Danska leikkonan og fyrirsætan Brigiette Nielsen ræddi á einlægu nótunum við breska blaðið Guardian um lífsreynsluna og fæðingu nýjasta barns síns, sem Nielsen eignaðist í júní á síðasta ári með eiginmanninum Mattia Dessi, þá 54 ára gömul. 

Parið nýtti sér aðstoð tækninnar til að verða ólétt en þeim hafði verið tjáð að það væri einungis 2,5 prósent líkur á að tæknifrjóvgunin myndi heppnast en allt kom fyrir ekki og parið eignaðist litla stelpu, sem ber nafnið Frida en um er að ræða fimmta barn leikkonunnar.

Varð að leyna óléttunni í 27 vikur

Brigitte segir í samtali við Guardian að ferlið hafi verið erfitt og að það sé ekki á færi allra, þar sem hún hafi þurft að vera á miklu magni af lyfjum og þá hafi ferlið verið mjög dýrt. Hún hafi reglulega fengið þær fregnir að það hafi ekki gengið. 

Þegar í ljós kom að Brigitte var ólétt, sagði læknirinn henni að bíða með að tilkynna nokkrum um óléttuna. „Læknirinn sagði bara við mig: „Ef ég væri þú, myndi ég ekki segja neinum þangað til þú ert komin 27 vikur á leið,“ en Nielsen hélt meira að segja óléttunni leyndri fyrir móður sinni.

Hún segist hafa fengið mikið af bréfum og tölvupóstum frá konum sem hafi þakkað sér fyrir að ryðja veginn og veita þeim hugrekki. Viðbrögðin hafi þó verið mismunandi. 

„Sumum finnst þetta fáránlegt, sumum finnst þetta hræðilegt. Mér finnst þetta ekki koma neinum við. Þetta er eiginmaðurinn minn og mitt líf og við elskum það sem við gerum.

Þegar fólk segir að þú sért 54 ára, já, jæja, hvað með alla mennina sem eru á sextugs, sjötugs, áttræðisaldri? Ég sá Jeff Goldblum nýlega [hann eignaðist nýlega son 64 ára gamall] og ég sagði: „Jeff! Hvernig gengur, gamli pabbi?“

Vissi ekkert hvað hún var að gera þegar hún eignaðist fyrsta barnið

Í viðtalinu fer Brigiette jafnframt um víðan völl yfir feril sinn og viðbrögðin í Hollywood við því þegar hún skildi við hasarleikarann Sylvester Stallone en hún segir að hún hafi hætt að fá boð í hlutverk þegar þau skildu árið 1987. Hún segist vilja vernda Fridu með öllum ráðum og hafi miklar áhyggjur af samfélagsmiðlum en að það komi sér vel að vera reynslumikil móðir.

„Ég þarf virkilega mikið að vernda hana,“ segir Nielsen og vísar í samfélagsmiðla. „Þú sérð að það er mikið um einveru og einmanaleika....ég vil valdefla hana. Ég vil að hún ferðist og hafi skyldur, að hún fái örlítið af uppeldinu sem að ég fékk.

Ég elska að eiga barn núna af því að ég hafði ekki hugmynd um hvað ég var að gera þegar ég átti fyrsta barnið mitt tvítug. Ég var út um allt. Vinna fyrst, ferðast fyrst, ást fyrst, það getur beðið. Ég velti fyrir mér af hverju þetta gerist allt núna. Ég held það sé af því að ég hef verið á góðum stað í nokkur ár núna, andlega og líkamlega. Ég vildi að ég hefði alltaf verið svona, en það er betra seint en aldrei.“

View this post on Instagram

I told you that you could fly♡ #love #littlegirl

A post shared by Brigitte Nielsen (@realbrigittenielsen) on