Hönnuðurinn María Ericsdóttir Panduro og Laufey Elíasdóttir ljósmyndari standa fyrir prentseríu sem kallast Takk, jöklar. Þær vinna grafíkverk upp úr öllum jöklum á Íslandi út frá meðvitund um aðsteðjandi ógn vegna hnattrænnar hlýnunar.
„María var að vinna fyrir systur mína fyrir rúmlega tíu árum. Þar kynntumst við,“ segir Laufey Elíasdóttir um aðdraganda verkefnisins.
„Svo kemur María í heimsókn til mín og langar í samstarf. Hún sér Snæfellsjökul, orginalinn, uppi á vegg hjá mér og heillast svona af honum. Við ákváðum að fara af stað með jöklaverkefni og búa til grafík úr ljósmyndum. Við erum búnar að mynda Eiríksjökul en ætlum að mynda fleiri jökla. Sá eini sem er tilbúinn er Snæfellsjökull,“ segir hún.
Ljósmyndin sem María sá á veggnum hjá Laufeyju var tekin af Snæfellsjökli á Djúpalónssandi í nóvember 2017.
„Mér finnst ég eiga tilfinningalegt samband við jökla og fjöll. Mér finnst erfitt að vita af hlýnun jarðar og að jöklarnir okkar séu að bráðna og hverfa, hægt og rólega. Mér finnst mikilvægt að tengjast. Það er einhver náttúrutenging,“ segir Laufey sem segist fara mikið í sjóinn og sækja þangað kraft. Hún segir mikilvægt að anda inn í hjartað til að viðhalda umræddri tengingu.
Hissa yfir áhrifunum
„Ég var hissa þegar ég sá jöklamyndina hjá Laufeyju,“ segir María. „Mér fannst þetta svo flott og var hissa yfir hvað þetta hafði mikil áhrif á mig. Mér finnast fjöll og jöklar klisjukennd, eins og sólarlag. Ég er hönnuður og hugsa svo mikið visjúal. Ég vil alls ekki hafa sólarlagsmynd í kringum mig,“ segir María og hlær.
Hún tekur þó fram að hún eigi mynd af Heklu sem hún fann á nytjamarkaði, sem tekin var fyrir mörgum árum.
„Hún er mislituð og hefur furðu mikil áhrif á mig. Ég heillast mikið af Heklu. En mér fannst þetta skemmtilegt verkefni, að reyna að sjá jökla í öðru ljósi, sérstaklega út af hlýnun jarðar. Þó að ég færi inn í verkefnið með þetta markmið er ég samt hissa yfir hvað það hefur verið skemmtilegt, og hvað ég hlakka mikið til að vera í kringum þessa jökla,“ segir hönnuðurinn.

María segist fá mikið út úr því að ferðast í kringum Eiríksjökul og bætir því við að hún hafi aldrei keyrt í kringum hann eða upp að honum áður. Skemmtilegt hafi verið að búa til verk af jökli sem hana langaði að horfa á inni í stofu. „Litirnir hjálpa líka. Svo er gaman að blanda tegund af mynd af náttúru við abstrakt list. Ég er ánægð með hvernig það kom út,“ segir María.
Þær stefna á að vinna myndir af öllum jöklum og síðastur verður Ok, jökullinn sem nú er horfinn.
„Við endum á honum. Við stefnum á þrjú til fimm ár til að klára þetta allt. Við ætlum að fara af stað í janúar, keyra inn á Kjöl og taka Langjökul. Svo þurfum við að fara vestur – og út um allt,“ segir María. „Hugsunin er líka að mynda jöklana alltaf í ljósaskiptunum. Þegar maður gerir það verður myndin svona blá sem er mjög heillandi,“ segir María.
Myndin af Snæfellsjökli hangir uppi í Kaffifélaginu á Skólavörðustíg.