Platan Kom vinur eftir tónskáldið Maríu Huld Markan Sigfúsdóttur er komin út á vegum bandaríska útgáfufyrirtækisins Sono Luminus. Hún inniheldur tvö kórverk eftir Maríu við ljóðatexta Vilborgar Dagbjartsdóttur sem fagnaði níræðisafmæli sínu á síðasta ári. Upptakan fór fram í Hallgrímskirkju í september 2020, flutningur var í höndum Schola Cantorum undir stjórn Harðar Áskelssonar en upptökum stýrði Kjartan Sveinsson.

Arfleifð Vilborgar

„Árið 2017 var ég staðartónskáld í Skálholti og sökkti mér þá fyrst ofan í ljóðin hennar Vilborgar. Þá samdi ég annað þessara verka, Kom vinur. Upp frá því heillaðist ég svo mikið af ljóðum Vilborgar að ári seinna ákvað ég að semja tónlist við Maríuljóð,“ segir María Huld. „Þar sem ég varð fyrir miklum innblæstri við lestur ljóðanna fór ég að velta fyrir mér arfleifð Vilborgar og komst að því að gríðarlega mörg tónskáld hafa samið tónlist við ljóð hennar. Þessi tvö verk mín eru ákveðinn þakklætisvottur fyrir höfundarverk hennar og á minn hátt er ég að beina athygli að ljóðum hennar.“

Mörg fyrri verka Maríu Huldar hafa áður verið gefin út í útgáfum á vegum Sono Luminus sem gefur nýju plötuna út. Þar má nefna Oceans sem samið var fyrir og tekið upp af Sinfóníuhljómsveit Íslands undir stjórn Daníels Bjarnasonar og kom út á plötunni Concurrence sem á dögunum hlaut tilnefningu til Grammy-verðlauna fyrir árið 2020. „Ég hafði samband við Sono Luminus og spurði hvort ekki væri upplagt í COVID að fá tvö lítil kórljós til útgáfu,“ segir hún.

Vilborg Dagbjartsdóttir. Ég vona innilega að hún verði ánægð með útgáfuna, segir María Huld.Fréttablaðið/GVA

Ljóðin kjarni tónverkanna

Um tónlist sína við Maríuljóð og Kom vinur segir María Huld: „Ég myndi segja að þessi tónlist væri mjög aðgengileg. Þótt þetta séu tónverk eftir mig þá leið mér eins og ég væri að lokka tónana út úr textunum. Það er svo mikil tónlist í ljóðum Vilborgar. Þannig má segja að ljóðin séu kjarni tónverkanna.“

Maríuljóð er ort út frá sjónarhorni forvitins barns og það er mun bjartara yfir því en Kom vinur. Kom vinur er ljóð sem höfðar beint til COVID-umhverfisins. Þar er fjallað um einmanaleika, vetrarkvöld og þrá um að hitta vin og þar eru spurningar um lífið og tilvistina. Það er meira drama í þeirri tónlist og verkið er öðruvísi í forminu. Í ljóðinu sjálfu eru óreglulegar ljóðlínur og tvítekningar sem birtast líka í tónlistinni meðan Maríuljóðið er hefðbundnara og það endurspeglast einnig í tónlistinni.“

María Huld segir að Vilborg sé afskaplega ánægð með að ljóð hennar hafi ratað í kórverk. „Hún kom á tónleika þegar Maríuljóð var flutt af kór sem ég er meðlimur í og var mjög hrifin. Ég vona innilega að hún verði ánægð með útgáfuna.“