Enn hefur heimildar­mynd Andra Snæs Magna­sonar og Anníar Ólafs­dóttur, Þriðji póllinn, ekki verið frum­sýnd þótt myndin, sem fjallar um fíla­prinsessuna Önnu og rokk­stjörnuna Högna, sé full­til­búin. Á­stæðan er vita­skuld kóróna­far­aldurinn sem hefur stöðvað svo ó­tal­margt.

Andri og Anní létu frestun á frum­sýningu ekki draga úr sér kraft. Þau á­kváðu að gera nýja heimildar­mynd og fanga þar and­rúms­loftið á tíma þegar heimurinn fór í hæga­gang.

„Það var Anní sem fékk þá hug­mynd að nýta þennan tíma til að gera eitt­hvað. Hún sagði að við ættum að fanga pásuna,“ segir Andri. „Við fórum af stað og ætluðum að mynda tómar sund­laugar og tóma f lug­velli en sáum að það yrði of tómt. Þannig að við tókum þetta skrefi lengra og fengum lista­menn til að nota þessi tómu svið sem leik­svið.“

Dansað í gegnum Leifs­stöð

Myndin hefur titilinn Tí­dægra og í henni koma fram tíu ein­staklingar, flestir lista­menn. Unnur Elísa­bet Gunnars­dóttir dansar í gegnum Leifs­stöð og út á flug­brautina. Gunnar Kvaran spilar á selló og meðal annarra sem koma fram eru Dóri DNA, Ásta Fann­ey Sigurðar­dóttir, Elísa­bet Jökuls­dóttir, Haraldur Jóns­son og Auður Eir Vil­hjálms­dóttir.

„Við spurðum alla hvað væri í loftinu, því við vildum fanga til­finninguna í þessari al­gjöru ó­vissu þegar allar þessar tak­markanir voru. Við vissum ekkert hvort á­standið yrði verra eða myndi batna. Við vildum fanga ná­kvæm­lega þessa klemmu á þeim tíma sem hún stóð yfir, frekar en láta fólk rifja upp seinna hvernig því leið á tíma kóróna­far­aldursins. Við vildum líka fanga hugsanir um hvort þetta væri undan­fari stærri breytinga í heiminum,“ segir Andri.

Flestir bjart­sýnir

Þau eru spurð hvort ein­hver sam­eigin­leg við­horf hafi komið fram í máli við­mælenda þeirra.

„Flestir voru bjart­sýnir og voru á því að það væri búið að sýna okkur að það væri pásutakki í heiminum. Við gætum stoppað hluti sem vísinda­menn hafa sýnt fram á að við bíðum skaða af, eins og til dæmis varðandi lofts­lags­mál. Nokkrir voru á mystískum nótum og töldu að það gæti ekki verið til­viljun að okkur væri sýndur pásutakkinn,“ segir Anní.

„Haraldur Jóns­son benti á að orðið „apo­ca­lyp­se“ þýðir af­hjúpun, en ekki heims­endir. Í rauninni má segja að með kóróna­far­aldrinum hafi allt af hjúpast: stjórn­kerfin, inn­viðir og munurinn á kjörum hinna fá­tæku og þeirra ríku,“ segir Andri.

Þau eiga eftir að klippa myndina og segja að í lok júní verði vinnslan langt komin.

„Á tímum þegar nánast ekkert verk var skapað í kvik­mynda­heiminum langar okkur til að ljúka við þessa mynd,“ segja Anní og Andri.