Þeir Egill Þórir Einarsson, 70 ára efnaverkfræðingur, og Andri Steinar Jónsson, 22 ára lærður bifvélavirki, luku fyrra árinu í nýliðaþjálfun hjá Hjálparsveit skáta í Garðabæ núna í vor. Þeir segja aldurinn engu máli skipta í náminu, aðeins sameiginlegan áhuga á útivist.

Egill hefur ávallt verið mjög virkur í útivist, stundað skíðagöngu og farið í jökla- og fjallaferðir. „Síðastliðið haust var sonur minn að fara á annað árið í nýliðafræðslunni og honum tókst að fá mig til að fara á kynningarfundinn fyrir nýliðaþjálfunina. Ég á það til að taka snöggar ákvarðanir, dreif mig og þá varð ekki aftur snúið,“ segir Egill glaðlega.

Andri Steinar hafði lengi haft áhuga á því að fara í björgunarsveit og ákvað að fara á kynningarfundinn í fyrra með vini sínum. Hann hefur sjálfur stundað fjallahjólamennsku frá unga aldri, verið á snjóbretti og í hefðbundinni útivist.

Fámennt en góðmennt

Þrátt fyrir 48 ára aldursmun náðu þeir vel saman. „Það er enginn að spá í aldur. Maður bara kynnist fólkinu og allir eru góðir vinir,“ segir Andri Steinar sem segir hópinn hafa verið mjög fínan, fámennan en góðmennan. Því er Egill sammála. Hann fann ekkert fyrir því að vera elstur í hópnum. „Það var annar maður með mér, tíu árum yngri, en annars var í hópnum mikið af ungu fólki. Það var helst að maður þyrfti að aðlaga sig að því en eftir að hafa verið með þessum krökkum í ferðum var maður alveg hættur að spekúlera í aldri, enda skiptir hann engu. Þetta er bara hópur af fólki með sama áhugamál.“

Lærdómsríkt ár

Báðir segjast þeir hafa lært mjög mikið þetta fyrsta ár í nýliðaþjálfuninni. „Þetta var umtalsverð vinna, vikulegir fundir og mánaðarlegar ferðir. Sumar þeirra nokkuð krefjandi, til dæmis vetrarferðir í tjaldi,“ segir Egill. Þar sem hann er vel á sig kominn og reynslumikill þegar kemur að ferðalögum fannst honum ferðirnar sjálfar ekkert tiltökumál en hann hlakkaði þó til að læra ýmsar nýjungar. „Þótt ég sé vel kunnugur flestu sem snýr að útivist hef ég aldrei formlega lært neitt um þessi mál. Mér þótti spennandi að læra nýja hluti eins og að klifra í klettum, síga í sprungur og fræðast um skyndihjálp,“ segir Egill.

Andri segist sömuleiðis hafa lært mjög margt á þessu ári. Álagið hafi verið ásættanlegt en fyrst og fremst hafi allt ferlið verið mjög skemmtilegt.

Erfitt en skemmtilegt

En hver var erfiðasta áskorunin? „Það hefur líklega verið tugþrautin á Hengli í vor sem var nokkurs konar próf eftir önnina. Þá var okkur skipt upp í þrjá litla hópa og ekið á þrjá mismunandi staði. Við fengum uppgefin hnit og gengum að stöðvum þar sem við leystum þrautir og notuðum þá kunnáttu sem við höfðum sankað að okkur í náminu,“ lýsir Andri en hópur hans gerði mistök sem urðu til þess að hann þurfti að ganga mun lengri leið. „Síðustu sex kílómetrarnir voru ansi erfiðir,“ segir Andri og minnist einnig æfingar í Bláfjöllum í vonskuveðri. „Við vorum að æfa okkur í snjótryggingum en maður var orðinn gegnblautur eftir daginn.“ Hann tekur fram að þrátt fyrir harðræði hafi alltaf verið gaman.

Vinna með flokkum í vetur

Þeir Andri og Egill fara nú í haust inn í annað árið í nýliðaþjálfuninni. „Þá verður meiri áhersla á þjálfun í því sem við erum búin að læra auk þess sem við vinnum með flokkum,“ segir Andri og Egill bætir við: „Við munum læra meira um skyndihjálp, leitartækni, sprungubjörgun á jöklum og klifur auk fjölda annarra æfinga og líklega verða gerðar aðeins meiri kröfur en í fyrra.“

Inntir eftir því í hvaða flokkum þeir vilji starfa er Andri fljótur til svars. „Ég ætla að fara í bílaflokkinn enda hef ég mikinn áhuga á bílum og jeppum. Mig langar líka í undanfarana en þarf að undirbúa mig dálítið betur í það enda þarf maður að vera í mjög góðu formi.“ Egill vill ekki gefa upp í hvaða flokki hann hyggst starfa. „Ég set markið hátt en veit ekki hvort ég stend við það,“ segir hann glettinn.

Þeir mæla báðir hiklaust með nýliðaþjálfuninni. „Þetta er frábært fyrir alla sem vilja þróa sig áfram og þroskast bæði félagslega og tæknilega.“