Banda­ríski leikarinn og framleiðandinn Alec Baldwin hélt að púður­skot væru í byssunni þegar Halyna Hutchins var skotin til bana á töku­stað myndarinnar Rust í gær. Þetta herma heimildir Showbizz 411.

At­vikið átti sér stað eftir há­degi í gær að staðar­tíma og var leik­stjóri myndarinnar, Joel Souza, fluttur á sjúkra­hús með á­verka. Hann var út­skrifaður í nótt. Tökur á vestranum Rust stóðu yfir á bú­garði í Nýju-Mexíkó þegar slysið varð.

Í um­fjöllun Showbizz kemur fram að einni kúlu hafi verið skotið úr byssunni og fór hún fyrst í Halynu áður en hún fór í Souza. Heimildir Showbizz herma að Baldwin hafi, eðli málsins sam­kvæmt, verið í miklu á­falli eftir at­vikið og krafist skýringa á því hvers vegna honum var rétt hlaðin byssa. Er hann sagður hafa haldið að púður­skot væru í byssunni.

Fjöl­miðlar vestan­hafs birtu myndir af Baldwin eftir skýrslu­töku hans hjá lög­reglu í gær­kvöldi. Var hann aug­ljós­lega miður sín vegna at­viksins.

Lög­regla hefur ekki gefið miklar upp­lýsingar um málið og stendur rann­sókn málsins yfir. Beinist rann­sóknin að því hvers konar skot­vopn var notað á setti myndarinnar og hvað varð til þess að Baldwin var rétt hlaðin byssa.

Alyna Hutchins var 42 ára og þótti hún í hópi efni­legustu kvik­mynda­töku­stjóra Banda­ríkjanna.