Elon Musk, ríkasti maður heims, segir umfjöllun Wall Street Journal um skilnað Sergey Brin, eins stofnanda Google, og eiginkonu hans, Nicole Shanahan, vera falska. Í gær var greint frá því að Brin hefði sótt um skilnað eftir að hann komst að framhjáhaldi Shanahan með Musk.

„Þetta er algjört kjaftæði. Sergey og ég erum vinir og vorum í teiti saman í gærkvöld! Ég hef einungis séð Nicole tvisvar á þremur árum. Í bæði skipti með fullt af öðru fólki í kring. Ekkert rómantískt.“ skrifaði Musk á Twitter.

Í umfjöllun Wall Street Journal kom fram að sambandið milli Musk og Brin væri ansi stirt eftir að þetta meinta framhjáhald kom upp, en þeir hafa í gegn um tíðina verið ansi góðir vinir.

Til að mynda styrkti Brin Teslu, fyrirtæki Musk, árið 2008 til að hjálpa því að komast í gegn um erfiðleika efnahagshrunsins.

Þá sagði Wall Street Journal að nú hefði Brin fryst allar fjárfestingar sínar í fyrirtækjum sem tengjast Musk.