„Þetta er saga þar sem fyrrverandi hjón eru í forgrunni, sálfræðingurinn Adam og rannsóknarlögreglukonan Soffía. Þau gætu varla verið ólíkari, hún er dálítið óheflaður dugnaðarforkur sem veður áfram beint af augum en hann er óskaplega penn og prúður og fremur ferkantaður Breti. Þau verða þó að stilla saman strengi því Soffía þarf á hjálp Adams að halda við lausn dularfulls máls og það er honum fjárhagslega í hag að aðstoða lögregluna,“ segir Jónína.

Um hið dularfulla mál sem þau reyna að leysa segir hún: „Gátan er flókin og fátt um vísbendingar. Einhver eða einhverjir gera sér leik að því að stinga saumnálum í ávexti sem eru til sölu í miðborginni og síðan koma nálar í ljós á fleiri stöðum þar sem hver sem er gæti meitt sig á þeim. Í fyrstu virðast glæpirnir sem sagt ekki beinast að neinum sérstökum fórnarlömbum.

Soffía er óþolinmóð og vill að Adam skilgreini snarlega hvað búi að baki þessum atlögum að lífi og heilsu almennra borgara. En hann er samviskusamur og þarf að sanka að sér frekari upplýsingum og á meðan fjölgar atvikunum, ekki síst eftir að málið vekur athygli á samfélagsmiðlum. Þar að auki hefur Adam ýmislegt annað á sinni könnu sem Soffía veit ekki um.“

Líf í Covid

Sagan gerist á Covid-tímum, eins og lesandinn er rækilega minntur á. „Ég var að vinna allt aðra sögu sem ég ákvað að leggja til hliðar af því að mig langaði til að skrifa bók þar sem heimsfaraldurinn litaði líf persónanna, eins og hann hefur litað líf okkar allra undanfarin tvö ár. Allar mínar bækur eru samtímasögur og mér fannst ekki ganga upp að vera með söguþráð þar sem Covid-19 væri víðsfjarri.

Það reyndist auðveldast að skrifa nýja skáldsögu frá grunni og þar kom faraldurinn mér að vissu leyti til hjálpar. Ég hef einangrað mig mikið vegna þess að ég er með mjög léleg lungu og laskað ónæmiskerfi. Þess vegna var lítið annað við að vera og ég gat skrifað sjö daga í viku, á milli þess sem ég fór í göngutúra, horfði á Netflix og spilaði Scrabble við konuna mína.“

Nokkurs konar framhjáhald

Spurð hvort þessi bók sé sjálfstæð eða fleiri sögur séu væntanlegar um hjónin fyrrverandi segir Jónína: „Ég er alltaf hálfhrædd við að storka örlögunum með því að tala fjálglega um skrif í framtíðinni en ég stefni að þríleik. Sjö, níu, þrettán og allt það.

Ég hef reynslu af því að halda mig við sömu aðalpersónur í nokkur skipti og mér hefur fundist það gaman, ég skrifaði þríleik fyrir ungmenni og svo urðu bækurnar um Eddu fimm talsins. En ánægjan er auðvitað háð því að þetta sé skemmtilegt fólk og í augnablikinu er ég afskaplega skotin í Adam og Soffíu og rafmögnuðu sambandi þeirra.

Kannski hefur þetta þó líka galla því persónurnar verða vinir mínir og samstarfsfélagar og þá getur verið erfitt að snúa sér að öðrum. Það er nokkurs konar framhjáhald. Núna líður mér til dæmis eins og ég sé að halda fram hjá Eddu.“

Ekki sagt skilið við Eddu

Þegar hún er spurð hvað heilli hana við glæpasögur kemur óvænt svar: „Þetta hljómar kannski skringilega en ég hef engan sérstakan áhuga á glæpum og átti mér ekki þann draum að skrifa glæpasögur. En mér finnst mjög spennandi að pæla í líðan fólks og glæpum fylgja óneitanlega áhugaverðar tilfinningar hjá gerendum, fórnarlömbum og rannsakendum. Allt litrófið er undir. Ég reyndist þess vegna algjörlega á minni hillu í glæpunum, merkilegt nokk.“

Hefur hún sagt algjörlega skilið við eftirlaunaþegann Eddu sem hún hefur skrifað vinsælar bækur um? „Nei, ég hef ekki sagt alveg skilið við Eddu. Hún hnippir reglulega í mig og vill fá að komast á kreik og ég er áhugasöm um að eiga aftur samstarf við hana. Edda er týpan sem ég vildi svo gjarnan vera en verð aldrei, þessi sjálfsöruggi og kjaftfori töffari. Ég er meiri Adam en Edda. En við löðumst oft frekar að andstæðum okkar en fólki sem við líkjumst og með Eddu fæ ég útrás fyrir ýmislegt sem ég myndi aldrei þora að segja eða gera í raunveruleikanum. Hún verður þó að bíða aðeins lengur.“