Í gegnum tíðina hefur Fritzges kennt mörgum hugleiðsluaðferðir Demantsleiðarinnar og nýtur þess að sjá fólk þróa hæfni til að takast á við erfiðar aðstæður. Sjálf segist hún hafa verið villt, dramatísk ung kona áður en hún byrjaði að stunda hugleiðslu.
„Ég sá aðra sem stunduðu hugleiðslu og hélt að þeir væru í miklu betra jafnvægi en ég. Þess vegna væri þetta ekki fyrir mig. En svo heyrði ég um Demantsleiðina og að það væri hægt að nota erfiðar tilfinningar til að öðlast visku. Þá fannst mér að jafnvel ég ætti séns.“ Fritzges lærði hjá dönsku hjónunum Hönnu og Lama Ole Nydahl sem gerðu það að lífsstarfi sínu að kenna aðferðir Demantsleiðar búddismans.
Var villt og dramatísk
„Ég lærði um hippafortíð þeirra og hugsaði að ef þau hefðu getað breyst og þróast svona fallega frá villtari tímum þá gæti ég kannski gert það sama. Þau kenndu mér að trúa á eigin getu til að þróast. Áður en ég byrjaði að hugleiða þá fannst mér aðstæður oft vera of þungar til að takast á við en eftir að ég byrjaði að stunda hugleiðslu varð ég hamingjusamari, rólegri og léttari í fasi. Ég varð virkari í lífinu. Í dag er ég sextug, fullhraust, vinn sem iðjuþjálfi, er með sex manns í vinnu, ferðast og held fyrirlestra. Án hugleiðslunnar gæti ég ekki gert allt þetta.“
Þegar Fritzges byrjaði að hugleiða þurfti hún að sýna þolinmæði gagnvart breytingum á lífi sínu. „Hugleiðslan snýst ekki um að verða fyrir einhverri svakalegri reynslu og sjá ljósið. Eftir eina hugleiðslu þá gerist kannski ekki neitt. Þá halda kannski margir að þetta virki ekki og hætta.“

Fritzges segir að hugleiðslan sé langhlaup. Þá hjálpi að hafa fyrirmyndir sem hafa notið góðs af hugleiðslu eftir margra ára reynslu eins og hún hafði sjálf í Lama Ole og Hönnu.
Hanna og Lama Ole kölluðu það að hugleiða að þjálfa hugarvöðvana. „Þegar við stundum hugleiðslu reglulega þá verða erfiðar aðstæður draumkenndari og óraunverulegri,“ þess vegna verður auðveldara að takast á við þær, segir Fritzges. „Maður verður meðvitaðri um sig sjálfan. Með hugleiðslunni öðlast maður aukaþrep á milli aðstæðna og viðbragða svo maður getur valið betur hvernig maður ætlar að bregðast við.“
Ekki trúarbrögð
Fritzges segir að það sé misskilningur að búddismi séu trúarbrögð eins og við skiljum þau. Það væri kannski hægt að segja að búddismi séu trúabrögð sem byggja á reynslu frekar en trú. „Ef maður trúir á ytri guð þarf maður að sanna að sá guð sé betri en einhver annar.“
Hugleiðsluaðferð Demantsleiðarinnar snýst því ekki um að sú leið sé betri en aðrar leiðir á borð við núvitund, innhverfa íhugun eða aðrar hugleiðsluaðferðir innan búddismans. „Það má líkja hugleiðslu við lyf við mismunandi sjúkdómum. Fólk þarf mismunandi lyf. Þess vegna förum við ekki í trúboð, við höldum ekki einu sinni að allir ættu að stunda þessa tegund af hugleiðslu. Hún er ekki rétta leiðin fyrir alla.“
Fritzges leggur áherslu á að þegar fólk er að byrja að hugleiða verði það að velja sér aðferð og standa við hana. „Ég hef séð fólk blanda saman mörgum aðferðum. Það er bara ruglandi. Í dag er upplýsingaflóð í heiminum, sem gerir það að verkum að margir klóra bara í yfirborðið á mismunandi aðferðum en þróast ekki í neinum þeirra.“
