Dóra Jóhannsdóttir, leikstjóri Áramótaskaupsins, segir að sér þyki mjög leiðinlegt ef umræða um eignarhald á framleiðslufyrirtæki rýri trúverðugleika þáttarins sem ádeilu. Hún segir að enginn hafi reynt að hafa áhrif á handritið.

Stundin greindi frá því í síðustu viku að einn framleiðenda Skaupsins, fyrirtækið S800, væri í helmingseigu Sigtúns sem byggir nýja miðbæinn á Selfossi. Annar eigandi S800 er Sigurjón Kjartansson sem jafnframt er einn höfunda. Útgerðarmaðurinn Kristján Vilhelmsson, kenndur við Samherja, er stærsti eigandi Sigtúns.

Dóra Jóhannsdóttir leikkona er leikstjóri og einn handritshöfunda Áramótaskaupsins í ár. „Þetta er mjög leiðinlegt,“ segir Dóra í samtali við Fréttablaðið, um umfjöllun Stundarinnar og umræðuna í kjölfarið. „Saga Garðarsdóttir er yfir handritinu. Við og höfundarnir höfum tekið allar ákvarðanir varðandi efnistök og enginn hefur reynt að hafa áhrif á handritið,“ segir hún.

RÚV stakk upp á Sigurjóni

Dóra hefur verið yfir handritinu tvisvar, 2017 og 2019. Hún fullyrðir að aldrei hafi nokkur skipt sér af efnistökum eða handriti Skaupsins. „Ég hef alltaf fengið að gera nákvæmlega það sem ég vil gera, frá fyrsta degi í skrifum og þangað til það er sýnt,“ segir hún. Að sögn Dóru stakk RÚV upp á Sigurjóni Kjartanssyni sem framleiðanda og segir hún sér hafa litist vel á þá tilhögun.

„Ég fór ekki að tékka á eignarhaldi félagsins. Ég hef aldrei gert það með nein framleiðslufyrirtæki sem ég hef unnið með. Ég hef unnið Skaup með Republic og Glassriver og veit ekkert hverjir eiga það,“ segir leikstjórinn.

Enginn að skipta sér af efninu

Dóra segir að sér þyki mjög leiðinlegt ef málið rýri trúverðugleika Skaupsins sem óháðrar ádeilu. „Nú er ég í þeirri stöðu að vera vakandi fyrir því hvernig ég get verndað trúverðugleika verkefnisins. Mig langar ekkert meira en að fólk geti horft á þetta með þeim augum og trúað því að þetta sé óháð ádeila,“ segir hún. „Ég hef aldrei verið jafn ánægð með handritið fyrir Skaupið. Ég er að leikstýra í fyrsta skipti og er sjúklega ánægð með allar tökur. Allir leikarar voru geggjaðir og ég held að þetta verði ógeðslega gott Skaup. Mig langar innilega að fólk trúi því að það hafi verið gert af heilindum, sem það var. Það var enginn að skipta sér af efnistökunum,“ ítrekar Dóra.

Aðspurð hvort tökur hafi farið fram á Selfossi, segist hún ekki hafa verið ein um að velja tökustaði. „Ég er með framleiðendur, location manager og leikmyndahönnuð. Framleiðslan vildi fara á Selfoss og rökin voru að það væri erfitt að fá sjúkrarými í bænum. Það er ekkert sem verður í mynd sem sýnir að við séum á Selfossi. Þetta er bara einhver kjallari og sjúkrastofa sem gæti verið hvað sem er. Þar er ekkert í mynd sem tengist Selfossi.“

Ætlið þið að nýta þessa umræðu í Skaupið?

„Maður hugsar þetta með allt sem er áberandi á árinu, að maður vill gera grín að því og sem flestu sem er fáránlegt og þarf að benda á. En núna er ég bara að melta þetta. Er þetta fáránlegt? Ég þarf að skoða þetta og ræða betur við framleiðendurna og aðra til að vita það. Við erum pottþétt að fara að minnast á þetta,“ segir hún. „En ég vissi ekki af þessu og þetta hafði ekki áhrif á efnistökin.“

Dóra segir að fréttaárið sé vissulega flóknara en áður þar sem svo mikil vitundarvakning hafi átt sér stað í samfélaginu.
Fréttablaðið/Vilhelm

Flóknara en lærdómsríkt

Hvað fréttaárið varðar svarar Dóra aðspurð að fréttaárið sé vissulega flóknara en áður. „Það er svo mikil vitundarvakning á alls konar stöðum. Maður þarf að vera meðvitaður og vakandi og taka tillit. Það er komin vakning varðandi að involv­era alls konar minnihlutahópa sem verið er að fjalla um. Það er flóknara, en að sama skapi lærdómsríkt og gefandi að skrifa Skaup á svona meðvituðum tímum,“ segir hún.

Dóra hugsar sig um hvað varðar uppáhalds eldra Skaup. „Góð spurning. Ég horfði á skaupið 1985 með 12 ára syni mínum um daginn. Það kom mér á óvart hvað mér fannst það geggjað og 12 ára sonur minn sem er af TikTok-kynslóðinni, var ekki að nenna að horfa á það með mér fyrst, en þegar við byrjuðum að horfa sagði hann: Þetta er algjör snilld, mamma. Ég þarf að taka eftir því hvað þau eru að gera svo að mín Skaup endist svona lengi,“ segir Dóra.