Var ég alltaf í stuði til að baka vöfflur? Svarið er nei, ef ég á að vera alveg heiðarleg. Vöfflubakstur um miðjar nætur eða eldsnemma morguns eftir langar vökur og strangar samningaviðræður var ekki alltaf það sem mann langaði mest að gera, en þakklætið og ánægjan eftir á var hverrar vöfflu virði,“ segir Elísabet Sigurveig Ólafsdóttir, skrifstofustjóri og aðstoðarsáttasemjari hjá Ríkissáttasemjara.

Þar stóð Elísabet, ásamt öðru starfsfólki, vaktina yfir vöfflujárninu í rúmlega tvo áratugi og segist ekki hafa órað fyrir því að vöffluboð Ríkissáttasemjara yrði að svo langri og sterkri hefð.

„Við bökuðum fyrstu vöfflurnar eftir langa og stranga samningalotu til að reyna að létta andrúmsloftið og gleðja svanga samningamenn. Vöfflurnar fengu þá svo góðar viðtökur að næsti hópur sem lauk samningum vildi ólmur fá vöfflur líka og þar með vorum við föst í netinu,“ segir Elísabet og hlær að uppátækinu sem reyndist svo kærkomið en það var í fyrra sem freistandi ilmur af nýbökuðum vöfflum barst í síðasta sinn um húsakynni Ríkissáttasemjara.

„Okkur fannst þetta orðið ágætt, allavega að sinni,“ segir Elísabet. „Ég skil vel eftirsjá samningamanna eftir vöfflunum. Oft sitja deiluaðilar saman á mörgum, löngum fundum áður en samningar takast og ekki óalgengt að lokatörnin taki jafnvel sólarhring. Því er skiljanlegt að samningafólkinu þætti gott að gleðjast yfir vel unnu verki og borða saman vöfflur.“

Uppskriftin er leyndarmál

Eftir ríflega tveggja áratuga vöfflubakstur hjá Ríkissáttasemjara man Elísabet aðeins eftir einu skipti þar sem einn samningamaður gekk á dyr eftir undirskrift kjarasamnings, án þess að taka þátt í vöfflugleðinni.

„Því má kannski segja að vöfflurnar hafi sameinað deiluaðila eftir að hafa tekist á, en ég held reyndar að hvað annað bakkelsi sem boðið hefði verið upp á í þessum aðstæðum hefði haft sömu áhrif,“ segir Elísabet sem frá fyrstu tíð hefur lagt áherslu á að hafa umhverfi Ríkissáttasemjara heimilislegt og að gestum embættisins, samningafólkinu, líði eins vel og hægt er.

„Verkefnin eru oft krefjandi og reyna á og þó svo að við höfum hætt vöfflubakstrinum reynum við að bæta það upp með öðrum hætti. Það eru sirka 300 til 400 manns sem taka þátt í hverri samningalotu fyrir sig og ef við reiknum með því að samningalotur séu að meðaltali á tveggja ára fresti, og við bökuðum í rúmlega tuttugu ár, gætu vöfflugestirnir hafa verið hátt í fjögur þúsund allt í allt,“ segir Elísabet og hlær að öllu saman.

Hún hefur oft þurft að svara því hversu mikið magn þurfti af deigi, rjóma og sultu til að seðja svanga munna samningamanna.

„Svarið er mikið. Það var ekki óalgengt að bakað væri fyrir nokkra tugi samningamanna í einu og af því að sáttavöfflurnar voru og eru alveg sérstaklega góðar var oft borðað vel. Uppskriftin er auðvitað leyndarmál, eins og allar góðar uppskriftir, en við notuðum klassískan grunn og bættum svo aðeins við og gerðum hann að hinum einu sönnu sáttavöfflum,“ segir Elísabet sem á í fórum sínum vöffluuppskriftabók sem hún fékk að gjöf frá norskri vinkonu sem vinnur hjá ríkissáttasemjaraembættinu í Ósló.

„Ég hef prófað nokkrar vöffluuppskriftir úr þeirri góðu bók, en okkar uppskrift er einfaldlega best.“

Elísabet segist lánsöm að hafa fengið tækifæri til að vinna við það sem henni þykir skemmtilegt. Hún vinnur nú heima í samkomubanninu og segir þá líka tilvalið að baka vöfflur. FRÉTTABLAÐIÐ/ANTON

Þótti stórskrýtið að baka vöfflur

Elísabet segist lánsöm að hafa fengið tækifæri til að vinna við það sem henni þykir skemmtilegt. Hún vann hjá Kjararannsóknarnefnd árið 1983 þegar henni bauðst óvænt starf skrifstofustjóra hjá Ríkissáttasemjara.

