók mann­kyns­sögunnar en hún er líka ein sú um­deildasta og hefur verið notuð af sumum til að ala á sundrung og hatri. Þór­hallur kveðst ekki hafa skorast undan því að fjalla um þessar myrkari hliðar Biblíunnar.

„Í lokin tek ég til dæmis fyrir hvernig Biblían hefur verið notuð til að halda konum niðri og of­sækja sam­kyn­hneigða svo dæmi sé tekið. Ég fjalla einnig um Gyðinga­hatur kirkjunnar, um­hverfis­vernd og Biblíuna og fleiri af hinum stóru málum sem við glímum við enn í dag,“ segir hann.

Eitt það sem kirkjunnar menn hafa deilt hvað mest um á síðustu árum og ára­tugum er við­horf kristninnar og Biblíunnar gagn­vart sam­kyn­hneigð. Í Allt sem þú vilt vita um Biblíuna er Þór­hallur með heilan kafla til­einkaðan því.

„Í fyrsta lagi reyni ég að varpa ljósi á hvernig textar sem taldir eru fjalla um sam­kyn­hneigð hafa verið þýddir og túlkaðir gegnum aldirnar. Svo fjalla ég líka um Jesú og sam­kyn­hneigð og hvernig hann mætir ein­stak­lingnum og kyn­ferði manna. Ég reyni að draga það saman og sýna hvernig þarna hefur í raun verið búin til ein­hver kenning um kyn­ferði sem er ekki endi­lega komin úr Biblíunni,“ segir Þór­hallur.

Þórhalli gafst góður tími til að vinna að bókinni þegar hann fótbrotnaði á skíðum árið 2020.
Fréttablaðið/Anton Brink

Hvað myndi Jesús gera?

Er þá ekkert í Biblíunni sem and­mælir sam­kyn­hneigðum, er það bara seinni tíma túlkun?

„Um það er auð­vitað deilt og þess vegna enda ég með því að spyrja „What would Jesus say?“ Jesús er mikið á ferð á svæðum þar sem sam­kyn­hneigð er viður­kennd eins og í grísku ríkjunum sem voru í kringum Ísrael á hans tíma. Hann minnist aldrei á kyn­hneigð manna, hvorki sam­kyn­hneigð né gagn­kyn­hneigð. Hann talar um að þú eigir að elska náungann eins og sjálfan þig, óháð öllu, og gera við aðra það sem þú viljir að aðrir geri við þig en ekki dæma. Hann hafnaði því sem er myrkt í Gamla testa­mentinu en lagði á­herslu á björtu hliðar þess.“

Fjár­sjóður í gegnum lífið

Þór­hallur er bú­settur í Sví­þjóð þar sem hann starfar sem prestur hjá sænsku þjóð­kirkjunni. Spurður um hvaða þýðingu Biblían hafi fyrir hann í dag­legu lífi segir hann:

„Ég hef það hlut­verk á hverjum sunnu­degi að predika út frá Biblíunni. Eins og ég segi nú oft við söfnuðinn minn úti er ég alltaf jafn­hissa þegar ég les texta komandi helgar, hvernig hann talar inn í mínar að­stæður. Mér finnst Biblían vera svo á­huga­verð af því hún býður upp á alla regn­boga mann­lífsins og fær okkur til að velta fyrir okkur okkar eigin lífi. Og svo boðar hún von og bjart­sýni sem gefur lífinu gildi. Hún er fjár­sjóður til að hafa með sér í gegnum lífið.“

Mér finnst Biblían vera svo á­huga­verð af því hún býður upp á alla regn­boga mann­lífsins og fær okkur til að velta fyrir okkur okkar eigin lífi.