„Bókin er ekki skrifuð af súper jákvæðri manneskju sem er með allt sitt á hreinu, eins og einhver gæti haldið. Þvert á móti var ég mjög langt niðri og langaði ekki að lifa lengur. Ég átti engan rétt á bótum, fannst ekki taka því að skrifa meira því það var svo lítið upp úr því að hafa, og var viss um að mín biði ekkert nema rútínuvinna, langt frá áhugasviði mínu, langt fyrir neðan getuna og sem ég fengi leiða á eftir nokkra daga. Á þessum tíma lenti ég líka í slysi og þríbrotnaði, og viku seinna fékk ég botnlangakast og var skorin upp. Ég vissi að þetta var alheimurinn að spyrja hvort ég vildi virkilega deyja.“

Þetta segir Hildur Þórðardóttir, rithöfundur. Hún er nýbúin að senda frá sér bókina Lífið er yndislegt, Alheimslögmálin.

„Þótt þetta sé sjöunda bókin mín er ég ekkert orðin fullkomin. Þvert á móti, þarf maður alltaf að vera meðvitaður um að halda sér jákvæðum, elska alla og dæma aldrei. Þetta er eins og með hverja aðra íþrótt. Ef maður hættir að stunda hana, fer manni aftur. Þess vegna er svo nauðsynlegt að lesa eða hlusta reglulega á sjálfsstyrkingarbækur og halda sér við.“

Þessi nýja bók Hildar fjallar um 21 alheimslögmál sem verið hafa til eins lengi og mannkynið.

„Margir kannast við lögmál aðdráttaraflsins og karmalögmálið, en þau eru fleiri, til dæmis tíðnilögmálið, andstæðulögmálið, mótstöðulögmálið, samsvörunarlögmálið og lögmálið um ábyrgð,“ upplýsir Hildur.

Málið snúist ekki um að nota alheimslögmálin eða ekki, heldur að vinna með þeim eða á móti.

„Að þekkja ekki alheimslögmálin er eins og að spila fótboltaleik án þess að þekkja reglurnar. Það er glatað að skilja ekki af hverju dómarinn flautar og dæmir víti, eða af hverju okkur er vísað út af fyrir „ekki neitt“.“

Missti trúna á lífið

Eigið viðhorf Hildar var henni til trafala.

„Það er erfitt að vera jákvæður þegar maður er búinn að missa trúna á lífið. Þegar ég kom til baka úr þriggja ára ferðalagi um heiminn hafði ég misst trúna á að alheimurinn sæi um mig. Úr því ég gat ekki lifað á skriftum, fannst mér lítill tilgangur með því að skrifa og þar með var enginn tilgangur með lífinu lengur. Eftir margra mánaða atvinnuleit gafst ég upp og ákvað að mér væri ekki ætlað að fá leiðinlega vinnu,“ greinir Hildur frá.

Morguninn eftir vaknaði hún með titil á nýju bókinni.

„Titillinn var að vísu Lífið er gott, því það var eins jákvætt og ég gat hugsað mér. Bókin átti að fjalla um alheimslögmálin því ég vissi að það voru fleiri en ég sem þurftu að bæta viðhorf sitt og fara að vinna með lögmálunum. Bókin átti ekki síst að hjálpa sjálfri mér að öðlast trú á lífið á ný, með því að minna mig á lögmálin. Svona lauma andlegu leiðbeinendur mínir til mín hugmyndum að bókum. Og þeir hjálpa mér klárlega að skrifa, með því að senda til mín allt sem á að fara í bækurnar.“

Kraftaverkin gerast enn

Eftir því sem Hildur skrifaði meira, fór með möntrur, tileinkaði sér lögmálin og ákvað að alheimurinn myndi sjá til þess að hún gæti borgað reikningana, varð hún bjartsýnni.

