Jóhanna segir að áhugi á matjurtarækt sé alltaf til staðar þótt ekki sé hann eins mikill og varð eftir hrunið. Þeir sem hófu ræktun þá hafa samt mjög margir haldið þeim áhuga. „Að mínu mati hefur það aldrei verið jafnmikilvægt og nú að rækta eigið grænmeti eins og kostur er,“ segir hún og bætir við að garðurinn þurfi ekki að vera stór.

„Sólríkar svalir geta gagnast til ræktunar á salati, kryddjurtum og meira að segja kartöflum í stórum pokum svo eitthvað sé nefnt. Basil og fleiri krydd þrífast ágætlega í gluggum innanhúss en betra er að hafa það ekki í suðurglugga. Einnig hefur fólk fengið uppskeru af tómatplöntum innanhúss,“ segir hún.

Það er ótrúlega skemmtilegt að taka upp nýtt grænmeti í lok sumarsins.8MYNDir/AÐSENDar

Jóhanna segist ekki viss hvort eitthvað sé vinsælla en annað enda aðstæður til ræktunar misjafnar. „Síðan kuldaþolnar tómataplöntur komu á markaðinn eru mörg okkar áhugasöm um að rækta þær á svölum og pöllum, kartöflur eru enn vinsælar, svo má nefna salat og kryddjurtir. Það er vel mögulegt að rækta í pottum en mikilvægt að muna að vökva reglulega með áburði. Ég get nefnt nokkur dæmi um matjurtir sem hægt er að rækta í pottum og kerjum, til dæmis grænkál, salat, spínat, steinselju, radísur, kartöflur, gulrætur, gulrófur, hnúðkál, jarðarber, hindber, lauk, rabarbara, kúrbít, tómata og sólhnýði. Síðan eru það krydd eins og salvía, rósmarín, óreganó, timían, mynta og margt fleira,“ segir Jóhanna.

Það er hægt að rækta alls kyns grænmeti í pottum.

Þarf matjurtagarður mikla umhirðu yfir sumartímann?

„Eftir að útplöntun er lokið í byrjun sumars eru verkefnin aðallega fólgin í því að fylgjast með og grípa inn í ef illgresið gerir vart við sig og hvort þurfi að vökva. Ég held að það sé óhætt að segja að verkefnin séu hreint ekki yfirþyrmandi heldur er gefandi að fylgjast með þroska og þróun plantnanna.“

Er betra að rækta í sérstökum kassabeðum fremur en beint í jörðinni?

„Mér finnst best að rækta „beint í jörðinni“ en kassabeð/reitir eru líka mjög góðir, sérstaklega fyrir viðkvæmar tegundir,“ segir Jóhanna og þegar hún er spurð hver sé besta moldin til matjurtaræktunar, svarar hún:

„Ef við erum að tala um beðin úti í garði er mómold með svolitlum vikri eða sandi það besta. Í pottum finnst mér best að kaupa mómold án viðbætts áburðar, og bæta í hana gömlum búfjáráburði og vikri. Svo er einnig hægt að kaupa góða ræktunarmold með viðbættum áburði. Ef nauðsynlegt er að bæta við áburði er gott að blanda Maxi crop áburði í vökvunarvatnið einu sinni í viku. Gott er að hafa í huga að matjurtir eru þurftarfrekari á áburð heldur en blómplöntur.“

Hvenær er rétti tíminn til að setja niður?

„Mér finnst best að bíða með útplöntun fram í endaðan maí því að þá hafa líkurnar á kuldakasti minnkað. Kartöflurnar fara reyndar út fyrr og gott er að sá gulrótunum fyrri part maímánaðar og hafa þá tiltækar yfirbreiðslur ef skyldi kólna. Ég hef það að markmiði að vera búin að planta og sá í garðinn fyrir 10. júní.“

Mikil aðsókn hefur verið hjá Jóhönnu á námskeiðin hennar í gegnum árin en hún var ekki með námskeið á þessu ári.