Leikkonan Aldís Amah Hamilton fer með aðalhlutverkið í glæpaþáttunum Svörtu söndum á Stöð 2 og er auk þess einn handritshöfundanna. Hún segist þakklát fyrir gróskuna í íslensku sjónvarpi en nú ganga tvær ólíkar seríur á hvor á sinni sjónvarpsstöðinni á sunnudagskvöldum; Svörtu sandarnir hennar og Verbúðin.

Það er því nóg að gerast á skjánum en hún gefur sér þó góðan tíma til þess að fylgjast með því sem streymir að utan.

„Akkúrat á þessu augnabliki er ég að fara að klára Netflix-myndina Uncut Gems með Adam Sandler. Nýlega horfði ég á aðra mynd eftir Safdie-bræðurna og það er gaman að sjá líkindin. Orkan er vægast sagt kaótísk en ótrúlega grípandi og mjög í anda þess sem ég hef sjálf áhuga á að skapa þessa dagana.

Það er að segja, að sjá fólk bregðast undarlega, jafnvel fáránlega, við ákveðnum aðstæðum. Ég held það sé hollt að minna sig svona á að öll erum við með ólíkt vopnabúr sem við grípum til þegar í harðbakkann slær … mjög misgóð vopn!“ segir Aldís með áherslu.

„Yfir morgunmatnum er ég að svissa milli Schitt’s Creek og Succession, svona eftir því hversu hress ég er þegar ég vakna. Það þarf stundum ákveðna lífsgleði til að ráðast í Succ­ession. En frábærir þættir!“

„Annars er ég auðvitað bara að bíða eftir því að næsti sunnudagur banki upp á svo ég geti haldið áfram með Svörtu sanda og að sjálfsögðu Verbúðina. Það er algjör veisla í gangi þessa dagana, þó ég segi sjálf frá, þökk sé íslenskri þáttaframleiðslu!“