„Og viti menn! Einn daginn var mér boðið að vera einn morgun í viku í Betra lífi, þar sem hæfileikar mínir nutu sín. Þar hitti ég líka lesendur sem lýstu yfir hrifningu sinni á fyrri bókum mínum, sem var ómetanleg hvatning. Þegar ég var komin alveg í takt við lögmálin var mér boðið starf í rúmfataverslun þar sem ég er enn og blómstra. Ef maður er ákveðinn í að það sé ekkert val, þá gerist ekkert skemmtilegt. En þegar maður opnar og leyfir alheiminum að redda málunum, þá fara kraftaverkin að gerast,“ segir Hildur og gleðst við.

Að hennar mati er heimurinn spegill á innra ástandi hvers og eins.

„Að vera í takt með lögmálunum gerir allt svo miklu betra. Alheimurinn sér hlutina frá víðara sjónarhorni en við, og sumt gerir alheimurinn bara miklu betur en við. Ef við erum neikvæð, sjáum við ekkert nema það neikvæða. Ef við erum full af gremju, lendum við endalaust í gremjulegum aðstæðum. Með því að líta inn á við getum við hins vegar losað okkur við gremju og allt sem heldur okkur niðri. Þá skoppum við upp í tíðni eins og djúpsteiktar bollur þegar þær eru tilbúnar.“

Hildur Þórðardóttir rithöfundur segir kraftaverkin enn geta gerst sé fólk opið fyrir því að alheimurinn reddi málunum. FRÉTTABLAÐIÐ/ÓTTAR

Andlaust leyndarmál

Alheimslögmálin urðu Hildi hugleikin eftir að hún las metsölubókina Leyndarmálið (e. The Secret), eins og meirihluti jarðarbúa.

„En mér fannst áherslan á efnisleg gæði í Leyndarmálinu vera innantóm og fráhrindandi. Það var ekki fyrr en ég las bók Diane Cooper, A little light on the spiritual laws, þar sem hún fjallar um alheimslögmálin í stóra samhenginu, að ég tók það í sátt. Aðdráttaraflið virkar nefnilega ekki eitt og sér, heldur eru mörg lögmál sem hafa bein áhrif á hvernig okkur tekst að laða til okkar það sem við viljum. Höfundar Leyndarmálsins tóku út allt þetta andlega til að höfða betur til vísindalegrar hugsunar vestrænnar menningar, en þar með var ekkert eftir nema græðgin,“ segir Hildur.

Það var ekki fyrr en mörgum árum seinna að Hildur gat látið lögmálið virka fyrir sig, eða eftir að henni tókst að losna við samfélagslegan ótta sem hún segir okkur öll alin upp við.

„Það er óttinn við að verða sér til skammar, að verða særður eða hafnað, og ótti við sársauka og dauða, gegnsýrir samfélagið og lamar okkur. Óttinn er eins og svört slæða sem liggur yfir okkur og við höldum að hún sé svo þung, en í raun er hún fislétt og við þurfum bara að svipta henni af okkur og ákveða að hætta að vera hrædd. Þá fyrst sjáum við ljósið,“ greinir Hildur frá.

Þegar óttinn var farinn varð allt svo miklu auðveldara.

„Þá gat ég treyst því að almættið sæi um mig, hjálpaði til með bækurnar, útvegaði mér íbúð þegar ég skildi og reddaði tekjum þegar þurfti. En stundum var einhver skrýtin tregða og þá þurfti að finna út hvað alheimurinn var með fyrir mig í staðinn. Það er ástæða fyrir öllu og allt er eins og það á að vera,“ segir Hildur.

Allar manneskjur þrá ást og frið

Hildur er fædd árið 1967 og ólst upp í Laugarásnum og Hafnarfirði.

„Ég er gömul sál sem þarf að hafa æðri tilgang með lífinu,“ segir hún um sjálfa sig, ævintýrakona og stolt móðir tveggja meiriháttar stráka sem pluma sig vel.

