Anna segir að mjög margir hafi dottið úr gírnum á undanförnu ári og séu núna að koma til baka og koma sér í gang aftur. „Ég ráðlegg fólki að byrja rólega, setja sér markmið og einfaldlega koma sér af stað því ekki er eftir neinu að bíða,“ segir hún. „Mjög gott er að byrja á einföldum en fjölbreyttum styrktaræfingum fyrir allan líkamann sem hægt er að gera með eigin líkamsþyngd. Það er ekki nauðsynlegt að hafa lóð eða önnur hjálpartæki. Ég er með fullt af góðum styrktarprógrömmum inni á minni síðu sem þægilegt er að gera heima. Svo eru allir velkomnir í Hreyfingu þar sem bæði er hægt að fá góða aðstoð í tækjasal eða prófa hóptíma,“ segir hún.

Anna segir að maður sé aldrei of gamall til að stunda styrktaræfingar. Þær sé mjög góðar fyrir allan aldur. „Styrktaræfingar eru í rauninni mjög mikilvægar fyrir líkamann en lykilatriðið er að byrja rólega og alls ekki með of miklar þyngdir. Ég myndi segja að gott væri að æfa þrisvar í viku en klárlega enn betra að gera það oftar.“

Góður árangur

Styrktaræfingar hafa verið vinsælar hjá bæði konum og körlum undanfarin ár. Æfingarnar eru góðar til að styrkja líkamann og auka fitubrennslu.

Nauðsynlegt er að fá góðan þjálfara í upphafi til að gera æfingarnar rétt. Í upphafi finnur fólk fyrir þreytu eftir þjálfun en smátt og smátt eykst þrekið og árangurinn kemur í ljós. Læra þarf réttu tæknina í upphafi til að koma í veg fyrir meiðsli.

Best er að halda sig við grunnæfingar í upphafi eða þangað til þjálfunin er komin í rútínu. Markmiðið er að byggja upp sterkan líkama til lengri tíma litið. Sambland af hreyfingu og góðu mataræði bætir bæði lífsgæði og heilsu. Þegar fólk sér árangur bæði í meiri orku og betri líðan eykst sjálfstraustið. Ekki gleyma hvíldardögum því þeir eru nauðsynlegir.

Hér koma nokkrar leiðbeiningar frá Önnu Eiríks um hvernig best er að komast aftur í gírinn.

Anna Eiríks heldur úti vefsíðu þar sem hún aðstoðar fólk við að hefja reglulega hreyfingu. MYND/AÐSEND

Viltu komast aftur í gírinn?

Ef þú ert ein/n af þeim sem ætlaðir að taka vel á því í ræktinni en gerðir það ekki og ert algjörlega dottin/n úr æfingagírnum þá eru hér fjögur einföld ráð sem hjálpa til við að komast aftur í gírinn.

  1. Settu þér markmið Þessi vísa verður aldrei of oft kveðin. Það skiptir ótrúlega miklu máli að setja sér mælanleg markmið sem stefnt er að með markvissum hætti. Einnig er gott að búta markmiðin niður í smærri sigra og verðlauna sig fyrir hvert skref að stóra markmiðinu, þannig verður leiðin að því viðráðanlegri og skemmtilegri.
  2. Finndu æfingafélaga Sumir eru mjög sjálfstæðir og agaðir þegar kemur að þjálfun og þurfa enga auka hvatningu á meðan aðrir hafa sig varla af stað en þá getur góður æfingafélagi skipt sköpum. Æfingafélaginn getur verið góður hópur, einkaþjálfari, vinur/vinkona, fjölskyldumeðlimur eða fjarþjálfari en það getur gert gæfumuninn að finna sinn æfingafélaga til þess að halda sér við efnið.
  3. Finndu hreyfingu sem þér finnst skemmtilegt að stunda Það er miklu auðveldara að halda sér í góðum æfingagír með því að stunda hreyfingu sem manni þykir skemmtileg og því nauðsynlegt að finna hvað hentar best og hverju maður hefur gaman af.
  4. Haltu þér við efnið Ef þú hefur ekki hreyft þig reglulega í langan tíma þá er nauðsynlegt að fara rólega af stað og halda sér við efnið. Margt smátt gerir eitt stórt, æfingarnar þurfa ekki að vera langar til þess að skila árangri og enginn er fullkominn í mataræðinu, aðalmálið er að halda sér við efnið.

Nánar má kynna sér æfingahugmyndir Önnu á Instagram.com/aeiriks eða á vefsíðu hennar annaeiriks.blog.is