Alexandra Helga Ívarsdóttir, eiginkona landsliðsfyrirliðans Gylfa Sigurðssonar, safnaði 600 þúsund krónum fyrir Ljósið, endurhæfingar- og stuðningsmiðstöð fyrir fólk sem hefur fengið krabbamein og aðstandendur þeirra.

Safnaði Alexandra peningunum með því að taka til í fataskápnum og halda fatasölu í Trendport á Nýbýlavegi með það að markmiði að styrkja Ljósið.

Hún lét ekki staðar numið þar og bauð upp áritaða treyju fótboltakappans og eiginmanns síns og bætti ágóðanum við upphæðina.

„Það er óhætt að segja að það hefi gengið vel því í hádeginu í dag leit hún við á Langholtsveginum, fékk að kynnast starfi Ljóssins og afhenti Ernu Magnúsdóttur, forstöðukonu og stofnanda Ljóssins, formlega 600 þúsund krónur sem safnast höfðu.“ segir í tilkynningu frá Ljósinu sem lætur mikið þakklæti í ljós til allra sem lögðu málefninu lið.