Ófarir bandaríska áhrifavaldsins Caroline Calloway hafa ratað víða á undanförnum dögum, meðal annars til Hollywood leikarans Seth Rogen, en Calloway hefur verið sökuð um að hafa vísvitandi ætlað sér að blekkja fylgjendur sína til þess að hafa af þeim pening með umdeildum námskeiðum um sköpunargleði. Calloyway endaði á að halda einungis einn slíkan fund og segist ekki hafa ætlað að blekkja neinn, hún hafi bara ekki skipulagt sig betur.

„Þessi þráður er FERÐALAG, en virði lengdarinnar. Þú gætir ekki skapað betri háðsádeilu um menningu áhrifavalda heldur en þetta,“ ritar blaðamaðurinn Guy Lodge og deilir Seth Rogen færslu hans á Twitter síðu sinni eins og áður segir en þar vísar Guy sjálfur í færslur blaðakonunnar Kayleigh Donaldson sem fylgst hefur náið með Calloyway á Instagram og segir hana hafa stundað einfaldan blekkingarleik.

Forsaga málsins er sú að Calloway ætlaði sér að ferðast um Bandaríkin með boðskap sinn en hún hefur um áttahundruð þúsund fylgjendur og bjóða fylgjendum sínum að hitta sig fyrir 165 dollara hver, eða því sem nemur um tuttugu þúsund íslenskum krónum. 

Um fimmtíu manns mættu og borguðu sig inn á umrætt námskeið í New York en Calloyway hafði til að mynda lofað hverjum og einum salatrétti, persónulegu bréfi auk krukku með sólblómafræjum. Pantaði hún því 1200 krukkur og í Instagram færslum sem hún birti þegar hún fékk krukkurnar sendar, er ljóst að hún bjóst alls ekki við umfangi þeirra né umfangi alls þess sem hún hafði lofað.

Fannst rétt að rukka 165 dollara

Daginn fyrir viðburðinn tilkynnti hún þeim þó að hún hefði einfaldlega ekki tíma til að skrifa bréfin en hún bjóst við að það myndi taka hana um klukkustund að skrifa hvert og eitt bréf og voru það mikil vonbrigði fyrir marga af gestunum sem sent höfðu henni tölvupósta og vonast eftir persónulegum svörum. Auk þess lofaði hún upprunalega hverjum og einum blómakórónu en dró það svo til baka.

„Ég fattaði ekki að ég myndi þurfa að hafa starfsfólk til þess að hjálpa mér. Þegar ég bý til salat, þá geri ég það bara fyrir einn vin. Ég sagðist ekki hafa skipulagt þetta af því að ég væri heimsk, en ég skipulagði þetta ekki af því að ég vissi þetta bara ekki,“ segir Calloway í samtali við Buzzfeed News og vísar þar til umstangsins.

„Mér fannst rétt að rukka 165 dollara, af því að mér fannst ég hafa nægilega mikið fram að færa og hafði of mikla trú á sjálfri mér. Ég tek fulla ábyrgð á því að viðburðurinn var alls ekki eins og fólk hafði búist við.“

Upprunalega ætlaði Calloyway sér að ferðast til margra borga í Bandaríkjunum og jafnvel til Evrópu en eftir umfjöllun áðurnefndrar Donaldson og það sem hún segir vera „slæma skipulagningu“ fyrir fyrsta viðburðinn í New York borg, hefur hún hætt við frekari námskeið. Allir þeir sem borguðu miða fyrir þau námskeið hafa fengið endurgreitt. 

Baðst afsökunar

„Ég tek fulla ábyrgð á því sem ég gerði vitlaust og ég tek auðmjúk við allri gagnrýni. En ég veit hve mikla þýðingu viðburðurinn hafði af því að ég var þarna. Aðdáendur mínir vita hvað hann hafði mikla þýðingu. 

Það væri klikkun að læra ekki af þessari gagnrýni, alveg eins og það væri klikkun að láta fólk sem er ekki fylgjendur mínir stjórna afgangi lífs míns. Ég óska þeim alls hins besta, það er erfitt að vera manneskja.“

Calloway segist ætla að senda persónulegan tölvupóst til allra sem hittu hana í New York og biðjast afsökunar og borga öllum til baka sem það vilja.