Fritzges mælir ekki með því að fólk sem á við alvarlega geðkvilla að stríða og þarfnast sálfræði- og lyfjameðferðar hætti í slíkri meðferð og hugleiði bara í staðinn. „Slík mál hafa komið upp en hugleiðsluaðferðir búddismans byrja þar sem læknirinn stoppar. Ef maður á við alvarlegan geðrænan vanda að stríða þá eru hugleiðsluaðferðir búddismans kannski ekki bestar fyrir mann, frekar þá núvitund og aðra leiðir til að öðlast hugarró, að sjálfsögðu samhliða sjálfri meðferðinni við geðkvillanum.“
Opin fyrir hugleiðslu
Tilgangur búddismans er ekki að yfirtaka önnur trúarbrögð, að sögn Fritzges. „Það eru til mismunandi trúarbrögð vegna þess að fólk getur iðkað trú eftir mismunandi leiðum.“ Hún segist hafa fundið fyrir því að Íslendingar séu opnir fyrir því að hugleiða, en árið 2015 kom Fritzges til landsins og hélt fyrirlestur í Háskóla Íslands. „Fyrirlesturinn fjallaði um dauðann og endurfæðingu frá sjónarhorni búddismans. Það kom mér á óvart hversu opið fólk var fyrir þessum hugmyndum.“
Þeir sem þekkja eitthvað til hugleiðsluaðferða búddismans vita að þær snúast um að frelsa sig frá egóinu. Þannig losnar mannkynið undan hinni jarðlegu þjáningu samkvæmt kenningunni. „Hugmyndin er að það séu engar tilviljanir til. Þeir atburðir sem við verðum fyrir eru ekki eitthvað sem er skapað af ytri aðstæðum heldur erum það við sjálf sem sköpum okkar eigin veruleika.“
Þarf ekki að vera í klaustri
Búdda sagði að hugurinn væri endalaus og þess vegna væru mörk milli eins hugar og annars ekki til. „Því er ást milli manna náttúrulegt ástand.“ Samkvæmt Fritzges gerir egóið það að verkum að við bregðumst við út frá tilfinningum okkar hverju sinni. „Það kemur í veg fyrir að við getum notið náttúru eigin huga.“
Hugleiðsluaðferð Demantsleiðarinnar lýsir sér þannig að hugleitt er á Búdda sem ljósorku. „Ekki sem eitthvað ytra, heldur sem spegil fyrir okkar eigin eiginleika. Þessi leið gerir okkur kleift að komast í snertingu við okkar innri Búddanáttúru. Við erum öll Búdda nú þegar. Þegar við skiljum það byrjum við að horfa frekar á kosti fólks í staðinn fyrir galla, við komumst á hæsta stig heimssýnarinnar í daglegu lífi á milli þess að við hugleiðum. Til að hugleiða þarftu ekki að fara inn í helli eða klaustur í áratug, það eina sem maður þarf að gera er að setjast á púða í hálftíma og hugleiða á Búdda.
Hágæða hamingja
Flestir leita að hamingjunni í forgengilegum hlutum. Fólk er að hlaupa á eftir frægðinni, ríkidæmi, fullkomnum maka eða ferðalögum.
Á endanum kemst fólk að því að slík hamingja er kannski frábær á meðan hún endist en lífið er alltaf að breytast.
Þegar við reiðum okkur á ytri aðstæður, einhvers konar nútímahamingju, þá öðlumst við verri gæði af hamingju en þá hamingju sem við getum fundið í eigin hugartómi. Hamingjan sem við leitum að er miklu nær okkur en við höldum. Við finnum hana í okkur sjálfum. En til að komast í snertingu við hana þarf fólk að vera opið og það þarf að hugleiða.“
Fólk sem stundar Demantsleið búddismans hér á Íslandi kemur hvaðanæva úr heiminum og hefur aðsetur í fallegu húsi í Foldahverfinu. Lama Ole kom hingað sjálfur fyrir mörgum árum og Fritzges segir að hann hafi verið dolfallinn yfir landinu. Hann ætlar að koma aftur í heimsókn á næsta ári.