„Shook er dýnamískt og ögrandi fimmtán laga sjálfsævisögulegt ferðalag um myrkustu dýpi margra ára ofbeldissambands, og hvernig ég braust á endanum úr greipum þess og fann mína sönnu rödd, í bókstaflegri sem óeiginlegri merkingu. Hvert einasta lag gefur skýra innsýn í nánast ritúalíska smánun, gaslýsingu, kúgun, ótta, stjórnun og ægivald, sem ég hef nú sett saman sem áþreifanlega upplifun með þykkri og marglaga áferð, nístandi nöprum textum, púlsandi og sanseruðum tónlistarútsetningum og umfram allt, afdráttarlausri hreinskilni og heiðarleika.“

Svo segir söngkonan, lagahöfundurinn, tónlistarframleiðandinn og upptökustjórinn Zöe Ruth Erwin um sína fyrstu breiðskífu, Shook, sem kom út á dögunum.

Zöe er frá Kaliforníu og var forsprakki hljómsveitarinnar Little Red Lung, sem naut gríðarlegrar velgengi í Bandaríkjunum þegar hún ákvað að koma til Íslands í fáeinar vikur til að láta á reyna að semja og flytja tónlist á eigin forsendum. Hún kolféll fyrir landi og þjóð, og býr hér enn, fimm árum síðar. Í millitíðinni hefur Zöe starfað sem umboðsmaður Mezzoforte, samið og sungið titillag kvikmyndarinnar Lof mér að falla og rekur nú eigið hljóðver, Studio River, þar sem hún tekur upp og framleiðir tónlist fyrir annað tónlistarfólk.

„Það var einmitt kolsvart myrkrið og þykkur, hvítur veturinn sem gerði mig ástfangna af Íslandi. Skammdegið er minn uppáhaldsárstími og ekkert í veröldinni eins töfrandi og að fá sér kaffisopa og lesa magnaða bók í kertaljósum þegar skyggja fer um miðjan dag á íslenskum vetri,“ segir Zöe.

Rauða kjólinn fann Zöe hjá TJ Maxx í Bandaríkjunum. FRÉTTABLAÐIÐ/EYÞÓR

Leðurstígvélin urðu að dufti

Eftir að hafa lifað og hrærst á Íslandi síðastliðin fimm ár segir Zöe óhjákvæmilegt að hafa tileinkað sér eitt og annað íslenskt þegar kemur að tísku.

„Það hefur tvímælalaust kennt mér að meðtaka þá staðreynd að maður getur aldrei klæðst of miklu svörtu,“ segir Zöe og hlær. „En mér þykir líka afskaplega vænt um íslensku lopapeysuna mína,“ bætir hún við.

Hennar fyrsta minning um tísku var um sex ára aldurinn.

„Þá sá ég tónlistarmyndband með David Bowie and the Spiders from Mars, og man hvað mér fannst stórkostlegt að geta breytt sér í hvaða persónu eða persónuleika sem væri í gegnum fatnað og förðun, eða því viðhorfi að tíska geti gert manni kleift að verða einhver annar. Þetta frelsi virkaði hvetjandi á mig, næstum eins og ofurkraftar sem ég vissi þó að gætu aldrei orðið í veruleikanum,“ segir Zöe dreymin.

Tískuvitið hefur hún mestmegnis frá hljómsveitum og tónlistarfólki, en líka frá þekktum tískuáhrifum kvikmynda og sjónvarpsþátta sjöunda og áttunda áratugarins.

„Áttundi áratugurinn verður alltaf í mestu dálæti, allt frá tísku til tónlistar. Hann var hávær, litríkur og allt tímabilið algjörlega einstakt. Ég á enn í mesta basli með að standast útvíðar gallabuxur og svarta Converse-strigaskó,“ segir Zöe, sem lýsir eigin fatastíl sem einföldum og klassískum með fullt af vintage-fötum í bland.