„Sem bogmaður er ég flakkari og þarf alltaf að vera að læra eitthvað nýtt. Eftir að hafa flakkað um allan heim og búið á nokkrum stöðum, hef ég komist að því að Ísland er best á veturna, með heit hús og heitar laugar. Ferðalögin hafa staðfest það sem ég vissi: Að fólk er alls staðar eins og þráir ekkert annað en ást og frið. Ég fór einmitt til Miðausturlanda til að sýna fram á að þar væri venjulegt fólk eins og hér. Mér fannst líka áhugavert að kynnast landlausu fólki frá Palestínu og finna að það er gestrisnast af öllum,“ segir Hildur, sem naut þess sérstaklega að vera í Amman, höfuðborg Jórdaníu.

„Þar var ég ein af örfáum vestrænum konum á svæðinu og leið eins og stríðsfréttaritara í landi sem aðeins þeir hugrökku þora að heimsækja. Karlmenn komu alltaf fram við mig af fullkominni virðingu, óskuðu mér meira að segja gleðilegra jóla um jólin, því þeir sáu auðvitað að ég var vestræn af því ég gekk aldrei með slæðu. Líbanon og Tyrkland fundust mér líka mjög áhugaverð út frá samfélagsgerðinni og sambýli ólíkra trúarhópa. Eftir stendur allt frábæra fólkið sem ég kynntist, því ég stoppaði nógu lengi á hverjum stað til eignast einstaka vini.“

Hildur er mikil tungumálakona og hefur vald á mörgum tungumálum.

„Það er einmitt skrítnast að mér fannst erfitt að læra tungumál í skóla og náði þeim ekki fyrr en ég dvaldi í landinu. Tungumál segir svo mikið um menningu þjóðar, hvernig hlutirnir eru orðaðir. Að kunna smá í tungumáli heimamanna er besta leiðin, því það sýnir að ég er viljug að koma á móts við þá og myndar traust. Þess vegna leitast ég alltaf við að læra helstu kveðjur og aðeins meira þar sem ég er stödd. Ég lærði smá í arabísku og tyrknesku og frá því ég var krakki kunni ég smá í grísku. Eftir ferðalagið tala ég spænsku ágætlega og get bjargað mér á frönsku.“

Uggandi í vinnu hjá Harrods

Hildur er menntaður þjóðfræðingur og tískumarkaðsfræðingur.

„Það er ekki hægt að setja mig í eitthvað hólf,“ segir Hildur. „Ég er eins og amaba, alltaf að teygja mig í alls kyns óvæntar áttir. Alltaf að koma fólki á óvart sem telur sig þekkja mig vel.“

Hún segir tísku vissulega vera menningu, eins og þjóðfræðin fjallar um, en að tíska heilli sig minna en falleg hönnun.

„Mamma kenndi mér að sauma föt þegar ég var táningur og mig langaði að verða fatahönnuður, enda elska ég falleg efni og liti. En hönnun virkaði óöruggur atvinnuvettvangur á þeim tíma og því svissaði ég yfir í tískumarkaðssetningu, útlitsráðgjöf og litgreiningu á síðustu stundu,“ upplýsir Hildur.

Hún elskar vönduð föt sem endast í tugi ára.

„Ég á nokkrar slíkar flíkur sem ömmur mínar eða frænkur áttu. Oftar en ekki, í spariboðum fjölskyldunnar, er ég með alla að handan með mér í flíkunum: er kannski í kjól af einni frænku og jakka af annarri, með tösku frá annarri ömmu minni og kápu frá hinni utan yfir allt,“ segir Hildur og brosir.

Eftir nám í tískumarkaðsfræði var enga vinnu að fá, nema skrifstofuvinnu.

