Árný Fjóla Ás­munds­dóttir úr Gagna­magninu greindist í dag með CO­VID-19. Í Insta­gram færslu sem hún birti fyrr í dag segist hún vera „drullu­hress og ein­kenna­laus“ en hún gengur nú með annað barn sitt og eigin­manns hennar Daða Freys Péturs­sonar.

Þrjú staðfest smit innan hópsins

Í sam­tali við blaða­mann stað­festi Árný að hún væri sú eina af þeim sem komu heim frá Rotter­dam í gær sem greindist með veiruna en áður höfðu tveir úr ís­lenska hópnum greinst já­kvæðir.

Þeir ein­staklingar eru enn í sótt­kví í Rotter­dam en þar á meðal er Jóhann Sigurður Jóhanns­son sem greindi frá smiti sínu í byrjun síðustu viku.

Ýmislegt hefur gengið á hjá Daða og Gagnamagninu og þau gátu hvorki komið fram á seinni undan­keppni Eurovision síðast­liðinn fimmtu­daginn, né á úr­slita­kvöldinu á laugar­daginn, en lentu engu að síður í fjórða sæti keppninnar með lag sitt 10 Years. Árný virðist einnig hvergi af baki dottin en hún greindi frá því á Insta­gram-síðu sinni í kvöld að hún hafi fengið heim­sendingu af ís og víta­mínum.

Mynd/Instagram