Sóley Stefánsdóttir, söngkona og tónskáld, og Benedikt Kristjánsson tenórsöngvari, hlutu árleg verðlaun úr Minningarsjóði Kristjáns Eldjárns gítarleikara. Athöfnin fór fram í Listasafni Sigurjóns Ólafssonar. Hlaut hvort þeirra eina milljón króna úr sjóðnum.

Sóley hefur gefið út plötur og unnið að tónlist fyrir leikhús, kvikmyndir, dansverk og stuttmyndir. Hún hefur flutt tónlist sína víða um heim og á dyggan aðdáendahóp. Benedikt hefur komið fram í tónleikahúsum og óperuhúsum víðs vegar um heim og unnið með virtum stjórnendum.

Vinnur að nýrri plötu

„Ég er óskaplega þakklát og það er mikill heiður að vera valin,“ segir Sóley. „Þessi viðurkenning kemur sér gríðarlega vel. Mín helsta innkoma er af tónleikaferðum en þeim hefur nánast alfarið verið aflýst út árið.“

Þessa dagana er hún að leggja lokahönd á fjórðu breiðskífu sína. „Tónlistin á plötunni er elegía til móður okkar allra, jarðarinnar, og fjallar um það hvernig við erum hægt og bítandi að eyðileggja hana. Þetta gæti til að mynda verið tónlist sem maður setur á fóninn síðasta daginn fyrir endalokin,“ segir Sóley.

Hún segist þegar vera farin að leggja drög að næstu plötu. „Ég ætla að nýta þennan styrk til að hefjast strax handa við næstu plötu, en hún er hugmyndalega séð beint framhald af þessari sem ég er að ljúka við núna.“ Hún segir að á þeirri plötu verði eingöngu leikin tónlist, þar séu engir textar. „Kannski fjallar sú plata um daginn eftir að allt er búið. Ætli ég leiki mér ekki þar að hugmyndinni um tímann og blandi hljóðheimi jarðarinnar við hljóðheiminn minn.“

Fastur í Berlín

Benedikt Kristjánsson er fastur i Berlín vegna COVID-19 og faðir hans Kristján Valur Ingólfsson tók við verðlaununum fyrir hönd sonar síns. Blaðamaður sló á þráðinn til Berlínar og ræddi við þakklátan verðlaunahafa.

„Þetta gríðarlega mikill heiður því þetta er ekki styrkur sem maður sækir um heldur er maður valinn,“ segir Benedikt og bætir við: „Þetta kemur á einstaklega góðum tímapunkti þar sem ég er, eins og aðrir tónlistarmenn, búinn að vera atvinnulaus í þrjá mánuði.“

„Þetta er gríðarlega mikill heiður,“ segir Benedikt. Fréttablaðið/Stefán

Spurður hvort ástandið sé ekki verulega slæmt fyrir söngvara um þessar mundir segir hann: „Þetta er skelfingarástand fyrir söngvara og fullt af sjálfstætt starfandi tónlistarmönnum sem sjá jafnvel ekki fram á að geta haldið þessu starfi áfram.“

Hann segir að fyrst núna séu einhver hjól byrjuð að snúast varðandi hann sjálfan. „Ég átti að syngja Jóhannesarpassíu Bachs í Köthen en ekki verður af því, í staðinn verður verkið tekið upp í kirkju og sett á vídeó. Í byrjun ágúst syng ég í óperunni Cosi fan tutte eftir Mozart sem sett verður upp í COVID-19 fjarlægð í stórum sal í Berlín. Þar verður strengjasveit og söngvararnir verða eins og brúður sem hreyfa sig ekki.“