„Það eru breyttir tímar og fólk og fyrirtæki þurfa að laga sig að aðstæðunum. Sjónvarpsmaðurinn fyrrverandi og núverandi veitingamaðurinn Jóhannes Ásbjörnsson rekur nokkra veitingastaði undir merkjunum Gleðipinnar. Hann segist hafa áttað sig á að mikilvægt væri að láta reyna á öðruvísi aðferðir í markaðsmálum á tímum sem þessum. Hann tók því af skarið og ákvað að bjóða viðskiptavinum Aktu Taktu upp á klósettrúllu með hverri pöntun í dag, beint úr lúgunni.
Kemur út á endanum
„Maður finnur það í þjóðfélaginu að það er mikil hræðsla við mannmarga staði. Bara það að skjótast út í búð eftir klósettpappír getur vakið ótta hjá fólki. Við ætlum að mæta þeim ótta með þessum hætti og bjóða viðskiptavinum okkar sem koma í Aktu Taktu ókeypis klósettrúllu með hverri afgreiðslu. Það má eiginlega segja að við séum að þjónusta okkar viðskiptavini alla leið með þessum hætti því að allt sem fer inn, þarf jú vissulega að koma aftur út á endanum,“ segir Jóhannes.
Hann segir að ekkert verði til sparað þegar kemur að vali á klósettpappírnum.
„Ég vil taka fram að þetta eru hágæðarúllur, þriggja laga, frá þekktum og traustum framleiðanda. En til að koma í veg fyrir hamstur þá er mikilvægt að hafa í huga að það fylgir aðeins ein rúlla með hverri afgreiðslu,“ segir hann.
Neyðin kennir
Hann segir eðlilega flókið hvernig best sé að tækla markaðinn á tímum sem þessum en það sé um að gera að prófa nýstárlegar og öðruvísi aðferðir.
„Ég gæti alveg séð það fyrir mér að þetta henti mörgum. Það kemur manni ekkert á óvart lengur og ókeypis klósettrúlla er eitthvað sem ég gæti trúað að fólk tengdi sterkt við þessa dagana. Enda höfum við lært undanfarnar vikur að það eru litlu hlutirnir sem skipta máli. Þessar litlu og skemmtilegu gleðistundir í lífinu.“
Hann segist því hafa reynt eftir fremsta megni að hugsa í skapandi lausnum.
„Þetta eru auðvitað stórfurðulegar aðstæður og við viljum reyna að vera til staðar fyrir okkar viðskiptavini. Við tókum til dæmis upp samstarf við Hreyfil um heimsendingar sem hefur mælst mjög vel fyrir enda eru leigubílstjórar líkt og aðrir að upplifa algjört stopp í eftirspurn. Eins og málshátturinn segir: Neyðin kenni nöktum hamborgarasölum að hugsa út fyrir boxið,“ segir hann og hlær.
Jákvæð innspýting
Jóhannes segir að efst á baugi hjá honum þessa dagana sé að hugsa vel um sína nánustu og að hlýða Víði.
„Ég kvarta ekki. Segi bara eins og tengdafaðir minn segir alltaf: „Við verðum að vera harðir.“ En ég hlakka mikið til að fá vorið og laufin á trén og grænt í túnin. Þegar þetta ástand mun loksins kveðja okkur þá vona ég að við höfum lært eitthvað sem samfélag og verðum betri við hvort annað. Ég vona að gildismatið okkar hafi fengið jákvæða innspýtingu,“ segir hann.
Hann segir þó nóg á döfinni hjá sér á næstunni, þrátt fyrir allt.
„Við skulum orða það þannig að það hefur meira verið á döfinni í áhugaverðu deildinni en kannski beinlínis skemmtilegu deildinni. En lífið er samt alltaf skemmtilegt, bæði í meðvindi og mótvindi.“
Svarar ef hringir
Jóhannes segist þó bjartsýnn að eðlisfari.
„Óvissan er vissulega töluverð og hún er ekki hressandi ferðafélagi í fyrirtækjarekstri, en þetta er eins og þetta er,“ segir hann.
Jóhannes gerði garðinn frægan á sínum tíma í sjónvarpsþáttunum 70 mínútur. Það stendur þó ekki til í bili að snúa aftur á sjónvarpsskjáinn, en hann segist þó vera opinn fyrir því í framtíðinni.
„Ég hef alltaf verið opinn fyrir því enda bráðskemmtilegt hobbý. Ég er samt kominn í hóp þeirra sem voru einu sinni frægir og kann ágætlega við það. Við skulum orða það þannig að ég svara alveg ef síminn hringir,“ segir hann og brosir.