Síðasta föstudag var bíómyndin Saumaklúbburinn frumsýnd en hún skartar fimm af fremstu leikkonum landsins í aðalhlutverkum, þeim Jóhönnu Vigdísi Arnardóttur, Elmu Lísu Gunnarsdóttur, Eddu Björgu Eyjólfsdóttur, Arndísi Egilsdóttur og Helgu Brögu Jónsdóttur. Gagga Jónsdóttir leikstýrir ásamt því að skrifa handritið með Snjólaugu Lúðvíksdóttur. Það er því nokkuð ljóst að það er einvalalið sem stendur að baki Saumaklúbbnum, sem var tekinn upp á þremur vikum milli Covid-bylgna síðasta sumar. Myndin fjallar um fimm vinkonur sem skella sér í sumarbústað saman til að hafa gaman. Þegar á líður koma þó ýmsir erfiðir og flóknir hlutir upp á yfirborðið, svona þegar vínið fer að flæða. Jóhanna Vigdís, oft kölluð Hansa, segir að eflaust geti margar konur tengt við karakterana í myndinni.

Cava og kampavín á kvöldin

„Þetta var tekið upp síðasta sumar í þessu dásamlega millibilsástandi sem kom í Covid-inu. Rétt undir lokin á tökunum voru farin að koma upp smit í bænum en við vorum bara innilokaðar í okkar litlu „búbblu“. Við stelpurnar sem lékum í myndinni bjuggum á settinu með sminkunni í bústaðnum þar sem myndin var tekin upp. Aðrir sem unnu að myndinni dvöldu bara tveimur mínútum frá okkur í bústöðum þarna í kring,“ útskýrir Jóhanna Vigdís.

Hún segir að þetta hafi verið æðisleg reynsla og í raun algjör lúxus.

„Þetta voru ekki langir dagar. Þetta var algjör lúxus, svona í íslenskri kvikmyndagerð. Við vorum náttúrlega „trítaðar “ eins og drottningar. Við þurftum að vinna þetta nokkuð hratt og næsta dag þurftum við auðvitað bara að taka næstu senur, þannig að kvöldunum eyddum við í að æfa saman senur næsta dags. Það var mjög skemmtilegt, þá fengum við okkur cava eða kampavín, sátum og æfðum. Ótrúlega gaman,“ segir hún.

Jóhanna Vigdís segir að margar konur geti eflaust tengt við karakterana.
Mynd/Aðsend

Standa með þeim alla leið

Leikkonurnar fimm þekktust allar fyrir og því myndaðist mjög góð stemning í hópnum.

„Við þekktumst allar fyrir og sumar okkar hafa þekkst mjög lengi. En það var virkilega gaman að endurnýja kynnin og þetta hristi hópinn svo sannarlega saman. Við vorum alveg orðnar eins og gamall og góður saumaklúbbur. Við litum á það sem skyldu okkar að fá okkur „búbblí“ á kvöldin,“ segir hún og hlær.

Jóhanna Vigdís segir karakterana alla mjög ólíka.

„Við eigum allar mjög greiðan aðgang að okkar karakterum og þó svo að við séum ekki endilega líkar þeim, þá getum við tengt við „element“ sem magna þá upp. Sú sem ég leik er samt ekkert eins og ég og þeirra karakterar eru ekkert eins og þær. Það sem mér finnst svolítið skemmtilegt er að þó að þetta sé mikið grín, fyndið og fáránlegt þá gerum við þetta af fullri alvöru. Við höldum með okkar konum alla leið. Þær eru allar sympatískar á sinn hátt.“

Þær hafi samt sinn djöful að draga, en það er gott í þeim öllum, útskýrir Jóhanna Vigdís.

„Við vorum ekki að gera grín að þeim eða neitt þannig. Eins og ég sagði, við stöndum með þeim alla leið.“

Fékk hláturskast

Hún segist viss um að margar konur geti tengt við karakterana og þær aðstæður sem koma upp í myndinni.

„Já, algjörlega. Ég held að flestar þekki einhverjar af þessum konum, og þá jafnvel bara í sjálfum sér.“

Viðtökurnar hafa verið góðar. Leikkonurnar sáu myndina sjálfar í raun í fyrsta sinn síðasta föstudag á frumsýningunni.

„Við héldum hátíðarsýningu fyrir aðstandendur og þannig. Þá vorum við sjálfar ekki búnar að sjá neitt. Við sátum þarna með fullan Covid-sal af fólki. Ef ég tala bara fyrir sjálfa mig þá kom þetta mér ótrúlega skemmtilega á óvart. Það var alveg tilfinningin sem við fundum, að við hefðum mjög skemmtilegt efni í höndunum. Það var eitthvað sem við upplifðum meðan á tökum stóð en svo vissi maður auðvitað ekki hvernig þetta kæmi út. Þetta kom mér allavega mjög skemmtilega á óvart. Þegar senur komu sem ég var ekki í og ég var að sjá í fyrsta skipti, þá fékk ég hláturskast.“

Leikhópurinn var sammála því að þær þyrftu að kíkja saman aftur á myndina.

„Það var svo mikið hlegið, þannig maður missti eiginlega af helling af bröndurum. Líka til að fá tækifæri til að horfa á myndina þegar maður er ekki í stresskasti að vera að horfa á sjálfa sig,“ segir hún og hlær.