Þessi sýning er ekki síst óvenjuleg fyrir það að þarna er mikið af verkum Kjarvals sem hafa ekki verið sýnd áður,“ segir Aldís Arnardóttir, listfræðingur og sýningarstjóri sýningarinnar Líðandin -­ la durée á Kjarvalsstöðum. Aldís segir að á sýningunni sé mikið af verkum frá fyrri hluta ferils Jóhannesar Kjarvals og mörg hver séu frá því fyrir 1930 en þó líka eitthvað um nýrri verk. „Reyndar valdi ég inn á þessa sýningu nokkuð af verkum sem Kjarval er minna þekktur fyrir. Það eru þarna tússverk og skissur af hvítasunnudegi og fleiri verk frá þessum tíma sem hafa ekki sést áður saman.“


Líðandin – ­ la durée, vísar í kenningar franska heimspekingsins Henri Bergson (1851-1941) sem var mjög þekktur í upphafi tuttugustu aldar. Kenningar Bergson um líðandina (la dureé) og lífsþróttinn (elan vital) mynduðu grunninn að því sem kallast bergsonísk fagurfræði en eitt af því sem hann velti mikið fyrir sér var tímaskynjun mannsins. Bergson setti fram hugmyndir um tímann sem útreiknanlegan og mælanlegan en einnig sálfræðilegan, innri tíma; líðandi. Það er sá tími sem maðurinn skynjar sem samfellt flæði. Bergson útskýrir líðandina þannig að lífið sé samfella minninga fortíðarinnar sem framlengist inn í nútíðina og þetta er á meðal þeirra kenninga sem framúrstefnumenn sóttu í á þessum tíma.

Aldís segir að eitthvað hafi Kjarval sótt í þetta á þessum tíma. „Á þessum tíma var hann að kynna sér framúrstefnu og fútúristar og kúbistar sóttu í þessar hugmyndir Bergson, en tóku bara upp það sem þeim hentaði af hans kenningum. Kjarval kynnir sér þeirra verk og verður fyrir áhrifum frá þeim strax í upphafi ferilsins þegar hann fer til London í lok árs 1911. Þá er hann að lesa um þessar farandsýningar fútúrista og skrifaði niður sínar hugleiðingar um þetta. Auk þess þá þekkti hann doktor Guðmund Finnbogason sem lærði hjá Bergson einn vetur og hélt seinna fyrirlestra hér heima um heimspekileg málefni. Kjarval náði sér meira að segja í bækur Bergson í danskri þýðingu og þær eru til í safnkosti Listasafns Reykjavíkur.“

Aldís segir að það sé mjög forvitnilegt að skoða verk Kjarvals frá þessum tíma í þessu ljósi. „Það leynir sér ekkert að hann var að skoða þetta en hann nálgast þetta líka alltaf með sínum gleraugum. Hann tekur aldrei hlutina beint upp heldur tekur upp ákveðin áhrif sem hann svo blandar við sínar hugmyndir. Þannig að það verður alltaf úr þessu eitthvað sem við getum kallað mjög kjarvalskt. Og þó hann hafi verið að kynna sér þetta þá var hann á sama tíma jafnvel að skoða aðra hluti og maður sér í þessum myndum að hann þreifar á mörgu á sama tíma. En þessi þáttur í list Kjarvals hefur ekkert mikið verið dreginn fram þannig að mér fannst áhugavert að fá að sýna þessi verk og gera það í þessu samhengi.“

En gætir áhrifa frá þessari vinnu Kjarvals svo í hans seinni tíma verkum? „Já, en það er með öðrum áherslum. Þá getur maður til að mynda séð hvernig hann reitaskiptir landslaginu og brýtur upp formin í anda kúbismans og leggur svo þetta fínlega mynstur yfir náttúruna. Þar sér maður að það eimir af þessum áhrifum og það gerir það allan ferilinn þó svo að hann takist á við það með öðrum hætti en hann gerði í upphafi ferilsins. Seinna á ferlinum varð hann svo mjög þekktur fyrir myndaraðir þar sem hann endurtekur sama stæðið í sífellu, hann átti sín uppáhalds málarastæði sem hann sótti í, og ef maður hugsar um það í samhengi við Bergson þá erum við einmitt aldrei að gera sömu myndina. Það verður alltaf einhver breyting á milli og þá kemur inn þess tímahugsun, þessi líðandi, frá Bergson og það má tengja það við þessi verk þar sem Kjarval endurtók sama stæðið. Þetta er svona dæmigert fyrir það hvernig hann tók ákveðnar hugmyndir og vann svo með þær á sínum eigin forsendum.“