„Ég hélt því utan til Lundúna til að freista gæfunnar. Þar vann ég um tíma í stórversluninni Harrods. Það var lærdómsríkt því sá vinnustaður var drifinn áfram af ótta. Eigandinn gekk daglega um verslunina í fylgd fimm lífvarða og yfirmennirnir notuðu óspart að hann myndi reka okkur fyrir minnstu yfirsjón. Þá var ég ekki búin að losna við óttann og fékk alltaf hland fyrir hjartað þegar ég heyrði hávær fótatök nálgast. Fyrirkomulagið virkaði ekki hvetjandi fyrir mig, svo í stað þess að vera alltaf skíthrædd um að verða rekin, ákvað ég að verða fyrri til og hætta. En það er einmanalegt að búa ein í útlöndum og því kom ég aftur heim. Þá var ég byrjuð að skrifa og ætlaði að verða rithöfundur. En maður verður ekki rithöfundur með ákvörðuninni einni saman og einhvern veginn þurfti ég að lifa og aftur var ekkert í boði nema skrifstofuvinna.“

Hildur hefur gefið út sjö sjálfsstyrkingarbækur. FRÉTTABLAÐIÐ/ÓTTAR

Lærdómsþyrst og næm

Þegar Hildur var komin með leiða á skrifstofuvinnunni lærði hún þjóðfræði við Háskóla Íslands.

„Þá ætlaði ég að verða leikskáld og var byrjuð að skrifa fyrir leikfélagið Hugleik, sem er stórkostlegur vettvangur fyrir þá sem vilja skrifa fyrir leikhús. Ég skrifaði nokkuð mörg leikrit og einþáttunga sem hafa verið sýnd víða um heim og get tæknilega kallað mig leikskáld. Annars er þjóðfræði skemmtilegasta nám í heiminum, þótt það sé kannski ekki praktískt,“ segir Hildur sem hefur komið víða við í störfum.

„Hæfileikar mínir, svo sem lærdómsþorsti, næmni og þörf fyrir tilbreytingu, eru fullkomnir fyrir rithöfund, en henta ekki fyrir skrifstofustörf. Þótt margir hefðu talið þetta fín störf, sagði ég alltaf upp þegar ég var komin með smá sparnað og fór út í heim. Á einu flakkinu á síðustu öld endaði ég til dæmis á Tenerife að selja „timeshare“, sem á íslensku mætti kalla skiptileigusamninga eða hlutasölu, þegar fólki er boðið að kaupa íbúð á sólarströnd í eina til tvær vikur á ári, og var fullkomið fyrir fólk sem vill fara á sama stað í frí alla ævi og hafa allt í föstum skorðum. Þetta var þegar Ameríkuströndin, eða Playa de las Americas, var að byggjast upp, sem Íslendingar þekkja nú vel.“

Skemmtilegust segir Hildur þó hafa verið sjálfboðaliðastörfin.

„Í Jórdaníu tíndi ég ólívur og keyrði með túrista um Wadi Rum-eyðimörkina þar sem ótrúlegur stjörnuhiminn blasti við á kvöldin. Í Þýskalandi kenndi ég jóga á Ayurveda-hóteli og bjó til hrákökur. Í Argentínu kenndi ég ensku og ferðaðist, og í Amman sá ég um móttökuna á hóteli þótt ég kynni sáralitla arabísku. Í Tyrklandi hjálpaði ég til á veitingastað við sjávarmálið og lærði snöggvast tyrknesku orðin yfir allt því starfsfólkið kunni ekki ensku.“

En eftir því sem sálin eldist breytast áherslurnar, segir Hildur.

„Þá er ekki sama þörfin fyrir efnisleg gæði eða að hljóta velþóknun annarra með því að passa inn í samfélagslegt mynstur, heldur eykst þörfin fyrir að víkka út hugann, kynnast alls konar menningu og störfum og efla skilning og kærleika í garð alls mannkyns.“

Stórkostlegur en erfiður tími

Hildur tilkynnti framboð sitt til embættis forseta Íslands árið 2016.