„Ég hafði þá engan hug á að breyta til og líkaði mjög vel að vinna hjá Kjararannsóknarnefnd en þegar Guðlaugur Þorvaldsson, þáverandi ríkissáttasemjari, bauð mér starfið sagði ég já, eftir smá umhugsun. Bæði þekkti ég Guðlaug og starfsemi sáttasemjara þar sem við hjá Kjaró vorum í sama húsi og unnum náið með embættinu í kjarasamningalotum,“ upplýsir Elísabet sem ætlaði sér upphaflega að vinna hjá Ríkissáttasemjara í fáein ár en nú eru árin orðin 37.

„Lífið hjá sáttasemjara hefur verið meira en bara vöfflubakstur. Ég vissi að þetta væri líflegt og skemmtilegt starf og að Guðlaugur væri einstakur maður sem mig langaði að vinna með. Mér hefur aldrei leiðst og alltaf haft ánægju af starfinu. Ég er félagslynd og líður vel í samskiptum og samstarfi við fólk, og það sem mestu máli skiptir er að samstarfsfólk mitt í gegnum öll þessi ár hefur verið frábært. Ég hef einnig kynnst fjölmörgum sem hafa sett svip sinn á þjóðfélagið í gegnum tíðina og það er óneitanlega áhugavert að fá að fylgjast með,“ segir Elísabet, sem í gegnum tíðina hefur fengið tækifæri til að styrkja sig í starfi með námi og starfi í öðrum löndum.

„Um tíma vann ég hjá danska ríkissáttasemjaraembættinu og kynnti mér starfsemina þar. Vinum mínum þar þótti stórskrýtið að við bökuðum vöfflur þegar kjarasamningar næðust. Þeir fóru bara á næstu krá og fengu sér öl og snaps,“ segir Elísabet, uppfull af lífsgleði.

Langvarandi vöffluskortur á heimilinu

Elísabet er fædd og uppalin á Vopnafirði.

„Ég ólst upp við að vöfflur væru bakaðar þegar gesti bar að, sem var algengt í sveitinni. Mér hefur alltaf þótt vöfflur góðar og þykir enn. Uppáhaldið er vaffla með rjóma, bláberjasultu og ís, en svo eru þær líka góðar kaldar með smjöri, osti og smávegis af sultu,“ segir Elísabet sem kann svo sannarlega á því tökin að baka góðar vöfflur.

„Fjölskyldan hefur reyndar kvartað yfir því að hafa ekki fengið vöfflur hér heima í mörg ár og það er alveg rétt, en mér finnst mjög gaman að baka og þegar ég er í stuði baka ég pönnukökur á þremur pönnum í einu, sem bætir upp vöffluskortinn á heimilinu,“ segir hún kát.

„Ég á enn vöfflujárn sem ég þarf kannski að fara að dusta rykið af, ekki síst nú á dögum heimavinnu og samkomubanns,“ segir Elísabet sem í samkomubanninu vinnur heima og hafði ekki hugmynd um að til væri alþjóðlegur vöffludagur.

„En hver veit nema ég haldi upp á hann héðan í frá? Maður á að nota hvert tækifæri til að gleðjast og gera sér dagamun, og nú get ég bætt 25. mars við þá daga!“

Í dag er alþjóðlegi vöffludagurinn og sannarlega tilefni til að baka ljúffengar vöfflur til að lífga upp á tilveruna.

Vöfflur (þó ekki leyniuppskrift Elísabetar að sáttavöfflunum)

  • 250 g hveiti
  • 1 tsk lyftiduft
  • 1 msk strásykur
  • 1/2 tsk salt
  • 1 tsk vanillusykur
  • 1 dl nýmjólk (eða pilsner)
  • 2 dl súrmjólk eða rjómi (eða til helminga)
  • 1 dl kalt vatn
  • 80 g brætt smjör eða 0,7 dl matarolía
  • 3-4 egg eftir stærð

Aðskiljið eggin. Þeytið eggjarauður og sykur vel saman. Sáldrið þurrefnum saman við ásamt vökva og hrærið vel. Bætið feitinni út í og að síðustu stífþeyttum eggjahvítum. Bakið í vel heitu vöfflujárni og athugið að það fer eftir tegund járns hvort bera þurfi feiti í það. Berið fram með sultu og þeyttum rjóma eða smjöri og sírópi.

Heimild: Leiðbeiningastöð heimilanna, leidbeiningastod.is