Leo Newhouse, ráðgjafi sem starfar með sjúklingum sem glíma við langvinn veikindi, skrifaði í vikunni grein á vef Harvard-háskóla þar sem hann lýsir upplifun sinni af því að missa bragð- og lyktarskyn og veltir fyrir sér hvað hægt sé að gera til að takast á við það.

Morgunn einn í mars þegar hann var að skera sítrónusneið út í teið sitt, fann hann enga lykt af sítrónunni. Að sama skapa fann hann ekkert bragð af ferskjusultunni á ristaða brauðinu sínu. Hann hafði verið örlítið slappur dagana á undan og áttaði sig á því að líklega væri hann kominn með vírusinn alræmda. Hann var heppinn að verða ekki alvarlega veikur, en er enn þá rúmu hálfu ári síðar að fást við skert bragð- og lyktarskyn.

Gríðarlegur fjöldi fyrrverandi COVID-19 sjúklinga glímir við skert bragð- og lyktarskyn. Newhouse vitnar í bandaríska tölfræði þar sem kemur fram að tæplega 90% þeirra sjúklinga sem fengu væg til miðlungs einkenni sjúkdómsins hafi kvartað yfir skertu bragð- og lyktarskyni.

Newhouse bendir á að missir bragð- og lyktarskyns geti haft neikvæð áhrif á heilsuna. Missirinn getur valdið minnkaðri matarlyst og óæskilegu þyngdartapi. Þegar fólk getur ekki lengur notið matarins, borðar það oft of lítið eða sleppir máltíðum. Skortur á þessu skyni getur líka valdið hættu, þar sem fólk finnur ekki lykt eða bragð af ónýtum mat og finnur ekki lykt af til dæmis gasleka eða bruna.

Newhouse segir að nýlegar rannsóknir sýni tengsl á milli skorts á lyktarskyni eftir COVID -19 og þunglyndi og kvíða. Hann tekur þó fram að enn eigi eftir að rannsaka betur hvort það tengist beint bragð- og lyktarskyninu, eða hvort tengingin sé vegna áhrifa vírussins á miðtaugakerfið. Hann segir þó vitað með vissu að skapgerð og lyktarskyn tengjast að einhverju leyti.

Lyktartaugar geta endurnýjað sig, en þó að lyktarskynið geti komið til baka er ekki víst að allir sem missa lyktarskynið fái það til baka að fullu, að sögn Newhouse. Þar sem lyktarskynið minnkar yfirleitt vegna aldurs, gæti það einnig tekið lengri tíma fyrir eldra fólk að fá lyktarskynið aftur.

Newhouse segir að til að vekja aftur taugaendana í nefinu sem nema lykt, mæli sérfræðingar með lyktarþjálfun. Það er hægt að þjálfa lyktarskynið með því að þefa af ilmkjarnaolíum eins og sítrónu- eða rósaolíu. Newhouse segir að núvitund skipti mestu máli og að ef fólk finni ekki lyktina af olíunni þá sé gott að reyna að muna lyktina og virkja þannig hugann í að vekja tilfinninguna.

Hann segir einnig að ef fólk finnur ekki allt bragðið af matnum sem það borðar sé gott að einbeita sér að grunnbragðinu, sætu, beisku, súru eða söltu. Einnig er gott að einbeita sér að áferð matarins og njóta þess bragðs og áferðar sem hægt er að skynja.

Newhouse tekur sem dæmi að þegar hann borðar dökkt súkkulaði finni hann bara beiskt og sætt bragð, hann þarf að treysta á minnið til að finna bragðið af kakóbauninni. Hann segir að missirinn hafi kennt honum að vera þolinmóður og þakklátur fyrir hverja litla framför. Um daginn fann hann til dæmis í fyrsta sinn í nokkra mánuði örlitla sítruslykt af teinu sínu, hann segir að sítróna hafi aldrei áður ilmað eins vel.