„Ég bauð mig fram til að Íslendingar hefðu öðruvísi valkost en menn eins og þáverandi forseta. Mér finnst mikilvægt að hver sem er geti boðið sig fram, ekki bara þeir sem hafa öflugar valdablokkir á bak við sig. Þetta var bæði stórkostlegur tími og líka erfiður. Það er erfitt að vera stimplaður óvinur fólksins, ekki bara af almenningi og einkafjölmiðlum, heldur líka í ríkisfjölmiðli sem ég hélt að væri hlutlaus. Að mati samfélagsins var ég stórkostleg ógn við ríkjandi fyrirkomulag, talaði fyrir nýju stjórnarskránni og meira valdi til fólksins, og því þurfti að þagga niður í mér,“ segir Hildur, alvarleg í bragði.

Á sama tíma þótti henni yndislegt að hitta kjósendur sem skildu hvað hún stóð fyrir.

„Ég er enn að hitta fólk sem talar um hvað þetta hafi verið vel gert hjá mér. Ég skrifaði tugi greina um tækifæri sem ég sá fyrir okkur og er enn á þeirri skoðun að við getum lagt miklu meira af mörkum til friðarmála. Það er kannski það helsta sem ég vildi óska að ég hefði haft tækifæri til að gera. En þjóðin valdi nákvæmlega þann forseta sem endurspeglar hvar hún er stödd í þroska,“ segir Hildur.

Forsetaframboðið hafi verið gífurlega lærdómsríkt ferli.

„Nú horfi ég á fréttir með allt öðru viðhorfi en áður. Nú spyr ég, af hverju er verið að fjalla um þetta núna? Hver á hagsmuna að gæta? Hvaða „bjargvættur“ mun stíga fram með „lausnina“? Ég bauð mig fram sem forseta af virðingu fyrir landi og þjóð því ég vildi leggja mitt af mörkum til að byggja upp góða þjóðarsál og stuðla að betri heimi. Ég gæti hugsað mér að bjóða mig fram aftur, en það þarf ansi mikið að breytast til að það verði. Til dæmis þarf fólk að hugsa sjálfstætt, ekki láta ákveða fyrir sig hvern á að kjósa, eins og gerðist þarna. Og fjölmiðlar verða að vera opnari fyrir öllum frambjóðendum.“

Guð er kærleiksorkusprengja

Í forsetaframboði Hildar kom fram að hún er trúuð.

„Fyrir mér er guð kærleiksorkusprengja og við lítil sprengjubrot út frá henni. Þessi guð passar ekki inn í nein trúarbrögð heldur tek ég það sem mér finnst vera rétt, eins og til dæmis að sálin fæðist aftur og aftur í nýjum líkama í þeim tilgangi að þroskast andlega. Allt sem gerist er fyrir okkur til að læra af og ekkert gerist af óþörfu. Þessi trú gerir mér kleift að taka öllu sem lærdómi en ekki sem leiðindaveseni eða óheppni. Af hverju er lífið að senda mér þessa manneskju eða aðstæður? Hvað þarf ég að læra til að losna úr aðstæðunum?“ segir Hildur sem dæmi.

„Ég trúi ekki á hið illa eða illsku, heldur að á bak við óæskilegar gjörðir og fýsnir sé sársauki. Þess vegna er ég ekki hlynnt refsingum, heldur vil frekar hafa staði þar sem fólk fær tækifæri til að vinna úr sársaukanum og byggja sig upp.“

Hildur hefur líka þá trú að alheimurinn leiði mannkynið áfram innan umgjarðar lögmálanna.

