Eins og flestir, ef ekki allir, íslenskir tónlistarmenn hlakkar Ólafur Arnalds mjög til að koma fram á Iceland Airwaves í næstu viku enda þá orðin þrjú ár síðan hann spilaði síðast undir eigin nafni hér á landi. „Ég held að ég geti nokkurn veginn fullyrt að Iceland Airwaves eigi sérstakan stað í hjarta allra íslenskra tónlistarmanna. Tíminn til undirbúnings er hins vegar knappari en á öðrum tónleikum, svo það þarf að passa sig að reyna ekki að gera of mikið. Það er orðið ansi langt síðan ég hef sjálfur haldið tónleika hér á landi en það var einmitt á Iceland Airwaves árið 2015. Reyndar spilaði ég með techno-bandinu mínu Kiasmos rétt eftir áramótin hér heima en óhætt er að segja að tónleikarnir í næstu viku verði öðruvísi.“

Tvennir tónleikar

Ólafur kemur fram á tvennum tónleikum á hátíðinni, í gær fimmtudag og aftur í dag föstudag, og eru þeir hvorir tveggja í Þjóðleikhúsinu og hefjast á miðnætti. „Meginuppistaðan í dagskránni verða lög af nýjustu plötu minni, re:member, sem kom út í lok sumars en ég mun líka flytja nokkur eldri lög í bland við þau nýju.“ Re:member hefur fengið mjög góðar viðtökur heima og erlendis, bæði hjá aðdáendum og gagnrýnendum.

Hlaðinn verkefnum

Ólafur hefur svo sannarlega ekki setið auðum höndum síðan 2015. Árið 2016 gaf hann út plötuna Island Songs en við gerð hennar ferðuðust hann og Baldvin Z leikstjóri til sjö mismunandi staða á Íslandi þar sem Ólafur vann með sjö ólíkum listamönnum og Baldvin tók upp myndbönd við lögin sjö. Einnig samdi hann tónlist við sjónvarpsþættina Broadchurch eins og frægt er orðið en fyrir hana hlaut hann hin virtu BAFTA-sjónvarpsverðlaun. Ólafur kom einnig að tónlistinni í þáttunum Electric Dreams sem byggðir eru á verkum rithöfundarins Philips K. Dick.

Langur túr fram undan

Fyrri hluti árs fór í gerð og upptöku re:member og segist Ólafur hafa eytt stærstum hluta þess tíma einn í stúdíóinu. „Núna er ég hins vegar að byrja tónleikaferðalag sem klárast einhvern tímann í lok næsta árs. Fyrsta hlutanum er að ljúka núna í þessum töluðu orðum og við komum beint á Airwaves. Eftir tónleikana í næstu viku förum við beint til Bandaríkjanna á stuttan túr og þaðan til Ástralíu. Svo endum við árið á að flytja stóru útgáfuna af „sjóvinu“ heim til Íslands og stillum upp fyrir tónleika í stóra salnum í Hörpu.“

Vegna mikilla anna undanfarið segist Ólafur ekki hafa gefið sér tíma til að kynna sér nægilega vel dagskrá hátíðarinnar. „Ef ég á að vera alveg hreinskilinn þá hef ég ekki náð að skoða dagskrána nógu vel enda er ég búinn að vera á tónleikaferðalagi síðan um miðjan september. En ég er þó mjög hrifinn af Aurora og Blood Orange svo ég nefni nokkra sem koma fram á Airwaves í ár.“