Svo virðist vera sem banda­ríski leikarinn Alec Baldwin hafi eytt Twitter-að­gangi sínum í kjöl­far við­tals við ABC-frétta­stofuna á dögunum.

Eins og kunnugt er varð Baldwin sam­starfs­konu sinni, Halynu Hutchins, að bana á setti kvik­myndarinnar Rust þegar skot hljóp úr byssu sem Baldwin hand­lék.

Í við­talinu brotnaði Baldwin niður þegar hann ræddi at­vikið, en hann tók þó skýrt fram að hann fyndi ekki til sektar vegna þess hvað gerðist. Ein­hver bæri vissu­lega á­byrgð á því að kúla var í byssunni en það væri ekki hann.

Í frétt Metro í morgun er bent á það að aðal­reikningur Baldwins á Twitter sé ekki lengur að­gengi­legur.

Tekið er fram að tveir aðrir Twitter-reikningar í nafni hans séu þó að­gengi­legir, annars vegar @AB­Fa­lecbaldwin og hins vegar @alecbaldwin__, en hann hafi að undan­förnu notast mest við þann sem nú hefur verið lokað. Á honum birti hann til dæmis yfir­lýsingu eftir hið sorg­lega at­vik í októ­ber síðast­liðnum.

Eins og fyrr segir var Baldwin í við­tali við Geor­ge Stephanopolous á ABC á dögunum þar sem at­vikið var til um­ræðu. Brot úr við­talinu má sjá hér að neðan.