Sífellt fleiri rannsóknir benda til þess að heilsunni þurfi ekki endilega að hraka með aldri. Í nýlegri grein sem birtist á vef The Telegraph var fjallað um þessar rannsóknir og prófessor í öldrunarfræði gaf góð ráð varðandi lífsstílsbreytingar sem henta fólki yfir sextugu.

Í fyrra kom út rannsókn sem var unnin við Johns Hopkins-háskóla í Bandaríkjunum þar sem fylgst var með yfir sex þúsund manns á aldrinum 44-84 ára í meira en sjö ár. Fólkið sem gerði jákvæðar lífsstílsbreytingar, eins og að bæta mataræði, hætta reykingum og byrja að hreyfa sig, jók lífslíkur sínar um 80 prósent.

Háskólinn í Bergen gaf líka út stóra rannsókn nýlega þar sem kom fram að með því að tileinka sér hollt mataræði við sextugt sé hægt að lengja lífið um næstum áratug. Jafnvel þó að breytingin sé ekki gerð fyrr en við 80 ára aldur er hægt að bæta þremur árum við lífslíkur sínar, segja rannsakendur.

Líkaminn getur breyst alla ævi

Rose Ann Kenny, sem er prófessor í öldrunarfræði við Trinity-háskóla í Dublin, segir að það sé hægt að gera ýmislegt til að halda líkamanum yngri en aldurinn segir til um.

Hún segir að fólk á fimmtugs- og sextugsaldri ætti að einbeita sér að því að byggja upp góð vinabönd, því það verði minna um að fólk kynnist nýju fólki þegar það eldist og að fólk eigi að hreyfa sig meira á hverju ári eftir sextugt. Hún ráðleggur fólki líka að passa upp á hitaeiningarnar sem það innbyrðir. Hún segir að þegar fólk segir sjálfu sér að það sé of seint til að byrja sé einmitt rétti tíminn til að hefjast handa og líkaminn geti breyst og endurnýjast allt fram á tíræðisaldur.

Lífsstílsbreytingar fyrir sextuga

Prófessor Kenny er með sjö uppástungur að lífsstílsbreytingum sem er hægt að gera eftir sextugt sem stuðla að lengra og betra lífi.

Í fyrsta lagi ráðleggur hún fólki að tileinka sér hið svokallað Miðjarðarhafsmataræði. Hún segir að ein besta leiðin til að lengja lífið sé að borða lítið eða ekkert rautt kjöt, sleppa mettaðri fitu og sykri og borða mikið af heilkorni, ávöxtum, grænmeti, sjávarfangi, baunum, hnetum og ólífuolíu.

Hún segir að það hafi margoft komið í ljós að unnið kjöt eins og pylsur og beikon flýti fyrir öldrun. Rannsóknir frá Kína benda til að slíkur matur sé leiðandi orsök ýmissa banvænna sjúkdóma og geti minnkað lífslíkur og truflað svefn. Aftur á móti getur feitur fiskur verið mjög hollur.

Hún mælir líka með því að fólk borði ekki mikið og bendir á rannsóknir sem gefa til kynna að hollt og hóflegt mataræði geti læknað sykursýki 2. Hún segir líka að það geti verið hollt að borða allar máltíðir dagsins í átta klukkustunda glugga yfir daginn því það lækki blóðsykur og minnki bólgur.

Kenny bendir líka á að það sé mikilvægt að fóðra góða magaflóru og að fólk geti breytt henni til hins betra á aðeins örfáum dögum, óháð aldri. Hún bendir fólki á að reyna að borða litríkan mat og nefnir sérstaklega hindber, vínber og gerjaðan mat eins og kimchi.

Kenny hvetur fólk til að takmarka áfengisneyslu en vill samt ekki meina að fólk þurfi að gerast bindindismenn. Hún bendir á að til séu rannsóknir sem sýna gagnsemi þess að drekka eitt eða tvö rauðvínsglös á dag með einhverjum sem manni þykir vænt um.

Kenny segir að það að byrja að stunda líkamsrækt á miðjum aldri geti aukið lífslíkur jafn mikið eins og að byrja ung, en bendir á að mótstöðuþjálfun sé ekki síður mikilvæg en þolþjálfun og þjóni mikilvægi hlutverki við að halda beinum og vöðvum sterkum.

Með aldrinum breytist svefnmynstur og fólk sefur minna, svo margir vilja leggja sig á daginn, sem Kenny segir að sé í góðu lagi. En hún ráðleggur fólki að sofa ekki í meira en 20 mínútur og að leggja sig ekki eftir klukkan þrjú á daginn, því annars truflist svefnmynstrið, sem dregur úr orku og lætur fólki líða eins og það sé eldra. ■