Það var vinkona mín sem kenndi mér að prjóna fyrir svona tíu árum, þegar ég var kominn yfir þrítugt, og ég fékk mikinn áhuga á því,“ útskýrir Guðmundur.

„Ég stofnaði síðan saumaklúbb á ölstofu Kormáks og Skjaldar og kallaði hann Baðstofuna. Pælingin var að fólk hittist þar að prjóna, en svo fór hann dálítið mikið á flug. Það átti að hittast snemma í vikunni og einn átti að lesa úr bók, svona eins og húslestur og aðrir áttu að stunda handverk. Seinna fór ég svo að vinna hjá Varma í prjónaframleiðslunni til að kynna mér prjónið meira. Mér fannst það mjög áhugavert, að vinna á prjónaverkstæði og sjá hvernig það ferli fór fram.“

Guðmundur hannar sjálfur það sem hann prjónar og hefur mjög gaman af hugmyndavinnunni í kringum það.

„Ég hef sérstaklega gaman af plötulopa, hann er hrár og notalegur og gefur grófa áferð. Svo er gaman að blanda saman plötulopa og einbandi. Núna er ég að prjóna peysu, ég hef prjónað mikið af peysum en ég hef líka verið að búa til ýmislegt annað úr ullinni, ég hef verið með alls konar tilraunamennsku með litla hluti, ég þæfði til dæmis hjarta inn í flösku og hef búið til blóm úr ull og ýmislegt fleira,“ segir hann.

Guðmundi finnst ullin heillandi og segir að sér þætti gaman að geta unnið ull frá reyfi.

„Það er áhugavert hvernig ullin er unnin, þrifin, spunnin, lituð og eitthvað búið til úr henni. Allt þetta ferli þykir mér mjög spennandi. Ég hef ekki prófað að vinna ull frá grunni, en ég fór einu sinni á námskeið á Hvanneyri í náttúrulitun ullar. Það var mjög áhugavert og ég væri til í að prófa mig meira áfram með það,“ segir Guðmundur.

Vinnustofa á Ítalíu

Fyrir þremur árum seldi Guðmundur hús sem hann átti og keypti sér litla íbúð á Ítalíu, en hann á líka litla íbúð í Vestmannaeyjum þar sem hann býr núna.

„Pælingin var að vera með vinnustofu á Ítalíu og vera þar svolítið að vinna við hönnunina mína. Íbúðin er fyrir norðan Róm á milli Rómar og Flórens. En vegna COVID hef ég ekki mikið getað verið þar á síðasta ári. Ég veit ekki hvaða forgang ég hef á sjúkrahús þar ef ég skyldi verða veikur og ástandið þar hefur ekki verið gott. En ég vona að ég geti bráðum farið að vera meira þar. Ég stúkaði líka af hluta af íbúðinni minni í Vestmannaeyjum og það er draumurinn minn að geta haft litla vinnustofu þar líka. Ég reyni að búa á tveimur stöðum ef ég get það.“

Aðspurður að því hvað heilli hann mest við prjónaskapinn segir hann að það að prjóna sé svo góð slökun.

„Það er bara svo yndislegt að geta prjónað. Ég horfi lítið á sjónvarp en mér finnst góð stund að sitja og hlusta á tónlist og prjóna og slaka á. Eins og ég sagði áðan þá finnst mér hugmyndavinnan líka mjög skemmtileg. Að hanna eitthvað og reyna svo að búa það til. Ég byrja yfirleitt á að pæla í litunum, ég vel mér svo liti og vinn út frá því. Oft veit ég ekkert hvað ég er að fara að gera í upphafi. En þó ég hanni sjálfur og noti ekki uppskrift þá er peysa alltaf peysa í grunninn. Það er bara ákveðin formúla fyrir peysu, en svo geturðu sett þín mörk á hana. En þegar ég prjóna eitthvað annað en föt þá get ég notað hugmyndaflugið meira.“

Guðmundur prjónar ekki eftir uppskrift heldur hannar flíkurnar sjálfur eins og þessa fallegu peysu.
Þegar Guðmundur hannar byrjar hann yfirleitt á að ákveða litina.
Þessi barnaboki úr ull eftir Guðmund er eflaust hlýr og notalegur.
Blóm úr þæfðri ull eftir Guðmund kemur skemmtilega út í glugganum.