Á morgun verða fyrstu þættir gaman­þátta­raðarinnar Júró­garðurinn frum­sýndir á Stöð tvö. Þættirnir eru skrifaðir af þeim Dóra DNA, Steinda, Auðunni Blön­dal, leik­stjóranum Arnóri Pálma og Önnu Svövu Knúts­dóttur, en hún fer með hlut­verk Fríðu í þáttunum.

„Fyrir ári síðan vorum við sem sagt nánast bara sett inn í her­bergi og fengum frelsi til að skrifa það sem við vildum saman. Við skrifuðum allar hug­myndir upp á töflu og fórum út í vanga­veltur með hvort þetta yrði grín, drama eða jafn­vel sket­sa­þættir. Við vorum komin með alveg fjöl­margar hug­myndir. Þetta var sú hug­mynd sem við gátum öll sam­mælst um,“ segir Anna Svava.

Fengu frjálsar hendur

Þættirnir fjalla í stuttu máli um starfs­fólk Hús­dýra­garðsins. Við kynnumst karakter Auðuns, sem er að byrja að vinna í garðinum.

„Við byrjuðum á því að skapa per­sónurnar. Það var svo gaman að fá svona frjálsar hendur. Ég fékk eigin­lega að skapa mína per­sónu og Dóri sína og svo koll af kolli. Maður er byrjaður að þekkja karakterinn og getur í­myndað sér hvernig hann myndi bregðast við í að­stæðunum. Það er alveg ó­trú­legt hvað það auð­veldar mikið skrifin,“ segir hún.

Hún segir það hafa verið ó­trú­lega skemmti­lega reynslu að fá þarna tæki­færi til að skapa nýja per­sónu alveg frá grunni. Hún segist ekki endi­lega lík Fríðu, en að sjálf­sögðu eigi þær eitt­hvað sam­eigin­legt.

„Já, örugg­lega. Maður finnur eitt­hvað sam­eigin­legt með öllum. Hún er langt frá því eins og ég er í dag. Ég hef alveg ein­hvern tímann verið Fríða. Það hafa allir ein­hvern tímann verið Fríða.“

Heil sena spunnin

Tökur á þáttunum hófust í maí á þessu ári.

„Þetta gerðist allt hratt og það var mjög gaman. Við vorum að skrifa enn­þá í tökunum. Svo kemur Jón Gnarr inn til að leika Badda og hann hafði auð­vitað ein­hverjar hug­myndir um sinn karakter, sem okkur fannst bara frá­bært.“

Það var mikið spunnið við skrifin.

„Arnór vinnur oft þannig líka að við tökum nokkrar tökur eftir hand­riti og svo kannski þriðju, þar sem er meira frelsi til að spinna. Það var mjög gaman. Það er til dæmis ein sena sem ég leik með Kristínu Þóru Haralds­dóttur sem er alveg spunnin á staðnum,“ segir Anna Svava.

Fyrst um sinn höfðu þau Hús­dýra­garðinn út af fyrir sig við tökurnar, vegna heims­far­aldursins.

„Fyrstu tvær vikurnar, þannig að við fengum að vera í tvær vikur alveg ein. Svo opnaði og þá var þetta auð­vitað að­eins flóknara, krakkar og fólk út um allt að horfa,“ segir hún og hlær.

Líka hjart­næmt

Anna Svava segir það hafa verið ó­trú­lega skemmti­legt að fá að vinna með Jóni Gnarr.

„Hann gerir í því að fá mann til að hlæja, sér­stak­lega ef hann veit að maður er alveg að springa. Ef ég var að leika í senu og hlæ að­eins, það var eins og að henda olíu á eld. Hann fer þá rót­tækt að gera eitt­hvað nýtt til að fá mann til að hlæja. Það var mjög erfitt. Ég þurfti oft að klípa eða setja nöglina svona í höndina til að fá sjálfa mig til að hætta að hlæja. Ég var komin með mar, maðurinn er náttúru­lega svo ó­trú­lega fyndinn,“ segir Anna Svava.

Hún segir að­stand­endur þáttanna hafa hist saman um daginn og horft á alla þættina.

„Maður hlær og tárast inn á milli. Þetta er ekki bara fyndið, þetta er alveg líka hjart­næmt. Og svo finnst mér hver þáttur vera öðrum betri, þetta stig­magnast bara. Manni byrjar að þykja svo vænt um per­sónurnar.“

Þættirnir Júró­garðurinn verða frum­sýndir annað kvöld á Stöð 2.