Magnea ákvað að læra fatahönnun þegar hún var 17 ára en áhuginn kviknaði í lýðháskóla í Kaupmannahöfn.

„Þar var ég með flotta kennara sem höfðu starfað í faginu og ég áttaði mig á því þar hvað fatahönnun væri stór og fjölbreytt atvinnugrein, enda hefur uppgangur í henni á Norðurlöndunum verið mikill á undanförnum árum,“ segir Magnea.

Eftir menntaskóla fór hún í undirbúningsnám í Myndlistaskólanum í Reykjavík í eitt ár og sótti svo um nám í fatahönnun erlendis. Hún var fyrst í Parsons í París og svo í Central St. Martins í London, þar sem hún sérhæfði sig í prjóni og prjónahönnun.

„Ég hef verið að fást við það síðan ég útskrifaðist 2012 og byggt upp eigið vörumerki og sýnt línur bæði hér heima og erlendis. Ég opnaði nýverið verslunina Kiosk við Grandagarð sem er samrekin verslun nokkurra íslenskra fatahönnuða,“ segir hún.

Prjónið í aðalhlutverki

Magnea hefur sent frá sér eina línu á ári undir merkinu MAGNEA en hún hefur einnig unnið samstarfslínur, til dæmis við íslenska fyrirtækið Aurum og bandaríska fyrirtækið Club Monaco.

„Prjónið er alltaf í aðalhlutverki en ég legg áherslu á að hanna öll mín efni sjálf og gera nýja hluti með prjón. Efnisvalið er fjölbreytt en ég reyni að vinna með náttúruleg efni og umhverfisvæn eftir mesta megni. Ég vinn mikið með ull og hef gert línur úr kasmír, mohair og merino ull en íslenska ullin hefur alltaf spilað stórt hlutverk í minni hönnun líka. Ég hef ég alltaf haft hana með í þeim fatalínum sem ég hef sent frá mér. Ég nálgast hana á nýjan hátt með því að blanda henni saman við önnur efni og hanna úr henni flíkur sem hún er ekki þekkt fyrir að vera notuð í. Nýjasta dæmið eru yfirhafnir sem ég frumsýndi í haust á sýningunni 100% ull á Hönnunarsafni Íslands og á Trendnet,“ upplýsir Magnea.

Magnea fékk styrk frá Hönnunarsjóði Íslands til að þróa yfirhafnir úr íslenskri ull, en markmið hennar var að búa til vöru með lágmarkað kolefnisspor með því að nota innlend hráefni, hönnun og framleiðslu.

„Allt ferlið fer fram innan Reykjavíkur og línuna ákvað ég að kalla „made in reykjavík“. Í titlinum felst ákveðin vitundarvakning um uppruna fatnaðar. Ein flík getur nefnilega farið marga hringi kringum jörðina áður en hún skilar sér til neytenda. Ferlið er því talsvert umhverfisvænna og stuðlar að aukinni sjálfbærni ásamt því að auka verðmætasköpun úr íslensku hráefni og atvinnusköpun á Íslandi. Tískuiðnaðurinn er einn sá mest mengandi á alheimsvísu, en ég trúi því að við hér á Íslandi getum staðið fyrir hönnun á vörum sem stuðla að betrumbótum á því sviði,“ segir hún.

„Kostir lókal framleiðslu eru að maður er nær vörunni og þróunarferlinu, maður fylgist betur með sem hönnuður. Það eru þó ekki endalausir möguleikar í framleiðslu hér á landi en það er gaman að gera það sem er hægt að gera hér og ögra hefðbundnu hráefni á borð við íslensku ullinni um leið.“

Magnea tók nýlega við starfi sem fagstjóri fatahönnunar í Listaháskólanum og segir framtíðina bjarta í faginu. Fréttablaðið/Sigtryggur Ari

Gróskan í greininni mikil

Magnea segist dást að öðrum íslenskum fatahönnuðum og að gróska í greininni sé mikil.

