Álfamöttullinn er vinsæl inniplanta á Íslandi og í uppáhaldi hjá mörgum ræktendum vegna ótrúlegrar fjölbreytni í lit og lögun blaðanna. Til eru ótal litaafbrigði og fjölmargir ættbogar með mismunandi sterkum blaðlitum, með grænum, vínrauðum, bleikum, gulum og rústrauðum blæ.

Um allan heim eru starfræktir svokallaðir kólusklúbbar þar sem fólk skiptist á græðlingum af hinum ýmsu tegundum og afbrigðum álfamöttuls. Einnig sérhæfa garðyrkjustöðvar víða um heim sig í að rækta og selja framúrskarandi litskrúðuga og jafnvel skrýtna álfamöttla.

Auðvelt er að ná upp græðlingum af álfamöttli með því að klippa stöngulinn niður um tvö blaðpör og setja í vatnsglas. Eigi svo löngu síðar myndast rætur á stöngulinn og þegar þær eru orðnar nógu langar má setja hann í mold. Best er að fjölga plöntunum með græðlingum seinnipart sumars og líklegast er að smáplönturnar lifi veturinn af í björtum glugga.

Álfamöttullinn er afar meðfærileg planta sem best er að endurnýja á hverju vori með þremur græðlingum í 12-15 cm potta. Í raun má koma græðlingum til á hvaða árstíma sem er nema helst í svartasta skammdeginu. Fræsáning er líka auðveld í mars og apríl.

Kólusinn er heldur drykkfelld planta og því er gott að halda moldinni ávallt rakri. Einnig er æskilegt að hafa hann í mikilli óbeinni birtu því þá koma litatilbrigðin best fram. Æskilegt er að nota plöntunæringu hálfsmánaðarlega á sumrin.

Hér er íðilfagur álfamöttull með fjólubláum æðum.
Álfamöttullinn elskar birtu og litbrigðin aukast með birtustiginu.
Margir klípa blómin af kólusnum, en þau hemja vöxt blaðanna.
Fjólurauður, grænn og gulur kólus.
Álfamöttullinn getur líka verið rústrauður.
Þessi kólus er eins og sólarlagið.
Skemmtilegur flekkóttur fjólublár og grænn kólus.