„Það má segja að ég hafi haldið mig við nokkuð hefðbundið glæpasagnaform í fyrstu þremur bókum mínum en hugmyndin að þessari bók kallaði á aðra leið,“ segir Óskar.

„Í fyrri bókunum var ég að leyna því hver væri morðinginn með óvæntri uppljóstrun í lokin. En í þessari bók er svo mikill harmleikur í lífi unga ballettdansarans Tony að ef ég hefði ætlað að fela morðingjann hefði ég ekki getað sagt eins mikið frá harminum og persónunni sjálfri og mig langaði til. Lesandinn veit því nánast frá byrjun að ungi maðurinn er morðingi.“

Fyrir tíma farsíma

Sagan gerist árið 1982 í Reykjavík. Af hverju varð þessi sögutími fyrir valinu? „Mig langaði til að skrifa sögu sem gerðist fyrir tíma farsíma og tölvutækni. Á þessum tíma var ég unglingur og faðir minn var með skrifstofu fyrir ofan Mál og menningu á Laugavegi og ég vann hjá honum.

Ég man vel eftir öllu á miðbæjarsvæðinu. Það var því verulega gaman að skrifa um þennan tíma,“ segir Óskar.

Um söguþráðinn segir hann: „Tony er ungur maður sem hefur alltaf verið utanveltu í lífinu. Hann elst upp hjá sjúkri og drykkfelldri móður sem hafði á sínum tíma verið helsta vonarstjarna Íslands í ballett. Þegar draumar hennar um frama í dansheiminum verða að engu reynir hún að færa þá yfir á son sinn með grimmilegum aðferðum – og skelfilegum afleiðingum.

Tony á erfitt með að umgangast fólk og getur ekki tengst því á heilbrigðan hátt. Hann kynnist ungum dönsurum í Þjóðleikhúsinu og það leiðir af sér hræðilega atburði sem tengjast móðurinni.“

Samningur um þríleik

Í bókinni kynnir Óskar til leiks nýtt lögreglupar: Ylfu og Valdimar. „Valdimar er að fara að detta í eftirlaun. Hann er góður maður, vel giftur og á börn og barnabörn.

Ylfa, sem er metnaðarfull í starfi, er að stíga sín fyrstu skref innan lögreglunnar þar sem hún þarf að kljást við karlaveldið. Valdimar verður eins konar föðurímynd, styður hana og hjálpar henni. Ylfa á kærasta og þau eiga saman stúlku sem er að verða eins árs, en vandamál koma upp í sambandi þeirra,“ segir Óskar.

Óskar hefur nú þegar undirritað samning hjá Storytel um að minnsta kosti þríleik um þau Ylfu og Valdimar, og lesendur eiga því eftir að fá að kynnast þeim meira. Dansarinn kom út samtímis sem hljóðbók, rafbók og á prenti.