Á tón­leikunum, sem hefjast klukkan 20.00, verða frumflutt tvö ný verk eftir Elenu Postumi og Hjalta Nor­dal, en einnig verða leikin verk eftir Witold Lutoslawski og Sergei Prokofi­ev. Tón­leikarnir eru um klukku­stund að lengd og eru án hlés. Elena samdi verk sitt sér­stak­lega fyrir sveitina.

„Elena er píanisti sem hefur verið mikið á Ís­landi og meðal annars unnið með Ís­lensku óperunni. Hún hefur samið fleiri verk sem hafa verið frum­flutt hér á landi,“ segir Pétur Björns­son, fiðlu­leikari og með­limur í Elju, en í verkinu leikur Björg Brjáns­dóttir ein­leik á þver­flautu.

Annað verk sem samið er fyrir sveitina er eftir Hjalta Nor­dal. „Hann hefur sinnt tón­list frá unga aldri og við ó­lumst upp með honum sem fiðlu­leikara. Við í Elju höfðum lengi haft auga­stað á verki eftir hann,“ segir Hekla Finns­dóttir fiðlu­leikari.

Mikil til­hlökkun

Tvö önnur verk verða flutt á tón­leikunum, Dance Pre­lu­des eftir Lutoslawski og Sin­fónía nr. 1 eftir Prokofi­ev. „Sin­fónían er stutt, snörp og skemmti­leg, það er mikill leikur í henni,“ segir Hekla. „Hún er kölluð klassíska sin­fónían, tekur ekki nema korter í flutningi, er ekki skrifuð fyrir stóra hljóm­sveit og hentar okkur í kammer­sveitinni því vel.“ Pétur og Hekla segja mikla til­hlökkun ríkjandi hjá með­limum kammer­sveitarinnar eftir langt Co­vid-hlé.

„Við erum alltaf með sumar- og jóla­verk­efni sem féllu niður vegna Co­vid. Síðasta sumar vorum við lögð af stað í hring­ferð um landið og vorum að æfa í Skaga­firði þegar við þurftum að snúa við og hætta við allt vegna tak­markana,“ segir Pétur. „Nú ríkir mikill spenningur hjá okkur vegna tón­leikanna og alla þyrstir í að spila.“

Fyrsta sinn á Akur­eyri

Elja kemur í fyrsta skipti fram á Akur­eyri í sumar og er það mikið til­hlökkunar­efni meðal með­lima sveitarinnar. „Við höfum lengi hlakkað til að spila fyrir norðan og það er frá­bært að fá að spila í þessu flotta húsi sem Hof er,“ segir Pétur. Tveir með­limir Elju búa á Akur­eyri og taka því vel á móti sam­leikurum sínum.

„Það er ekki síst gaman að fara norður að heim­sækja þau, svo stór partur af þessu er vinnu­andinn og gleðin sem ein­kennir hópinn, sem er orðinn mjög þéttur,“ bætir Hekla við. „Við erum öll orðin mjög spennt fyrir þessu verk­efni og sam­verunni með hópnum.“