„Það eru breyttir tímar og fólk og fyrir­tæki þurfa að laga sig að að­stæðunum. Sjón­varpsmaðurinn fyrr­verandi og nú­verandi veitinga­maðurinn Jóhannes Ás­björns­son rekur nokkra veitinga­staði undir merkjunum Gleði­pinnar. Hann segist hafa áttað sig á að mikil­vægt væri að láta reyna á öðru­vísi að­ferðir í markaðs­málum á tímum sem þessum. Hann tók því af skarið og á­kvað að bjóða við­skipta­vinum Aktu Taktu upp á klósett­rúllu með hverri pöntun í dag, beint úr lúgunni.

Kemur út á endanum

„Maður finnur það í þjóð­fé­laginu að það er mikil hræðsla við mann­marga staði. Bara það að skjótast út í búð eftir klósett­pappír getur vakið ótta hjá fólki. Við ætlum að mæta þeim ótta með þessum hætti og bjóða við­skipta­vinum okkar sem koma í Aktu Taktu ó­keypis klósett­rúllu með hverri af­greiðslu. Það má eigin­lega segja að við séum að þjónusta okkar við­skipta­vini alla leið með þessum hætti því að allt sem fer inn, þarf jú vissu­lega að koma aftur út á endanum,“ segir Jóhannes.

Hann segir að ekkert verði til sparað þegar kemur að vali á klósett­pappírnum.

„Ég vil taka fram að þetta eru há­gæða­rúllur, þriggja laga, frá þekktum og traustum fram­leiðanda. En til að koma í veg fyrir hamstur þá er mikil­vægt að hafa í huga að það fylgir að­eins ein rúlla með hverri af­greiðslu,“ segir hann.

Neyðin kennir

Hann segir eðli­lega flókið hvernig best sé að tækla markaðinn á tímum sem þessum en það sé um að gera að prófa ný­stár­legar og öðru­vísi að­ferðir.

„Ég gæti alveg séð það fyrir mér að þetta henti mörgum. Það kemur manni ekkert á ó­vart lengur og ó­keypis klósett­rúlla er eitt­hvað sem ég gæti trúað að fólk tengdi sterkt við þessa dagana. Enda höfum við lært undan­farnar vikur að það eru litlu hlutirnir sem skipta máli. Þessar litlu og skemmti­legu gleði­stundir í lífinu.“

Hann segist því hafa reynt eftir fremsta megni að hugsa í skapandi lausnum.

„Þetta eru auð­vitað stór­furðu­legar að­stæður og við viljum reyna að vera til staðar fyrir okkar við­skipta­vini. Við tókum til dæmis upp sam­starf við Hreyfil um heim­sendingar sem hefur mælst mjög vel fyrir enda eru leigu­bíl­stjórar líkt og aðrir að upp­lifa al­gjört stopp í eftir­spurn. Eins og máls­hátturinn segir: Neyðin kenni nöktum ham­borgara­sölum að hugsa út fyrir boxið,“ segir hann og hlær.

Já­kvæð inn­spýting

Jóhannes segir að efst á baugi hjá honum þessa dagana sé að hugsa vel um sína nánustu og að hlýða Víði.

„Ég kvarta ekki. Segi bara eins og tengda­faðir minn segir alltaf: „Við verðum að vera harðir.“ En ég hlakka mikið til að fá vorið og laufin á trén og grænt í túnin. Þegar þetta á­stand mun loksins kveðja okkur þá vona ég að við höfum lært eitt­hvað sem sam­fé­lag og verðum betri við hvort annað. Ég vona að gildis­matið okkar hafi fengið já­kvæða inn­spýtingu,“ segir hann.

Hann segir þó nóg á döfinni hjá sér á næstunni, þrátt fyrir allt.

„Við skulum orða það þannig að það hefur meira verið á döfinni í á­huga­verðu deildinni en kannski bein­línis skemmti­legu deildinni. En lífið er samt alltaf skemmti­legt, bæði í með­vindi og mót­vindi.“

Svarar ef hringir

Jóhannes segist þó bjart­sýnn að eðlis­fari.

„Ó­vissan er vissu­lega tölu­verð og hún er ekki hressandi ferða­fé­lagi í fyrir­tækja­rekstri, en þetta er eins og þetta er,“ segir hann.

Jóhannes gerði garðinn frægan á sínum tíma í sjón­varps­þáttunum 70 mínútur. Það stendur þó ekki til í bili að snúa aftur á sjón­varps­skjáinn, en hann segist þó vera opinn fyrir því í fram­tíðinni.

„Ég hef alltaf verið opinn fyrir því enda bráð­skemmti­legt hobbý. Ég er samt kominn í hóp þeirra sem voru einu sinni frægir og kann á­gæt­lega við það. Við skulum orða það þannig að ég svara alveg ef síminn hringir,“ segir hann og brosir.