Banda­ríski leikarinn Alec Baldwin er sagður hafa verið ó­huggandi í margar klukku­stundir eftir að hafa skotið sam­starfs­konu sína, Halynu Hutchins, til bana síðast­liðinn fimmtu­dag.

Harm­leikurinn átti sér stað í Nýju-Mexíkó við tökur á myndinni Rust. Eins og komið hefur fram vissi Baldwin ekki að um hlaðna byssu var að ræða og var hann að æfa sig í að hand­leika vopnið þegar slysið varð.

Heimildir Peop­le herma að Baldwin hafi sett öll önnur verk­efni á ís meðan hann vinnur úr á­fallinu. Baldwin, sem er 63 ára, sást fyrir utan hótel í Nýju-Mexíkó á laugar­dags­morgun þar sem hann hitti meðal annars eigin­mann Halynu, Matt, og níu ára son þeirra, Andros.

Baldwin er sagður ætla að ein­beita sér að sjálfum sér á næstunni og taka sér frí.

Rann­sókn lög­reglu á málinu stendur yfir en ljóst þykir að reglur um með­ferð skot­vopna voru brotnar við tökur á myndinni.

Fram hefur komið að að­stoðar­leik­stjóri myndarinnar, Dave Hall, hafi brotið reglur árið 2019 þegar tökur á þáttunum Into The Dark stóðu yfir. Er hann sagður hafa látið hjá líða að skrá öll skot­vopn, virk og ó­virk, á setti þáttanna. Er skráningin sögð for­senda þess að hægt sé að fylgja öryggis­reglum um með­ferð skot­vopna.

Hanna Guti­er­rez-Reed var skráður vopna­vörður myndarinnar en um helgina var greint frá því að hún hafi lagt þrjú skot­vopn á borð á töku­stað myndarinnar síðast­liðinn fimmtu­dag, skömmu áður en harm­leikurinn átti sér stað.

Dave Halls er sagður hafa tekið eitt vopnið, látið Alec Baldwin fá það án þess að átta sig á því að um hlaðið skot­vopn væri að ræða. Sagði hann við hann að um „kalt vopn“ væri að ræða, en annað kom á daginn skömmu síðar.