Það eru sannarlega spennandi tímar fram undan hjá Sigmundi Páli Freysteinssyni fatahönnuði en hann flutti nýlega til borgarinnar Kyoto í Japan þar sem hann mun stunda mastersnám í fatahönnun með áherslu á textíl og sjálfbærni.

„Ég fékk námsstyrk frá japanska ríkinu til að stunda rannsóknarmiðað framhaldsnám í fatahönnun með áherslu á umhverfisvænar textílaðferðir og handverk. Það er mikið af þekkingu á þessu sviði í japanskri menningu sem hefur verið varðveitt í gegnum margar kynslóðir og ættliði. Ég hef lengi haft áhuga á japanskri fagurfræði, handverki og tækni en það er margt hægt að læra af aðferðum sem Japanir hafa tileinkað sér. Mig langar að snúa aftur til Íslands eftir námið með nýja þekkingu til að rækta íslenskt handverk og hönnun. Markmiðið í framtíðinni verður að halda áfram að þróa vistvænar aðferðir við framleiðslu og hönnun á fatnaði á Íslandi með því að nýta íslenskt handverk og menningararf. Fyrsta önnin í skólanum fer í nám í japönsku en hönnunarnámið byrjar á næstu önn.“

Hann mun dvelja einn í Japan fyrst um sinn en þegar japönsk stjórnvöld létta á sóttvarnaaðgerðum vegna Covid-faraldursins mun fjölskyldan sameinast þegar eiginkona hans Ída Pálsdóttir og tæplega tveggja ára dóttir þeirra flytja til hans, vonandi í janúar eða febrúar á næsta ári.

Frá sýningunni Náttúrulitun í nútímasamhengi í Hönnunarsafninu. MYND/VIGFÚS BIRGISSON

Spenntur fyrir námi erlendis

Sigmundur útskrifaðist úr fatahönnun frá Listaháskóla Íslands árið 2019 en hann segist snemma hafa fengið áhuga á fatahönnun, menningu og handverki. „Eftir útskrift úr menntaskóla byrjaði ég beint í BA-námi í fatahönnun við Listaháskóla Íslands og útskrifaðist þremur árum seinna. Meðan ég var í náminu var markmiðið að halda áfram að öðlast meiri reynslu og þekkingu á faginu eftir útskrift. Frá því að ég byrjaði að læra fatahönnun hef ég verið spenntur fyrir að fara í framhaldsnám erlendis. Fyrir mér er mikilvægt að fá inn nýja þekkingu erlendis og koma með þekkinguna heim og halda áfram að rækta iðnaðinn á Íslandi.“

Sigmundur Páll Freysteinsson ásamt eiginkonu sinni Ídu Pálsdóttur. MYND/SVANHILDUR GRÉTA KRISTJÁNSDÓTTIR

Umhverfisvænar aðferðir

Undanfarin tvö ár hefur Sigmundur unnið sjálfstætt í rannsóknum á náttúrulegri textíllitun á Íslandi með styrk frá Hönnunarsjóði. „Markmiðið var að þróa umhverfisvænar aðferðir til að framleiða náttúrulega textílliti á stærri skala fyrir framleiðslu á fatnaði. Ég vann náið með fatamerkinu Arnar Már Jónsson við að framleiða textíl sem var litaður með íslenskum plöntum fyrir hönnun þeirra og myndheim. Í ferlinu varð til bókverk sem inniheldur 504 náttúrulega liti úr íslensku umhverfi ásamt sýningunni Náttúrulitun í nútímasamhengi og opinni vinnustofu á Hönnunarsafninu sem var opnuð á HönnunarMars og stóð yfir síðasta sumar.“

Haustlitirnir í Kyoto eru fallegir.

Kyoto er frábær borg

Borgin Kyoto liggur á miðri Honshu-eyju sem er stærsta og fjölmennast eyja Japans en þar búa um 1,5 milljónir. „Upplifun mín af Kyoto hefur verið frábær hingað til, frábært fólk, menning og matargerð. Það er margt sem heillar við japanskt samfélag og ég upplifi mikinn innblástur á hverjum degi. Ég er mjög spenntur fyrir tímanum fram undan og að búa hér með fjölskyldunni. Ég er þakklátur fyrir að fá að upplifa þetta ævintýri.“

Hann segir stjórnvöld í Japan hafa sett á strangar aðgerðir á landamærunum vegna Covid og því hafi það verið langt og erfitt ferli að flytja þangað. „Það er alltaf eitthvað nýtt sem kemur upp á og kemur á óvart. En að öðru leyti hefur gengið mjög vel að komast inn í samfélagið.“

„Ég fékk námsstyrk frá japanska ríkinu til að stunda rannsóknarmiðað framhaldsnám í fatahönnun með áherslu á umhverfisvænar textílaðferðir og handverk,“ segir Sigmundur Páll. FRÉTTABLAÐIÐ/­ANTON BRINK

Spenntur fyrir framtíðinni

Hann er nokkuð spenntur fyrir framtíðinni og tækifærum fyrir íslenska fatahönnuði. „Ég lít björtum augum á framtíðina fyrir íslenska fatahönnuði. Ég sé mikil tækifæri í að þróa ný kerfi í sjálfbærri hönnun og umhverfisvænni framleiðslu, sem nýtir auðlindir Íslands og skapar sérstöðu á alþjóðlegum markaði. Fataiðnaðurinn er einn mest mengandi iðnaður í heiminum og er það brýn nauðsyn að finna nýjar aðferðir sem leysa af hólmi hefðbundnar framleiðsluaðferðir sem eru óumhverfisvænar og mjög mengandi. Það er mikil sérstaða og tækifæri sem felast í því að vera á Íslandi en iðnaðurinn er lítill hér á landi og hefur mikil tækifæri til að vaxa í framtíðinni.“

Hluti náttúrulegra lita frá sýningu Sigmundar. MYND/VIGFÚS BIRGISSON