„Það er mikil þrautseigja í kollegum mínum hérlendis, margar áskoranir í umhverfi okkar gera það flókið að reka fatahönnunarfyrirtæki. Samstarfskonur mínar í versluninni Kiosk, þær Anita Hirlekar, Eygló, Helga Lilja og Hlín Reykdal eru mínir helstu áhrifavaldar þessa dagana, það er dásamleg orka sem fylgir því að reka verslun með svona sterkum og flottum konum.“

Magnea segir að við eigin hönnun fái hún mikinn innblástur frá öðrum listgreinum, hönnun, arkitektúr og myndlist en líka kvikmyndum og tónlist.

„Kveikjan verður oftast til í nærumhverfinu en það getur verið skrítin litasamsetning sem verður á vegi mínum eða hlutur sem ég rekst á á nytjamarkaði. Eitthvað sem gerir mig forvitna og fær mig til að langa til að rannsaka betur. Ég legg áherslu á prjón og byrja alltaf á að hanna efnið áður en flíkin verður til, það fer svo mikið eftir því hvernig efnið hegðar sér hvað til verður úr því. Stór hluti af hönnunarferlinu er því prufugerð með prjón og aðferðir, bæði í höndunum og á prjónavél.“

Kápa eftir Magneu úr íslenskri ull

Krefjandi aðstæður

Í haust tók Magnea við stöðu fagstjóra fatahönnunar í Listaháskóla Íslands, sem hún segir hafa verið bæði gefandi og krefjandi.

„Það er krefjandi að takast á við nýtt starf í miðjum heimsfaraldri. Nemendur hafa tekist á við þessar aðstæður af krafti og ég dáist að því hvernig þau hafa nálgast breyttar aðstæður. Hönnunardeild er stærsta deild Listaháskólans og því talsvert af fatahönnuðum sem útskrifast þaðan. Ég hef kennt við skólann frá því ég útskrifaðist sjálf og hef gaman af því að nálgast fagið frá þessum enda um leið og ég rek mitt eigið fyrirtæki,“ segir Magnea.

Hún hefur einnig setið í stjórnum Fatahönnunarfélags Íslands og Miðstöðvar hönnunar og arkitektúrs á Íslandi, svo hún hefur breiða sýn á greinina hér á landi.

„Hér er er bæði öflug grasrót og hæfileikaríkir nemendur og ég get ekki annað en haft tröllatrú á að framtíðin sé björt hvað hæfileika varðar. Það er þó lítið um störf nema þá helst þau sem hönnuðir skapa sjálfir. Það er alveg kominn tími til að færa senuna upp á næsta stig og taka skrefið í átt að því að byggja upp alvöru atvinnugrein úr fatahönnun á Íslandi. Við þurfum ekki að líta langt yfir hafið til að sjá hvað skapandi greinar og tískuiðnaður geta gefið af sér gríðarlega mikil verðmæti og hér eigum við auðlind í fagmenntuðu fólki sem er að gera frábæra hluti. Að mínu mati liggur það fyrir að það er mikilvægt að byggja upp margar fjölbreyttar atvinnugreinar á Íslandi í kjölfar heimsfaraldurs.“

Magnea segir að greinin sé ung hér á landi en í miklum vexti og hafi að vissu leyti þau forréttindi að hafa enn ekki myndað sér sérstöðu á alheimsvísu.

„Það eru að mínu mati sóknarfæri fólgin í því þegar litið er til þeirra áskorana sem iðnaðurinn stendur frammi fyrir á heimsvísu. Mörg stór fyrirtæki í nágrannalöndum okkar standa frammi fyrir því að þurfa að breyta sinni ímynd og vinnulagi en við hér höfum tækifæri til að standa fyrir nýja nálgun. Íslenskir fatahönnuðir eru mjög fjölbreyttir en ég held að við eigum sameiginlegt að vera í mikilli tengingu við náttúruna okkar, veðrið og birtuna og hönnunin ber merki þess, hvort sem er í litavali, áherslum eða aðferðum.“