Berglind Hreiðarsdóttir, matarbloggari með meiru sem heldur úti síðunni Gotterí og gersemar, er ein af þeim sem hafa búið í Bandaríkjunum og heldur daginn hátíðlegan með fjölskyldunni en hann snýst fyrst og fremst um að borða saman hátíðarmat, kalkún og meðlæti. Kalkúnninn er aðalrétturinn á þessum degi vestanhafs og mikið tilstand er kringum matargerðina.

„Í mínum huga er þakkargjörðarhátíðin dagur sem á að snúast um góðar stundir með þeim sem manni þykir vænt um. Þetta er tilvalinn tími til að staldra aðeins við og hugsa um fyrir hvað við erum þakklát í okkar lífi. Það er alltof sjaldan sem við stöldrum við og veltum þessum hlutum fyrir okkur og við tökum mörgu sem sjálfsögðum hlut, þar til eitthvað kemur upp á. Góðar veitingar og heimboð sameina að mínu mati alltaf vini og fjölskyldu og skapa góðar minningar,“ segir Berglind og bætir því við að hún hafi ákveðið að halda í þessa hefð eftir að fjölskyldan flutti aftur til Íslands.

Kalkúnabringurnar eru dýrindis sælkeramáltíð og hér eru þær bornar fram með ofnbökuðu grænmeti og sveppasósu sem bráðnar í munni.

Kalkúnaveisla sem allir ráða við

„Þegar ég var beðin um uppskriftir tengda þakkargjörðinni langaði mig til þess að prófa eitthvað nýtt þar sem kalkúnaveisluna okkar klassísku er að finna á heimasíðunni minni. Það eru alls ekki allir sem leggja í að útbúa allt meðlæti og þær veitingar sem þessu fylgja svo í ár langaði mig að útbúa dýrindis máltíð sem allir, og þá meina ég allir, ættu að ráða við. Súkkulaðimúsin er mjög einföld og hana má útbúa kvöldinu áður og síðan bara sprauta rjómanum yfir rétt áður en notið er. Kalkúnabringan er forelduð og ég trúði því eiginlega ekki hvað hún var góð og hversu einfalt var að hita og steikja hana. Ég var líklega í um klukkustund að undirbúa og elda allt sem henni tengdist. Þessi útkoma var hreint út sagt frábær og sannar að það þarf alls ekki að vera flókinn matur til að vera góður,“ segir Berglind.

Þakkargjörðarmáltíð að hætti Berglindar Hreiðars

fyrir 4-5 manns

Ofnbakað grænmeti

Um 800 g sætar kartöflur

Um 500 g rósakál

Um 80 g pekanhnetur

Um 40 g þurrkuð trönuber

Salt, pipar, hvítlauksduft

Ólífuolía

Hlynsýróp

Byrjið á því að hita ofninn í 190°C. Flysjið og skerið sætu kartöflurnar í teninga. Snyrtið rósakálið og skerið til helminga. Veltið upp úr ólífuolíu og kryddið eftir smekk. Bakið í um 30 mínútur og veltið 1-2 á meðan. Takið út, bætið pekanhnetum og trönuberjum saman við og bakið áfram í um 5 mínútur. Setjið á fat og setjið smá hlynsýróp yfir allt saman. Á meðan grænmetið er í ofninum má útbúa sósuna og undirbúa kalkúnabringuna.

Sous vide kalkúnabringa

1 stk. sous vide kalkúnabringa

Smjör til steikingar

Byrjið á því að láta sjóðandi heitt vatn renna í vaskinn og komið pokanum með kalkúnabringunni þar fyrir og leyfið að liggja í um 15 mínútur (til að hita hana aðeins). Takið bringuna því næst úr plastinu og bræðið væna klípu af smjöri á pönnu, steikið hana skamma stund á öllum hliðum. Skerið í þunnar sneiðar um leið og hún er borin á borð.

Sveppasósa

250 g sveppir

70 g smjör

500 ml rjómi

150 g rjómaostur með pipar

1-2 tsk. Dijon-sinnep (eftir smekk)

1 msk. sveppakraftur (fljótandi)

1 msk. nauta- eða kalkúnakraftur (fljótandi)

1 tsk. rifsberjahlaup

Salt, pipar, hvítlauksduft

Sósulitur (ef vill)

Byrjið á því að skera sveppina í sneiðar og steikið upp úr smjöri, kryddið eftir smekk. Bætið rjóma og rjómaosti í pottinn og pískið saman þar til kekkjalaust. Leyfið sósunni að malla á meðan grænmetið bakast og bætið krafti, sinnepi, rifsberjahlaupi og sósulit saman við. Kryddið eftir smekk.

Þessi dýrðlega konfektmús töfrar bæði augu og munn og hægt er að skreyta hana fallega með ferskum blómum.

Konfektmús fyrir 8 glös/skálar

200 g Cote D’or Bouchée súkkulaði (1 pakki)

200 g dökkt súkkulaði

100 g smjör

4 egg

1 l þeyttur rjómi (skipt í 500 og 500 ml)

Bökunarkakó til skrauts + blóm

Byrjið á því að brytja Cote D’or og dökkt súkkulaði niður í grófa bita. Bræðið ásamt smjörinu yfir vatnsbaði, hrærið vel á milli og takið af hitanum þegar bráðið og leyfið að standa á meðan annað er undirbúið. Þeytið 500 ml af rjómanum og geymið til hliðar á meðan þið pískið eggin saman í annarri skál. Bætið eggjunum saman við súkkulaðiblönduna í nokkrum skömmtum og pískið vel saman á milli. Setjið um 1/3 af þeytta rjómanum saman við súkkulaðiblönduna og vefjið saman við með sleikju. Bætið síðan aftur 1/3 og blandið og að lokum restinni og blandið vel þar til ljósbrún og silkimjúk áferð hefur myndast. Skiptið niður í glös/skálar og kælið í að minnsta kosti 3 klukkustundir (eða yfir nótt). Þeytið hina 500 ml af rjómanum og sprautið í hvert glas/skál, sigtið smá bökunarkakó yfir og skreytið með ferskum blómum.