Sólborg Guðbrandsdóttir stefnir á að gefa út bók fyrir jólin sem heitir Fávitar, eftir Instagram síðu hennar sem birtir daglega myndir, texta og skjáskot af kynferðislegri áreitni, einkum karlmanna í garð kvenna. Áreitnin birtist með ýmsum hætti, til dæmis í formi sendinga typpamynda eða niðrandi og ógeðfelldra skilaboða. Dæmi eru um að þeir sem verði fyrir áreitninni séu á barnsaldri.

Sólborg segir þetta átak gegn stafrænu og annars konar kynferðisofbeldi. Hún hefur unnið sem fyrirlesari síðastliðin tvö ár en verið með síðuna sjálfa í fjögur ár en á þessu tímabili hefur hún hitt þúsundir ungmenna og spjallað við þau um jafnréttismál og samskipti kynjanna.

Hún hefur ávallt verið talsmaður fyrir aukinni kynfræðslu og er bókin liður í þeirri fræðslu.

„Bókin mun innihalda spurningarnar sem ég hef fengið frá þeim á fyrirlestrum og á síðunni sjálfri, sem eru mörghundruð talsins. Ég held að þessi bók sé nákvæmlega það sem kynfræðslan á Íslandi þarfnast. Hún er byggð á akkúrat þeim pælingum sem íslenskir unglingar eru með varðandi kynlíf, samskipti, samþykki, ofbeldi, fjölbreytileika og fleira,“ segir Sólborg í spjalli við Fréttablaðið.

Valgrein fyrir alla unglinga

Söfnun fer nú fram á Karolína Fund, svokölluð „all or nothing“ söfnun þannig Sólborg nær annað hvort markmiðinu að fjármagna bókina, eða ekki. Hún safnar 9.000 evrum sem fara í það að greiða fyrir bókaskrif, umbrot, teikningar, prentun, prófarkalestur, útgáfu og dreifingu. „Ég er ekki með neina bakhjarla á bakvið þetta verkefni, og ætla að gefa bókina út á eigin vegum.“

Á Karolina Fund er bæði hægt að styrkja með frjálsum framlögum en einnig að panta ákveðna pakka. Sem dæmi er hægt að panta eina bók eða eina áritaða bók í sitthvorum pakkanum, skólar, félagsmiðstöðvar eða aðrir geta bókað fyrirlestur frá Sólborgu ásamt bók en svo er líka í boði fyrir skóla, sem hyggjast kenna umfjöllunarefni Fávita á næsta skólaári, að panta margar bækur ásamt fyrirlestri. Þess má geta að Akureyrarbær hefur nú þegar ákveðið að kenna Fávita sem valgrein fyrir alla unglinga í sveitarfélaginu næsta haust.

„Ég er alveg viss um það að svona bók hefði sparað mér sjálfri ansi margar erfiðar tilfinningar og upplifanir ef ég hefði haft hana til hliðsjónar á mínum unglingsárum. Unglingar hafa óskað eftir meiri kynfræðslu í skólakerfinu í áratugi og ég held það sé tími til kominn að við sem samfélag förum að hlusta á þau.“