Leikarinn Björn Stefánsson fékk sér í dag húðflúr með undirskrift Bubba Mortens. Hann og Bubbi eru góðir vinir, enda hafa þeir unnið saman að leiksýningunni Níu líf, sem fjallar um æfi rokkstjörnunnar.

Björn deildi frá tattúinu á samfélagsmiðlum. Þar sést Bubbi rita nafn sitt á handlegg Björns og í kjölfarið fyllir tattúartistinn Jón Páll upp í undirskriftina.

„Þetta er ekki beint eiginhandaráritun,“ útskýrir Björn í samtali við Fréttablaðið, en á sama tíma situr hann kvalinn í tattústólnum að fá sér annað húðflúr. 

„Hann er hluti af svo miklu í mínu lífi. Við erum bræður í listinni,“ segir hann og bendir á að hann sé bæði mikill aðdáandi Bubba og þá hafi grandskoðun hans á manninum, vegna hlutverksins í Níu líf, haft mikil áhrif. „Svo ég ákvað bara að fá Bubba á skinn,“ segir hann og bætir við: „Festa þetta tímabil í lífi mínu.“

Leikarinn ástsæli hefur áður rætt um vináttu sína og Bubba, en í helgarviðtali Fréttablaðsins í janúar greindi hann frá því að þeir félagarnir horfðu gjarnan saman á stríðsmyndir í vídeó-klúbbi.

Undirskrift Bubba sem verður á Birni til frambúðar.
Fréttablaðið/Skjáskot

Björn segist hafa ákveðið að fá sér tattúið í gær. „Við höfum verið á leiðinni í tattú í tvo mánuði, talað um það lengi, en svo ákvað ég þetta bara í gær.“

Líkt og áður segir situr Björn í stólnum á meðan hann ræðir við Fréttablaðið. Þá er hann að fá á sig Nitendo-fjarstýringu, sem hann segir að tákni unglingsárin. Á meðan fékk Bubbi sér tvo boxhanska.

„Hann fékk sér ekki Björn Stefánsson“ segir hann og hlær.

Bubbi lét ekki tattúa á sig nafn Björns.
Fréttablaðið/Skjáskot