„Allar aðstæður eru tækifæri til að læra, þroskast og eflast. Við fáum það sem við biðjum um, en stundum þarf fyrst að hrinda úr vegi ákveðnum hindrunum sem við höfum sjálf sett upp, og það finnst okkur svo hræðilegt. Tökum dæmi um að við óskum okkur ríkidæmis, en séum föst í viðhorfi svartsýni, skorts og eymdar. Þá þarf fyrst að kenna okkur á skort, til að við getum losnað við hamlandi viðhorf og gert okkur grein fyrir því að við búum nú þegar við allsnægtir. Þær eru ekki bara beinharðir peningar, heldur í alls konar formi. Þá fyrst getur Alheimurinn sent okkur meira,“ útskýrir Hildur og bætir við:

„Þess vegna er svo gott að þekkja lögmálin. Þá skiljum við hvað er verið að kenna okkur.“

Margir andlegir gimsteinar

Bækur Hildar byggir hún á eigin uppgötvunum á þroskaleiðinni og sem henni langar að deila með öðrum.

„Þegar ég ólst upp var aldrei talað um tilfinningar eða andleg mál í samfélaginu. Ég var tilfinninganæm og tók allt inn á mig sem endaði í meiriháttar vanlíðan. Fyrsta bókin, Taumhald á tilfinningunum – leið til betra lífs, er um það sem ég hefði viljað lesa þegar ég var tvítug, um tilfinningar og hugsanir, æðra sjálfið og lægra sjálfið,“ upplýsir Hildur.

Bók tvö, Finndu styrkinn til að gera það sem þú vilt, skrifaði Hildur eftir að hún losnaði undan oki óttans.

„Í lífinu eru margar hindranir sem við höldum að séu óyfirstíganlegar, en með því að sjá hlutina frá öðru sjónarhorni, má alltaf finna leiðir út. Því vildi ég deila með öllum,“ segir Hildur.

Þriðju bókina, Á leið stjarnanna og vindsins, skrifaði Hildur af því einhver kona sagðist ekki lesa sjálfshjálparbækur.

„Þá hugsaði ég með mér: „Nú, ég skrifa þá bara skáldsögu.“ Það eru margir andlegir gimsteinar sem leynast þar. Fjórðu bókina, Tendraðu ljósið innra með þér, skrifaði ég vegna þess að það vantaði alveg almennilega bók um orkustöðvarnar. Þá var ég búin að heila í mörg ár og tengja saman verki, tilfinningar og viðhorf sem auðvelt var að útskýra út frá orkustöðvunum. Ég finn líka svo vel fyrir orkustöðvunum á eigin líkama, ekki bara þessum sjö stærstu, heldur þessum litlu líka.“

Á þriggja ára ferðalagi um heiminn, frá 2016 til 1019, skrifaði Hildur bókina Seven keys to Freedom um hvernig við þurfum að losna undan oki óttans og hlusta á hjartað.

„Þannig hefur hver bók endurspeglað ákveðin skref á leið minni í þeim tilgangi að auðvelda öðrum þessi sömu skref. Að auki veita bækurnar mér tilgang í lífinu og þess vegna held ég áfram að skrifa og gefa út.“

Vill hjálpa fólki að láta draumana rætast

Hildur kom til Íslands úr stóra ferðalaginu í árslok 2019.

„Þá var ég svo ánægð að vera í íbúðinni minni, í orkunni minni og með öll fötin mín; ekki bara það sem komst í bakpokann, og var alsæl að vera bara heima. En nú er kominn ferðafiðringur í allan kroppinn. Fyrst verður ferð til Noregs með eldri syni mínum í heimsókn til systur minnar og í haust mun ég hitta bandaríska vinkonu mína í Madrid og síðan ganga síðasta hluta Jakobsvegarins,“ segir Hildur, full eftirvæntingar.

„Í haust ætla ég líka að vera með námskeið fyrir þá sem ganga með bók í maganum, hvort sem það er bara hugmynd sem þeir vilja byrja á eða jafnvel lengra komið handrit sem þeir vilja klára. Eftir að hafa gefið út sjö bækur, tvær hljóðbækur og rafbækur, er ég hafsjór af visku þegar kemur að bókaskrifum og útgáfu og langar að hjálpa fólki að láta draumana sína rætast.“

Bækur Hildar fást í Betra lífi, Forlaginu og verslunum Eymundsson.