„Ég hef aldrei eytt miklu í föt, en spanderaði eitt sinn 250 dölum í leðurstígvél og fæ stundum enn samviskubit vegna þess. Ég gekk í þeim þar til þau molnuðu í duft, svo peningunum var eftir allt saman vel varið,“ segir Zöe og hlær við.

„Ég kýs annars að versla í búðum með notuð og vintage föt, því þar finnur maður sjaldséðari og einstakari flíkur en þær sem fást hjá stóru verslunarkeðjunum. Þá þykir mér vintage-föt fallegri og gæðin betri.“

Jólakjóll Zöe í ár er svartur og silfraður pallíettukjóll. FRÉTTABLAÐIÐ/EYÞÓR

Skítsama um álit annarra

Þegar Zöe varð fimm ára fékk hún leyfi foreldra sinna til að klæðast því sem hún vildi þegar hún færi í skólann.

„Mömmu og pabba þótti mikilvægt að ég uppgötvaði eigin sjálfsvitund, allt frá sjálfstæðum skoðunum til fatnaðar sem ég valdi sjálf að klæðast. Stundum mætti ég með sokka upp á miðja handleggi, í þremur pilsum og tveimur ólíkum blússum og alltaf með þau skilaboð að heiman að mér ætti að vera skítsama um hvað öðrum fyndist um útlit mitt eða sjálfa mig,“ greinir Zöe frá.

Sjálfri finnst henni að banna ætti nýja loðfeldi í tískuheimi nútímans.

„Loðdýraræktun fyrir tískuheiminn er algjörlega ónauðsynleg framleiðsla og hreinlega viðbjóðslegt að loðdýramarkaðurinn sé enn stöndugur og í blóma.“

Hennar hjartfólgnasta flík er hippaskyrta sem pabbi hennar klæddist iðulega á sjöunda og áttunda áratugnum.

„Ég á líka silfurhálsmen sem geymir ösku föður míns. Það er mér dýrmætt og ég ber það á mér nánast dag hvern,“ segir Zöe.

Hlakkar til íslenskra jóla

Þegar kirkjuklukkurnar hringja inn jólin ætlar Zöe að skarta svörtum og silfruðum pallíettukjól við svört, gljáandi ökklakúrekastígvél. Hún hyggst ekki opna gjafirnar á jóladagsmorgun, eins og tíðkast á bandarískum jólum, heldur halda ekta, íslensk jól.

„Ég hef að fullu aðlagast íslensku jólahaldi nú. þegar ég á orðið íslenskan sambýlismann og tvo íslenska stjúpsyni,“ segir Zöe og hlakkar mikið til.

Tónlist hennar hefur verið vinsæl í sjónvarpsþáttum og velgengni Little Red Lung leiddi meðal annars af sér tónleika á Bonnaroo Music & Arts Festival þar sem hún deildi sviði með Paul McCartney, Tom Petty og Björk. Þá slógu nokkur lög hljómsveitarinnar rækilega í gegn í sjónvarpsþáttunum So you think you can dance og The Originals, sem og öðrum þáttaröðum á Netflix og Fox. Einnig spilar lagið Blood in the Water, af nýju plötunni Shook, stóra rullu í lokaþætti seríunnar Truth be told á Apple+.

„Á nýárinu er ótal margt spennandi í farvatninu. Ég er um það bil að flytja í nýtt stúdíó og þar ætla ég að ljúka við upptökur á næstu plötu, sem ég hef þegar samið og er hálfnuð með að taka upp. Ég ætla líka að koma oftar opinberlega fram og gefa út fleiri smáskífur. Ég hlakka líka mikið til spennandi samstarfs við íslenska listamenn sem ég dýrka og dái.“

Plötu Zöe, Shook, er hægt að finna og fá á Spotify, Apple Music og fleiri streymisveitum.

Fylgist með Zöe á samfélagsmiðlum: Instagram @zoerutherwin, Facebook @zoesongs og á zoemusiciceland.com