Símon segir að á Íslandi sem og annars staðar hafi verið gefinn út mýgrútur af draumaráðningabókum. Þegar hann var að skrifa sínar draumaráðningabækur sankaði hann að sér hinum ýmsu draumaráðningabókum, bæði gömlum og nýjum, frá ýmsum löndum.

„Ég lærði þjóðfræðina úti í Noregi og skoðaði til dæmis mikið af norsku efni. Það virðist vera eins með draumaráðningar hér og hjátrúna. Okkur dreymir meira fyrir veðurfari og ýmsu slíku, af því að við búum við svo óblíða náttúru og mikil óveður. Sjómenn dreymir líka oft fyrir fiskiríi, sjóróðrum eða einhverju slíku. Það er meira um þetta hér en virðist vera annars staðar,“ segir Símon.

„Við tölum meira um drauma en ýmsar aðrar þjóðir og erum gjarnari á að segja frá draumum okkar og spá í þá. Það er mín tilfinning. Ég held að þetta liggi svolítið í okkar þjóðarsál.“

Símon segir að fólk hafi mikla trú á draumum sínum og að það sé ríkt í Íslendingum að trúa því að draumar séu skilaboð að handan.

„Fólk dreymir látna ættingja sem eru að koma með skilaboð. Fólk tekur meira mark á slíkum draumum en algildum draumtáknum. Það er þessi trú að draumarnir séu einhvers konar tenging við handanheima eða hina látnu, eða jafnvel einhverjar verur sem vilja okkur vel.

Draumaráðningar eru ævagamlar

Símon segir að klassísk draumtákn séu ævagömul, en það eru til draumaráðningabækur frá því um 1.300 árum fyrir Krist. Til að mynda hafa fundist egypsk handrit þar sem öfugdreymi er mjög áberandi. Það er að segja að það að dreyma eitthvað slæmt sé fyrir góðu og öfugt.

„Þar á meðal er það að dreyma skít sé fyrir peningum og að dreyma dauða sé fyrir heilbrigði og góðu lífi og svo framvegis. Þetta er ákveðinn kjarni sem er búinn að vera í draumatúlkunum frá örófi alda. Þessar heimildir sýna það að við fórum mjög snemma að velta draumum fyrir okkur. Draumar koma til dæmis mikið fyrir í Biblíunni og hafa mikil áhrif þar eins og við þekkjum,“ segir hann.

Í mörgum draumaráðningabókum stendur að ekki sé nóg að lesa í einstök tákn, heldur þurfi alltaf að ráða í draumana út frá samhenginu, segir Símon.

„Það er talað um að það þurfi að spá í hvernig tilfinning er í draumnum, hvernig birtan er, umhverfið og svo framvegis. Alvöru draumspekingar spá meira í heildarmyndina. Margir trúa því að hún hafi meira að segja en einstök tákn.“

Símon nefnir einnig að það sé gömul trú að dreyma fyrir atburðum sem gerast svo kannski daginn eftir. Eins og að dreyma manneskju sem viðkomandi hefur ekki hitt lengi, en rekst svo á hana úti á götu daginn eftir. Símon segist finna sterkt fyrir því að draumatrú sé algeng hér á landi þó hann hafi ekki gert neina formlega rannsókn á því.

Ókunnugt fólk hringir og segir frá draumum sínum

„Bæði fyrir og eftir þessar bækur mínar hefur fullt af fólki haft samband við mig og sagt mér drauma sína. Það hefur hringt í mig bláókunnugt fólk til að bera drauma sína undir mig,“ segir Símon.

„Það hringdi í mig íslenskur strákur frá Noregi fyrir nokkrum árum síðan, hann var að velta fyrir sér að skipta um vinnu. Hann talaði við mig í upp undir klukkutíma og sagði mér langan og merkilegan draum. Hann vildi láta mig ráða í drauminn og segja sér hvort hann ætti að skipta um vinnu eða ekki. Ég kom honum smátt og smátt inn á það að taka þá ákvörðun sjálfur, en ég veit ekki hvort hann skipti um vinnu, það stefndi allavega allt í það.“

Símon segir að þrátt fyrir að hann hafi skrifað bækur um draumaráðningar sé hann enginn draumaráðningamaður. Hann hafi þó gaman af því að fólk vilji segja honum drauma sína.

„Ég hef fengið fleiri svona skemmtileg símtöl. Svo er ég menntaskólakennari og nemendur mínir eru líka stundum að spyrja mig út í drauma sína. Þeir verða þá stundum eftir þegar tíminn er búinn og segja mér drauminn og vilja vita hvað hann táknar,“ segir Símon og bætir við að það væri áhugavert að kanna draumatrú Íslendinga með alvöru rannsókn.