Alma Dóra heldur úti hlaðvarpinu Konur í nýsköpun en hún segir hlaðvarpið snúast um að fjölga fyrirmyndum og auka sýnileika kvenna í nýsköpun.

„Ég er menntaður viðskiptafræðingur og hef alltaf haft áhuga á nýsköpun. Ég var samt komin yfir tvítugt þegar ég áttaði mig á því að störf eins og forstjóri eða frumkvöðull væru raunverulegir möguleikar fyrir mig, sem mér þykir frekar sláandi þegar ég lít til baka. Markmiðið mitt með útgáfu hlaðvarpsins er að auka sýnileika kvenna í nýsköpun, svo framtíðarkynslóðir eigi nóg af fyrirmyndum til að spegla sig í frá unga aldri” segir Alma.

„Ég fékk það verkefni í kynjafræðinni seinasta vor að skoða nýsköpunarsjóði á vegum atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins út frá kynjasjónarmiðum. Tölfræðin hafði þá ekki verið uppfærð síðan 2013 og þær tölur sýndu að konur voru ekki að fá nema 20% styrkjaúthlutana. Ég fékk svo styrk frá Nýsköpunarsjóði námsmanna til að skoða stöðu og valdeflingu kvenna ennþá betur. Þá ákvað ég að fara ekki einungis yfir tölfræði og rannsóknir, heldur að tala líka við kvenfrumkvöðla, fjárfesta og áhrifakonur úr nýsköpunarumhverfinu á Íslandi. Úr varð rannsóknarskýrsla sem ráðuneytið nýtir nú til að stuðla að jafnrétti með úthlutunum sjóðanna. Viðtölin ákvað ég svo að gera aðgengileg og úr varð hlaðvarpið Konur í nýsköpun sem kemur út á helstu streymisveitum og finna má á samfélagsmiðlum.”

Smáforrit fyrir húsverkin

Alma er sjálf frumkvöðull en ásamt Sigurlaugu Guðrúnu Jóhannsdóttur vann hún Gulleggið á síðasta ári fyrir viðskiptahugmyndina HEIMA.

“HEIMA er smáforrit sem sér um skipulag og hugræna byrði heimilisins á skemmtilegan og jafnréttismiðaðan máta. Markmiðið okkar er að einfalda fjölskyldum að skipta heimilisverkunum jafnt á milli sín og spara þeim tíma í leiðinni. HEIMA útbýr verkefnayfirlit byggt á þörfum fjölskyldunnar og gerir fjölskyldumeðlimum kleift að safna stigum fyrir hvert unnið verk. Við erum ótrúlega spennt að sýna fólki það sem við höfum verið að þróa og stefnum á að gefa út frumgerð núna í sumar. Hægt er að fylgjast með HEIMA teyminu á www.heimaapp.is eða undir heimaapp á Facebook og Instagram.” segir Alma.

Fyrirtækið er samfélagsdrifið en Alma tók meistarapróf í alþjóðaviðskiptum í San Francisco í Hult International Business School í San Francisco og New York þar sem áhersla er lögð á samfélagsdrifin fyrirtæki.

„Það drífur mig áfram að vinna að því að gera heiminn að betri og jafnari stað og það heillaði mig að geta nýtt viðskipti til að stuðla að því.“ segir hún.

Alma útskýrir að samfélagsdrifin fyrirtæki láti samfélagslegan ágóða standa jöfnum fæti við fjárhagslega sjálfbærni.

„Slík fyrirtæki skapa samfélagslegan ágóða með rekstrinum sínum. Það getur verið á ýmsum sviðum en lykilatriðið er að slíkum ágóða sé ekki fórnað fyrir fjárhagslegan ágóða. Þetta er öðruvísi rekstur en hjá fyrirtækjum sem eru fyrst og fremst hagnaðardrifin og hafa svo einhver bein eða óbein jákvæð áhrif á samfélagið. Hjá samfélagsdrifnu fyrirtæki er það partur af kjarna starfseminni að stuðla að samfélagslegum ágóða. Til þess að slík fyrirtæki geti starfað til langs tíma og haft veigamikil áhrif verður auðvitað að liggja sjálfbært viðskiptamódel þar að baki”.

Alma segir að HEIMA sé núna að taka þátt í viðskiptahraðlinum Snjallræði sem er fyrir samfélagsdrifna sprota.

„Snjallræði snýst um að byggja viðskiptamódel í kringum heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun. Markmið 5.4 er meginmarkmið HEIMA þar sem það snýr að því að að tryggja jafnrétti kynjanna með því að viðurkenna ólaunum heimilisstörf og ýta undir sameiginlega ábyrgð innan fjölskyldunnar. Við erum að þróa fjárhagslega sjálfbæra leið til þess að uppfylla þetta heimsmarkmið.“