Fuglabjargið er tónleikhús fyrir börn þar sem áhorfendur fá að upplifa fuglalífið í eyjunni Skrúði fyrir mynni Fáskrúðsfjarðar. Verkið er sýnt í Borgarleikhúsinu og er eftir Birni Jón Sigurðsson, sem hlaut Grímutilnefningu fyrir verkið Kartöflur sem leikrit ársins 2020. Tónlist verksins er í höndum Ingibjargar Ýrar Skarphéðinsdóttur og Ragnheiðar Erlu Björnsdóttur, og Hallveig Kristín Eiríksdóttir leikstýrir.

Hallveig er myndlistar- og sviðslistakona. Hún hefur meðal annars sett á svið gjörninga og leiksýningar, unnið sem sviðsmyndahönnuður og starfað með erlendum sviðslistahópum. „Þetta hefur verið mjög áhugavert ferli. Þetta er líka í fyrsta sinn sem ég leikstýri óperu. Sjálf er ég búin að læra gríðarlega margt í þessu vinnuferli,“ segir Hallveig.

Vinnur myndrænt

Spurð hverjar hafi verið áherslur hennar í leikstjórninni segir hún: „Mitt áhugasvið liggur í líkamlegri vinnu og við höfum unnið mikið með fuglahreyfingar. Við horfðum á náttúrulífsvídeó af þeim fuglum sem koma við sögu í verkinu, skoðuðum einkenni þeirra, hvernig þeir hreyfa hálsinn og blaka vængjunum og hvernig hljóð þeir gefa frá sér, en í sýningunni er mikið unnið með þessi hljóð. Flytjendurnir eru þaulmenntaðir söngvarar og tónlistarflytjendur og bera ábyrgð á söngnum. Leikstjórnin fólst í því að finna og fanga eðli og sérkenni fuglanna og sjá til þess að það skilaði sér upp á svið.“

Hallveig er spurð hvort það að hún er myndlistarkona setji sitt mark á áherslur hennar í leikstjórn. „Já hiklaust, ég vinn mjög myndrænt. Notkun á efni á sviðinu er mér mjög hugleikin. Leikmyndin er hluti af sköpunarferlinu og mestöll unnin úr endurvinnanlegum efnum og er gerð þannig að auðvelt sé að pakka henni saman. Þannig er til dæmis auðvelt að fara með sýninguna út á land, sem ég vona að við getum gert seinna.“

Ólýsanlegur léttir

Söngur og tónlist ríkja í verkinu. „Eitt af markmiðunum hjá tónskáldinu, Ingibjörgu Ýri, var að búa til íslenskt verk sem tæki mið af hinum klassíska tónlistarheimi. Þar horfðum við nokkuð til Péturs og úlfsins sem innblásturs. Við vildum hafa nýja tónlist þar sem leikið væri á klassísk hljóðfæri. Tónlistin er íburðarmikil, umlykur allt og fyllir upp í rýmið. Ég held að flestir hrífist með.“

Hallveig segir að það sé ólýsanlegur léttir að leikhúsið sé nú opið á ný. „Með hverri sýningu er eins og heimurinn sé að verða aðeins meira venjulegur. Áhorfendur fá að koma í leikhúsið og þótt allir séu með grímu og langt bil sé á milli fólks og miklu færri áhorfendur en væru venjulega, þá getur maður ekki verið annað en gríðarlega þakklátur að fá að sýna, leika og skapa. Við sem komum að þessari sýningu erum bjartsýn af því við höfum fengið að sýna og finnum góða orku frá áhorfendum. Þá líður okkur eins og allt verði í lagi.“

Í tengslum við sýninguna kemur út barnabók með texta verksins og myndum sem Hallveig teiknar. Kóði er prentaður í bókinni og með honum má nálgast tónlistina í verkinu á netinu.