Bandaríska kvikmyndaakademían mun biðja baráttukonuna Sacheen Littlefeather formlega afsökunar á þeirri meðferð sem hún hlaut við Óskarsverðlaunahátíðina fyrir tæplega hálfri öld síðan.

Á hátíðinni árið 1973 fór Littlefeather á svið í stað Marlon Brando og, að hans beiðni, afþakkaði verðlaun sem besti leikari í aðalhlutverki sem stóð til að hann fengi fyrir hlutverk sitt í The Godfather. Littlefeather, sem er af ættum innfæddra, nýtti tækifærið til að beina athyglinni að þeim skaðlegu staðalmyndum sem innfæddir þurftu að umbera á hvíta tjaldinu og í sjónvarpi.

Margir af áhorfendum tóku illa í ræðu Littlefeather og tóku upp á að púa á hana og hreyta til hennar ókvæðisorðum. Þar á meðal var leikarinn John Wayne, en halda þurfti aftur af Wayne svo hann kæmist ekki inn á sviðið til að ráðast á Littlefeather. Þó voru aðrir sem klöppuðu til stuðningi við ræðu hennar.

Nú, næstum hálfri öld síðar, hefur Littlefeather verið boðið að snúa aftur til Akademíunnar sem heiðursgestur þar sem hún verður formlega beðin afsökunar á atburðum kvöldsins.

„Ég hélt aldrei að ég myndi lifa til að sjá daginn sem ég myndi heyra þetta, upplifa þetta,“ sagði Littlefeather í viðtali við Hollywood Reporter um boðið frá Akademíunni sem barst henni í júní síðastliðnum. „Þetta er draumur að rætast. Það er mjög hughreystandi að sjá hversu mikið hefur breyst síðan ég tók ekki við Óskarsverðlaununum fyrir 50 árum.“

Littlefeather bjóst aldrei við að fá afsökunarbeiðni.
Fréttablaðið/Getty